Iðjuþjálfinn - 2020, Page 47

Iðjuþjálfinn - 2020, Page 47
Iðjuþjálfinn 1/202047 KYNNING Í júní 2020 útskrifuðust fyrstu nemendurnir með BS-gráðu í iðju- þjálfunarfræði eftir þriggja ára nám samkvæmt nýrri námskrá í Iðjuþjálfunarfræðideild Háskólans á Akureyri. Í stað hefðbundinna BS-verkefna eins og tíðkast hefur, vinna nemendur á lokamisseri námsins nú að viðamiklum verkefnum í námskeiðunum Fræðileg skrif og gagnreynt starf og Nýsköpun. Verkefnin tengjast þannig að nemendur gera heimildasamantekt sem þeir síðan nota til að byggja undir nýsköpunarhugmyndir sínar og lausnir. Eftirfarandi eru upplýsingar um verkefni nemenda. A-VÁ: AFLEIÐINGAR VEGNA ÁFALLA Höfundar: Eva Björk Birgisdóttir, Sigríður Arna Lund og Sunna Hlynsdóttir Markmið samantektarinnar var að afla upplýsinga um áhrif áfalla í barnæsku. Horft var til skólaþátttöku barna og hvernig skólar geta veitt viðeigandi stuðning svo draga megi sem mest úr afleiðingum áfalla, þá sérstaklega með störfum iðjuþjálfa og snemmtækri íhlutun. Nýsköpunarlausn þeirra var námskeið fyrir starfsfólk grunnskóla. Námskeiðinu er annars vegar ætlað að auka þekkingu á áhrifum áfalla á skólaþátttöku og heilsufar barna og hins vegar að veita upplýsingar um ýmis úrræði sem hafa gagnast vel, meðal annars til að efla tilfinningatjáningu, seiglu og stuðla að öruggu skólaumhverfi. DCD VITUNDARVAKNING. Höfundar: Aðalheiður Þorsteinsdóttir, Helga Dröfn Jónsdóttir og Hólmfríður Einarsdóttir Tilgangur heimildasamantektarinnar var að afla upplýsinga um þátttöku barna með DCD (e. developmental coordination disorder) í daglegu lífi, íhlutun eða þjónustu fyrir þau og fræðslu til foreldra þeirra. Til að koma til móts við litla þekkingu almennings og fagfólks á einkennum, afleiðingum og úrræðum til að efla þátttöku barna með DCD, beindist nýsköpunin að fræðslu og upplýsingagjöf sem er fyrirhugað að miðla í gegnum vefsíðu og með stuttum fyrirlestrum. HUGARSTOFA Höfundar: Guðrún Agla Gunnarsdóttir, Guðrún Lilja Jóhannsdóttir og Steinunn Þorsteinsdóttir Tilgangur samantektarinnar var að varpa ljósi á áhrif efnislegs og félagslegs umhverfis á þátttöku fólks með ákominn heilaskaða og hvaða íhlutunarleiðir hafa borið árangur við að auka þátttöku þeirra í athöfnum daglegs lífs. Nýsköpunin var í formi aðgengilegrar dagþjónustu fyrir fólk með ákominn heilaskaða sem hefur það að markmiði að veita skjólstæðingsmiðaða færniþjálfun og skipulagt félagsstarf. GEÐVEIKT KYNLÍF Höfundar: Andrea Björt Ólafsdóttir, Elísabet Ósk Jónsdóttir og Herdís Júlía Júlíusdóttir Heimildasamantektin dró saman fræðilega þekkingu á áhrifum geðrænna áskorana á kynverund fólks. Skoðaðar voru sérstaklega heimildir um (1) áhrif geðlyfjameðferða á kynlíf, (2) áhrif kynverundar, nándar og parasambanda á meðferðarferli, og (3) fræðslu um kynverund og kynferðislega nánd. Nýsköpunin var vefsíðan www.gedogkyn.is sem er ætlað að opna á umræðu um samspil kynheilbrigðis og geðheilsu með því að miðla fræðslu og upplýsingum til almennings og fagfólks. ORKUKISTAN Höfundar: Guðbjörg Guðmundsdóttir, Heiðdís Rós Svavarsdóttir og Inga Margrét Benediktsdóttir Markmið heimildasamantektarinnar var að taka saman gögn um fræðslu og fyrirbyggjandi aðferðir fyrir konur með vefjagigt og reynslu þeirra af sjúkdómnum. Nýsköpunarhugmyndinni var ætlað að koma til móts við skilningsleysi og skort á úrræðum fyrir fólk með vefjagigt. Hún beindist að því að veita aðgengilega fræðslu til fólks með vefjagigt og hjálpa því að nýta einföld úrræði til að efla þátttöku í iðju og auka lífsgæði. Lausnin fólst í að opna vefsíðu þar sem hægt væri að finna fræðsluefni og hafa aðgang að fjarþjónustu iðjuþjálfa. Bergljót Borg, MSc, aðjúnkt í iðjuþjálfunarfræði við Háskólann á Akureyri Sigrún Kristín Jónasdóttir, PhD, lektor í iðjuþjálfunarfræði við Háskólann á Akureyri NÝSKÖPUNARVERKEFNI ÚTSKRIFTARNEMA Í BS-NÁMI Í IÐJUÞJÁLFUNARFRÆÐI 2020

x

Iðjuþjálfinn

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Iðjuþjálfinn
https://timarit.is/publication/1164

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.