Iðjuþjálfinn - 2020, Síða 28
28Iðjuþjálfinn 1/2020
mikinn mun á fjölda nemenda og háskólaumhverfinu. Í Ástralíu
voru 140 manna nemendahópar í fyrirlestrasal á hverjum tíma
þannig að tengslin við þá nemendur urðu mjög ólík þeim tengslum
sem mynduðust við nemendurna á Akureyri. Fjarlægðin var lýjandi,
alltaf flogið á milli Reykjavíkur og Akureyrar þannig að þegar Valerie
eignaðist dóttur sína gerðist hún stundakennari. Henni finnst enn
gott að geta haldið tengslunum við iðjuþjálfunarfræðideildina í
Háskólanum á Akureyri.
Einnig hafði Guðrún Árnadóttir samband við Valerie um þetta leyti
þar sem mikill áhugi var fyrir að A-ONE matstækið yrði kennt í Asíu
og því þurfti að þjálfa iðjuþjálfa þar sem gætu haldið námskeið í
A-ONE. Valerie sló til, fór í þjálfun til Guðrúnar og þær fóru saman til
Asíu, um 7–8 ár í röð. Nú er þjálfun að verða lokið í Japan og Kóreu
og nú er Guðrún að þjálfa iðjuþjálfa á Ítalíu. Samhliða þessu hafa
þær líka verið með námskeið í Texas og svo hérlendis. Valerie segir
það hafa verið mikinn heiður að Guðrún hafi beðið hana að koma
með sér í kennslu á A-ONE. Hún segist hafa öðlast dýrmæta reynslu
í þessu verkefni og lært margt. Hún segir Guðrúnu Árnadóttur vera
þann iðjuþjálfa sem hafi haft mest áhrif á starf hennar sem
iðjuþjálfa.
Nú hefur Valerie dregið úr þátttöku sinni í kringum A-ONE
námskeiðin þar sem vinnan í Sjálfsbjörg hefur aukist mikið. Hún
segir það vera dýrmæta reynslu að fá að þjálfa aðra iðjuþjálfa og
kenna þeim. Þó þetta sé erfitt þá hefur þetta verið mjög skemmtilegt
að hennar sögn. Það sama segir hún um starfið hjá Sjálfsbjörg, gott
að hafa tengslin við Háskólann á Akureyri. Þó það séu ákveðin
kynslóðaskipti hjá kennurunum við Háskólann á Akureyri þá er
Valerie bjartsýn á að starf skólans muni eflast frekar í framtíðinni
því metnaðurinn er mikill. Stærstan hluta starfsferilsins hefur
Valerie starfað á Íslandi og telur sig hafa verið mjög lánsama og
starfað með mörgu góðu fólki.
BREYTINGAR Í IÐJUÞJÁLFUN
Valerie er spurð um þær breytingar sem orðið hafa á iðjuþjálfuninni
í gegnum árin. Hún segir að þegar hún hafi verið í námi hafi fyrsta
MOHO-bókin komið út og hún hafi hugsað: „Ég ætla ekkert að
kaupa þetta, einhver óþarfi.“ Eftir á áttaði hún sig. Valerie segir
einnig að meira sé núna til af iðjuþjálfabókum og útgefnu efni en
þegar hún útskrifaðist og trúir því að mikið af námsefninu sé
aðgengilegra og notendavænna nú en margt að því heimatilbúna
námsefni sem hún studdist við, t.d. leshefti frá kennurum og þess
háttar. Nú er meira af kenningum og matstækjum í boði, hún telur
núverandi nemendur fá sterkari upplifun og þekkingu úr
iðjuþjálfafaginu og minna sé fengið að láni annars staðar frá. Hún
segist enn muna eftir því þegar hún kom til Íslands og las bókina
Brain and behaviour eftir Guðrúnu Árnadóttur í fyrsta skipti. Hún
fékk hugljómun, að geta metið vandann út frá framkvæmdinni og
hvað hefði áhrif á getu einstaklingsins. „Þetta er málið, þetta er
iðjuþjálfun, skilurðu!“ lýsir hún og segist ekki vilja fara til baka í
þeim málum.
Valerie segir líka samfélagið hafa breyst á iðjuþjálfatíð sinni og það
hafi áhrif á hugsunarhátt iðjuþjálfa. Að sumu leyti hafi hún upplifað
Ástralíu með meiri fjölbreytileika en Ísland þegar hún flutti hingað
en Ísland hafi breyst. Vissulega séu komnir fleiri innflytjendur en
enn mikilvægara sé að fjölbreytileiki samfélagsins er að aukast og
fólk þorir að vera meira öðruvísi og fara sínar leiðir. Hún segir
mikilvægt að vera vakandi og passa að setja ekki manns eigin gildi
yfir á aðra.
