Iðjuþjálfinn - 2020, Page 36

Iðjuþjálfinn - 2020, Page 36
36Iðjuþjálfinn 1/2020 Hafdís er með fleiri hugmyndir sem hana langar að vinna frekar með. „Ég myndi vilja sjá að það hugsuðu fleiri um líkamsbeitingu og að létta byrðar, andlegar og líkamlegar. Það sé hugsað til þess að fólk geti verið lengur í vinnu við þær aðstæður sem viðkomandi vinnur í.“ Hún sér fyrir sér að vinnuumhverfið sé aðlagað að starfsmanninum, „t.d. ef maður er slæmur af verkjum ákveðinn tíma dags þá geti maður fengið að koma aðeins seinna. Maður er þá að mæta í vinnuna. Að það sé hægt að aðlaga vinnuna til þess að maður geti fengið að vera virkur,“ lýsir hún. VIÐHORFSBREYTINGAR ÞÖRF VARÐANDI STARFSHLUTFALL OG FLEIRA Gunnhildur er hugsi yfir starfshlutfalli og telur þörf á breytingum þar. „Ég held það hafi ekki verið gott skref þegar einhvern tíma fyrir einhverjum árum var tekið upp nýtt kerfi varðandi hlutastörf. Það hefur kannski eitthvað að gera með útreikninga, fólk er þá ekki að borga í lífeyrissjóð, af því fólk var að vinna fyrir og eftir hádegi 50% og 50% og það var allt í einu eitt stöðugildi sem tveir gátu unnið. Þá þurfti allt í einu að borga í tvo lífeyrissjóði í staðinn fyrir einn. Fyrirtækin þurftu að borga með starfsmanni ákveðna upphæð. Þess vegna eru svona mörg fyrirtæki sem segja bara nei, 100% eða ekkert,“ segir hún. Hún telur að ef þetta væri tekið til baka myndaðist tækifæri fyrir fólk sem treystir sér ekki í meira en 50% vinnu út af andlegum, líkamlegum eða jafnvel félagslegum ástæðum. „Þetta held ég að hafi verið mjög slæmt skref upp á vinnu starfsmanna. Og ég held líka að við sjáum fram á að nú á fólk bráðum að fara að vinna til sjötugs. Það eru bara ekki allir við það góða heilsu að þeir geti verið að vinna 100% vinnu til sjötugs. Þá ertu allt í einu í vinnu en þarft að taka lífeyrinn á móti ef þú ferð í hlutastarf,“ bætir hún við. Henni finnst sömuleiðis þörf á almennri viðhorfsbreytingu í samfélaginu. „Við þurfum einhvern veginn að skoða þessi skref betur og hlúa betur hvert að öðru heldur en við gerum. Við erum alltof hörð, við þurfum að vinda ofan af þessum gamla íslenska hugsunarhætti að við eigum bara að bretta upp ermarnar og það sem ekki drepi mann það herði mann. Ef þú ert ekki duglegur þá ertu bara ekki neitt. Við verðum að fara að uppfæra hausinn hjá Íslendingum, að hugsa betur um náungann,“ segir Gunnhildur með áherslu. SÝNILEIKI OG SAMVINNA Gunnhildur telur sömuleiðis sýnileika og samvinnu í starfi vera lykilatriði. „Í starfinu og hjá Vinnueftirlitinu langar mig til þess að leggja mitt lóð á vogarskálarnar með því að vera sýnilegri og aðgengilegri. Að við erum þarna, erum með frábært fólk þarna. Að efnið sem við eigum sé aðgengilegra og það sem við kunnum og getum komist betur til skila. Að fólk líti ekki á okkur sem einhverja Grýlu sem kemur í heimsókn og skammast. Það er alls ekki þannig. Yfirleitt er þetta í mjög góðri samvinnu við fyrirtækin. Það er ekki eins og Hafdís komi inn og taki allt í gegn, þetta er allt gert í samtali og á góðan máta,“ lýsir hún. Hafdís tekur undir þetta varðandi heimsóknir og samvinnu. „Fólk segir oft: Heyrðu, þetta var bara nokkuð gott. Og ég svara: Hvað, áttirðu von á einhverju öðru? Já, ég vissi ekkert hverju ég átti von á, en ég átti ekki von á svona góðu samtali,“ lýsir hún. KUNNUM LÍKA AÐ VERA HÖRÐ Gunnhildur segir að fólk geti verið hissa en auðvitað sé boðskapurinn alltaf sá sami, að koma í veg fyrir vanlíðan og slys í vinnu, ef hægt er að ræða saman. „Ég hef farið með Hafdísi í eftirlit, þú sest bara niður og spjallar, enginn refsivöndur,“ segir hún. Auðvitað verði síðan líka að grípa til aðgerða þar sem það þarf. „Ef þetta eru hættulegir vinnustaðir, eða eitthvað sem ógnar lífi og limum þeirra sem þarna vinna, þarf að grípa til aðgerða. Þá þurfum við auðvitað að vera ofsa hörð, við kunnum það líka, en að megninu til þarf þetta að vera þessi samvinna, að fólki finnist í lagi og gott að vinna sjálft að eigin forvörnum. Þurfi ekki einhverjar konur úti í bæ að koma og segja fólki það,“ bætir Gunnhildur við. „Ef þetta eru eftirlitsfyrirtæki eins og Heilbrigðiseftirlitið er alltaf smá spenna. Fólki finnst þetta pirrandi en það er mikilvægt að átta sig á að Vinnueftirlitið vinnur að því að fólki líði vel í vinnunni. Ef það þarf að grípa til aðgerða þá er það gert, en yfirleitt er þetta ósköp gott fólk sem kemur og skoðar staðina í sátt og samlyndi við yfirmenn og þá sem vinna þarna,“ heldur hún áfram. AÐ LOKUM Hafdís er mjög ánægð að sjá það sem fram undan er í sambandi við líkamsbeitinguna, „af því ég er búin að sakna þess svo mikið að við séum að spá í líkamann, þessar byrðar og allt saman. Það er svo gaman að sjá að við séum að koma með eitthvað og það sé eitthvað fram undan í þessum málum,“ segir hún. Gunnhildur bendir á að það séu stöður lausar á Húsavík og Egilsstöðum og hvetur iðjuþjálfa almennt til að hika ekki við að fara „í svona stöður eins og við erum í og bara prófa sig áfram. Þetta nám er svo ótrúlega víðfeðmt, við vitum um svo margt og getum komið með góða sýn inn. Þannig að ég hvet iðjuþjálfa til þess að flykkjast í Vinnueftirlitið,“ segir hún. Hafdís tekur heils hugar undir það, „ég myndi gjarnan vilja fá fleiri iðjuþjálfa,“ segir hún að lokum. IÐJUÞJÁLFAR Í AMSTRI DAGSINS

x

Iðjuþjálfinn

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Iðjuþjálfinn
https://timarit.is/publication/1164

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.