Iðjuþjálfinn - 2020, Page 10

Iðjuþjálfinn - 2020, Page 10
10Iðjuþjálfinn 1/2020 boðaliði og fjölskyldumeðlimur til að koma til móts við íslenska menningu. Skilgreiningar þriggja hlutverka héldust óbreyttar (sjá töflu 1). Sérfræðingur í íslensku las yfir íslensku útgáfuna. Honum fannst hugtökin heimilishaldari og tómstundaiðkandi vera fremur óþjál og lagði til að nota frekar fleiri lýsandi orð eins og þátttakandi í heimilishaldi og þátttakandi í tómstundaiðju. Ákveðið var þó að halda sig við álit meirihluta rýnihópsins. Heimilishaldari er iðjuþjálfum tamt frá fyrri útgáfu listans og tómstundaiðkandi er þekkt í samfélaginu, en það kemur fyrir í ýmsum skýrslum á netinu, greinum, þingskjali og bókum. Að þessu loknu var rannsóknarútgáfa listans tilbúin til prófunar, sjá töflu 1. RÉTTMÆTI OG NOTAGILDI Í rannsókn sem sneri að mati á réttmæti og notagildi íslensku útgáfunnar voru iðjuþjálfar og skjólstæðingar þeirra spurðir um reynslu sína af Hlutverkalistanum og viðhorf til hans. Þátttakendur og öflun gagna Um var að ræða tilgangsúrtak (Katrín Blöndal og Sigríður Halldórsdóttir, 2013), þar sem valdir voru þátttakendur sem búa yfir þekkingu á efninu. Til viðbótar við iðjuþjálfana sem tóku þátt í rýnihópnum (sjá hér að framan) var stofnað til samstarfs við fimm iðjuþjálfa sem starfa á þverfaglegri endurhæfingarstofnun. Forstöðuiðjuþjálfi þar lýsti áhuga á samstarfi við rannsakendur eftir að hafa fengið upplýsingar um rannsóknina símleiðis og í kjölfarið með kynningarbréfi. Hann falaðist síðan eftir þátttakendum úr samstarfshópi sínum. Iðjuþjálfarnir sem samþykktu að taka þátt funduðu með rannsakendum þar sem þeir fengu ítarlegar upplýsingar um rannsóknina og alla framkvæmd hennar. Að því loknu fengu þeir í hendur hina nýju útgáfu Hlutverkalistans og spurningalista ásamt skriflegum leiðbeiningum um gagnaöflunina. Einu bakgrunnsupplýsingar þátttakenda sem beðið var um voru kyn og aldur skjólstæðinga, aldur og starfsreynsla iðjuþjálfanna. Eftir að iðjuþjálfi hafði lagt Hlutverkalistann fyrir skjólstæðing sinn kannaði hann hvort skjólstæðingurinn væri til í að svara nokkrum spurningum um listann og taka þannig þátt í könnun á gagnsemi hans. Skjólstæðingnum var sagt að þátttaka væri frjáls og að hann gæti dregið sig út úr rannsókninni hvenær sem væri. Spurningalistinn var í tveimur hlutum þar sem skjólstæðingurinn var beðinn um (a) nefna dæmi um hvert af hlutverkunum 10 sem hann hafði gegnt eða ætlaði sér á einhverjum tímapunkti að gegna og (b) að svara fimm já/nei spurningum og útskýra svar sitt nánar ef það var neikvætt. Dæmi um slíka spurningu var „Fjallar Hlutverkalistinn um mikilvæg málefni?“ Þegar iðjuþjálfarnir höfðu safnað gögnum frá 25 skjólstæðingum í allt svöruðu þeir sjö opnum spurningum hver. Dæmi um slíka spurningu var: „Hvernig sérðu fyrir þér að nota Hlutverkalistann í framtíðinni?