MUNUR MILLI LANDA
Valerie segir að þegar hún flutti hingað fyrst hafi fólk nánast gert ráð
fyrir að hún væri Ameríkani af Keflavíkurflugvelli og margt hafi
breyst við að vera útlendingur á Íslandi síðan þá. Aðspurð um
muninn milli Íslands og Ástralíu segir hún fólk tala meira saman í
Ástralíu, spjalla meira við ókunnuga, sé meira í þessu óformlega
spjalli um daginn og veginn: „Þetta er á tilboði núna, komdu
endilega og kíktu á.“ Það séu öðruvísi samskiptareglur. Hún segist
alltaf fara ‘heim’ til Ástralíu og líka ‘heim’ til Íslands. Mest finnur
Valerie þó fyrir því að hafa ekki fjölskylduna sína hjá sér og það sé
sérstaklega erfitt núna í COVID-19 faraldrinum að vita af öldruðum
foreldrum sínum í útgöngubanni í Ástralíu.
Valerie var spurð út í nám sitt og hvað hún sæi líkt og ólíkt með
náminu þar og hér á Íslandi. Hún sagði hópana í Ástralíu hafa verið
stærri, uppbygging námsins hafi verið meira í fyrirlestraformi og
minna hægt að koma með spurningar nema í þar til gerðum
spurningatímum. Hún lærði í skóla þar sem fleiri heilbrigðisfög
voru kennd, hún fékk tengingu við læknadeild og fleiri
heilbrigðisstéttir og hún fékk því meira námsefni á því sviði. Hvað
námið á Íslandi varðar segir Valerie að henni finnist erfitt að tala í
fjarfundarbúnað og geta ekki verið í sama herbergi og nemarnir og
heldur jafnvel að þetta sé erfiðara þar sem hún kenni ekki á
móðurmáli sínu. Fámennu hóparnir í náminu á Íslandi gera það
hins vegar að verkum að nemendur fá meira úr náminu af því að
það er meiri nálægð við kennara og þar með ná þeir dýpri umræðum
og útskýringum, sérstaklega ef einhver lendir í vandræðum með
eitthvað efni.
Hún segir vera mun á nemendahópunum í Ástralíu og hér, í Ástralíu
fara flestir 18 ára í háskólanám og ljúka 21 árs. Flestir búa í
foreldrahúsum, þurfa að spá í fátt annað en námið og náms-
umhverfið er betra. Hér á Íslandi eru hins vegar fleiri nemendur
komnir með fjölskyldu. Þar eru kostir og gallar, 21 árs ertu kannski
svolítið ungur og óreyndur en getur einbeitt þér meira að náminu.
Íslensku nemarnir hafa oft í meiru að snúast meðfram náminu, eru
komnir með fjölskyldu, þurfa að hlaupa út í búð og kaupa í matinn
eða eru jafnvel með langveik börn. Þeir hafa ekki frið og ró til að
njóta námsins en á móti kemur þessi lífsreynsla sem er svo mikilvæg
og nemendurnir öðlast meiri skilning á hvað fólk er að vinna með.
Valerie var líka spurð í muninn milli landa í atvinnulífinu. Hún sagði
að í Japan og Kóreu væri mikill agi. Fólk mætti fyrr bæði til vinnu og
á A-ONE námskeiðið og missti ekki mínútu úr. Hins vegar höfðu
iðjuþjálfar þar minna um það að segja hvernig þjálfun þeir voru að
veita. Hún telur iðjuþjálfa á Íslandi hafa mikið frelsi til þess að nota
rökhugsun og þekkingu sína sem fagaðila, við að ákveða hvað er
rétt fyrir sinn skjólstæðing. Það þarf ekki að hugsa um hvort
tryggingafélagið muni borga. Víða um heim þarf að hafa áhyggjur
af tryggingamálum, t.d. er verið að reyna að fá A-ONE matstækið
inn á endurgreiðslulista tryggingafélaga. Ástralía er kannski nær
Íslandi hvað þetta varðar, það fer eftir því hvar fólk vinnur, hjá ríki
eða í einkageiranum. Miðað við þá iðjuþjálfa sem hún sagðist hafa
talað við í Ameríku virðist ramminn vera frekar stífur, hvað
skjólstæðingur fær mörg skipti í þjálfun og hvað er hægt að fá
endurgreitt fyrir. „Það getur verið mjög erfitt fyrir þjálfara og komið
í veg fyrir að þjálfari hafi möguleika á að velja þá leið sem hann telji
besta,“ segir hún.
Valerie minnir á mikilvægi þess að berjast fyrir að halda í þessi kerfi
sem við höfum hér og styrkja þau frekar. Einnig að styrkja iðjuþjálfa
með þessum frábæru námsstyrkjum, nota þá og fá flott námskeið
eins og er búið að vera núna. Hvetja fólk áfram að efla sig og styrkja.