Gerðir kirkjuþings - 2018, Page 33
33
– Skálholtsútgáfan þarf að standa undir sér og fjármagnar sjálf sín útgáfuverkefni af rekstri
en getur sótt um styrk til útgáfuverkefna.
SKÁLHOLTSÚTGÁFAN
Skálholtsútgáfan, útgáfufélag þjóðkirkjunnar er rekstraraðili verslunarinnar Kirkjuhúsið
á jarðhæð biskupsstofu á Laugavegi 31. Gegnum árin hefur þessi stofnun þjóðkirkjunnar
þróast í það að vera ekki aðeins útgáfufélag og verslun á kristnum grunni heldur líka
félagsmiðstöð fyrir starfsfólk kirkjunnar og þá ekki síst fyrir presta, sem á leið um og á
erindi við biskupsstofu. Hér er rætt um starfið og ýmsar leiðir og lausnir fundnar um leið
og nýtt fræðsluefni er kynnt yfir kaffibolla. Auðvitað eru sagðar sögur af skemmtilegu fólki
og ótrúlegum atburðum á kirkjuvettvangi. Fólk á leið til funda á biskupsstofu rennur einnig
í gegn í stríðum straumum, gegnum lagerinn, sérstaklega yfir vetrartímann og vekur gleði
hjá starfsfólki hér. Auðvitað er þetta mikið aukaálag og í því sambandi höfum við margoft
bent á möguleika þess að sameina verslun og móttöku biskupsstofu og kaffihús í andyri.
Útgáfa á vegum Skálholtsútgáfunnar er heilmikil ef miðað er við starfsmannafjölda, við
erum tvær sem sinnum þjónustu, verslun og útgáfu (og kynningu!) en fáum margskonar
aðkeypta aðstoð við úrvinnslu og ritstjórn útgáfuverkefna, einnig ómetanlega aðstoð frá
stjórn og útgáfuráði okkar. Við sinnum útgáfu fyrir innra starf kirkjunnar. Mörg stór
verkefni eru í vinnslu, þar má nefna ný skírnarkveðja sem jafnframt er minningabók
barnsins frá fæðingu til fermingar og síðan er það Sálmabókarútgáfan 2018 í samstarfi við
sálmabókarnefnd þjóðkirkjunnar, eins og áður var minnst á.
Mikil samvinna hefur verið við fræðslusvið biskupsstofu þar sem Elín Elísabet
Jóhannsdóttir hefur staðið vaktina og ekki síður við Sigfús og Hildi Björk frá áramótum
2018. Skálholtsútgáfan og fræðslusviðið eru tvær hliðar á sama peningi og er það góð
ráðstöfun. Enda erum við að vinna sömu verkefni á sviði kirkjufræðslu. Öll verkefni
á sviði kirkjufræðslu og útgáfu eru unnin saman og þannig hefur það alltaf verið. Á
hverju ári stendur fræðslusvið biskupsstofu og Skálholtsútgáfan saman að kynningu á
barnastarfi kirkjunnar. Hvert ár er útbúið myndband sem náð hafa mikilli útbreiðslu á
samfélagsmiðlum. Stuttmyndir hafa einnig verið framleiddar fyrir barnastarf kirkjunnar,
auk fjölbreytts efnis fyrir sunnudagaskólann. Fundað er með fræðslusviði nánast vikulega.
Skálholtsútgáfan vill vera framsækin, prógressív kristin útgáfa sem hlustar á samtímann.
Hún vill styðja forelda í uppeldishlutverki sínu í flókinni veröld, gefa út efni sem svarar
spurningum lífsins og mæta þörfum fólks sem vill fræðast um kristna trú, í mótbyr og
meðbyr lífsins, gefa út stuðningsefni til að nota á erfiðum tímum og á tímamótum. Styðja
kirkjurnar í sínu fræðsluhlutverki – efni fyrir barnastarf ýmis konar, fermingarstarf,
skírnarfræðsluefni, barnabiblíur, svo eitthvað sé nefnt.
Útgefið efni – (fjölda titla/verkefna) er gríðarmikið. Í dag telst okkur til að útgefnir
titlar séu um 400. Bækur á kristnum grunni af ýmsum toga (127) – Fjársjóðir, plaköt og
ýmislegt annað efni (25). Barnabækur og DVD efni fyrir börn (74). Fræðsluefni fyrir börn
og unglinga (62). Tónlist, kórbækur, CD, sálmabókarútgáfa (55). Fermingarefni (18) auk
þess ýmislegt annað efni árlegt eins og barnastarfsefni.