“ Iðjuþjálfarnir sem áður höfðu tekið þátt í rýnihópnum um þýðingu listans svöruðu samsvarandi spurningum rafrænt. Iðjuþjálfarnir á endurhæfingarstofnuninni, allt konur, voru á aldrinum 39–59 ára með starfsreynslu á bilinu 5 til 32 ár. Skjólstæðingarnir voru á aldrinum 25–68 ára, 5 karlar og 20 konur, með ólíkan heilsufarsvanda af líkamlegum og/eða andlegum toga. Gagnagreining Frumgögnin, svör skjólstæðinga og iðjuþjálfa við spurningalistunum og dæmi skjólstæðinganna um hlutverk, voru handskrifuð. Þau voru slegin inn í tölvu til að auðvelda yfirsýn og greiningu. Tvö skjöl voru lögð til grundvallar greiningunni. Annars vegar var um að ræða svör allra þátttakenda við spurningunum þar sem beitt var sniðmátsgreiningu (e. template analysis) (King, 2012), en þá eru þemu og kóð að mestu ákveðin fyrir fram. Dregin voru fram hugtök og orðasambönd sem sneru að innihaldi, formi og gagnsemi listans en þessi þemu má túlka sem vísbendingar um sýndarréttmæti, innihaldsréttmæti og notagildi Hlutverkalistans. Þessi hluti greiningar var í höndum tveggja fyrstu höfundanna sem greindu gögnin sitt í hvoru lagi, báru saman og samræmdu niðurstöðurnar. Hitt skjalið var listi með dæmum sem skjólstæðingarnir gáfu um hlutverk sín. Þau voru flokkuð samkvæmt skilgreiningum MOHO á stigum iðju sem þátttaka, framkvæmd eða framkvæmdaþáttur (Kielhofner, 2008; Taylor, 2017). Svörin voru þýdd yfir á ensku þannig að allir höfundarnir gætu komið að flokkuninni. Rannsakendur flokkuðu gögnin hver í sínu lagi og síðan báru þeir saman bækur sínar. Nokkrar umræður urðu og endurskoðun þar til samhljóða niðurstöður fengust. Niðurstöður Niðurstöðurnar eru settar fram í þremur hlutum sem í heildina endurspegla sýndarréttmæti, innihaldsréttmæti og notagildi listans. Inntak og form Almennt voru þátttakendur ánægðir með listann. Flestir þeirra töldu hugtakið hlutverk falla vel að íslenskri menningu enda algengt í ræðu og riti hér á landi. Hlutverk í mínum huga er að hafa ákveðnar skyldur, verkefni sem annaðhvort þarf að sinna eða vilji er til þess að sinna, eða að tilheyra ákveðnum hópum nærsamfélagsins eða umhverfisins (iðjuþjálfi E úr rýnihópi). Þótt flestir legðu svipaðan skilning í hugtakið þá bentu iðjuþjálfarnir á að stundum þyrfti að útskýra inntak þess fyrir skjólstæðingunum. Þá kom einnig fram að sum hlutverk voru algengari en önnur. Flestir samsama sig vinnu-, foreldra- og makahlutverki en spá ekki mikið í önnur hlutverk sem sannarlega geta haft mikið að segja í daglegu lífi. Hlutverkin sjálfboðaliði og þátttakandi í trúarstarfi virðast ekki vera mjög sterk í íslenskri menningu (iðjuþjálfi 2). Bent var á að hlutverk væru misjafnlega fyrirferðarmikil og að fjölskylduhlutverkið væri það umfangsmesta. Mörg smærri hlutverk falla þar undir s.s. maki, systir/bróðir, barn, foreldri og kom fram ábending um að það gæti verið takmarkandi. Mér finnst að maki og börn ættu ekki að vera flokkuð saman. Ég t.d. er mjög mikið með börnin en finnst ég fá allt of lítinn tíma með maka (skjólstæðingur 21). Skilgreiningar á hlutverkum og leiðbeiningar um útfyllingu listans voru að mati flestra þátttakenda skiljanlegar en þó kom það fyrir að iðjuþjálfar þyrftu að útskýra leiðbeiningarnar nánar fyrir skjólstæðingum. Almenn ánægja var með báða kvarðana, þ.e. frammistöðukvarðann og kvarðann um löngun til að gegna hlutverki. Einum skjólstæðingi fannst þó vanta möguleikann „á ekki við“ í síðari kvarðanum fyrir þá sem höfðu löngun en ekki getu eða tækifæri til að gegna ákveðnu hlutverki.

x

Iðjuþjálfinn

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Iðjuþjálfinn
https://timarit.is/publication/1164

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.