Stefnir - 01.02.1979, Page 34
þar sem hún hafði fyrst ætlað sér
að verða listmálari, en síðan hefði
hana langað meira til að gera upp
gömul listaverk og lagfæra og fara
yfir listaverk hjá starfandi málurum.
Núna væri hún svo komin heim
aftur, og var farin að vinna hjá
Agnari listmálara úti á Nesi. Hann
var einn af yngri og efnilegri málur-
um þjóðarinnar, og hafði verið við
nám í París um svipað leyti og
Lauga.
Þá fór Lauga að tala um að hún
hefði aldrei gifst, og ástæðan væri
sú að Helgi hefði alltaf átt hug henn-
ar allan, hann hefði alltaf verið henn-
ar draumaprins þó hún hafi ekki gert
ráð fyrir að hitta hann nokkurn tíma
aftur.
Þegar hún hafði sagt þetta laut
hún að Helga og kyssti hann fast og
innilega, svo hann vissi varla í þenn-
an heim né annan. Hjartað fór að
slá örar, og hann tók á móti; klaufa-
lega í fyrstu, enda hafði hann ekki
áður kysst stelpu, en fljótlega fór
hann þó að færa sig upp á skaftið,
en Lauga ýtti honum frá sér jafn
skyndilega og hún hafði byrjað að
kyssa hann.
Hún fór að segja honum frá því
að þau ættu að fara að leggja fé til
hliðar sameiginlega. Hann yrði að
leggja hart að sér við vinnuna, og
sjálf væri hún að vinna öll kvöld hjá
listmálaranum, en í banka á daginn.
Strax eftir kvöldmat kvaðst hún fara
út á Nes til Agnars, og vera þar fram
eftir kvöldi eða jafnvel fram á nótt.
Það suðaði fyrir eyrunum á Helga.
— Gat það verið rétt, að Lauga væri
að tala um þau tvö; að þau ættu að
fara að skipuleggja framtíðina, sam-
eiginlega? — Var Lauga að tala um
að þau ættu að verða hjón; hann
34
heimski aulinn úr skólanum og hún
fallegasta stúlkan sem hann hafði
þekkt? — Slíkt var of gott til að
vera satt, en Lauga lét engan bilbug
á sér finna.
Það varð að samkomulagi að hann
sækti hana á hverju kvöldi heim til
hennar og æki henni út á Nes. Þar
var hún síðan fram á rauða nótt,
þar til hún hringdi til Helga og bað
hann að sækja sig. — Jafnvel kom
það fyrir að hún gisti vesturfrá ef
mikið var að gera.
Helgi dáðist að dugnaði hennar,
og sjálfur lagði hann meira á sig í
vinnunni en nokkru sinni. Alla pen-
inga sem hann þénaði og mátti
mögulega af sjá, lagði hann til hliðar.
Raunar sá Lauga um þá hlið málsins,
hún vann í bankanum og sá um að
leggja féð inn. Fyrir kom að hún
sýndi honum í bankabókina; —upp-
hæðin þar varð sífellt álitlegri, enda
var nú komið á þriðja ár síðan þau
Lauga fóru í ökuferðina örlagaríku.
Yfirleitt var hún fámál. Hann
sótti hana flest kvöld og ók henni
vestur á Nes að húsi listmálarans;
hann sótti hana ef hún óskaði þess,
og um helgar kom það fyrir að hann
ók með þau bæði, hana og listmál-
arann eitthvað út fyrir bæinn, þar
sem þau voru að velta fyrir sér ein-
hverju listrænu efni. Það kom líka
fyrir að hann ók þeim í samkvæmi,
enda var listmálarinn ókvæntur og
því kom það fyrir að hann bað Laugu
um að koma með sér í boð eða sam-
kvæmi. Það var synd að segja að
Helga líkaði það vel, en hann lét þó
kyrrt liggja. Ekki var honum heldur
boðið inn til Laugu, og ekki vildi
hún heimsækja hann. Hún var jafnan
of önnum kafin til að fara út með
honum, og oft var hún afundin eða
í fýlu.
Ef hann hafði orð á því við hana
eða kvartaði yfir þessu háttalagi
hennar, þá kyssti hún hann, og þá
voru allar sorgir gleymdar. Raunar
hafði hún nú nýlega sagt að þau
hefðu staðið sig svo vel, að þau gætu
bráðum farið að kaupa sér íbúð, og
þá giftu þau sig auðvitað um leið.
Fimm mínúturnar voru liðnar, og
vel það. Regnið buldi enn á rúðunni,
og bíllinn skókst annað veifið til í
rokinu. Það var líka kominn októ-
ber, og haustveðráttan farin að segja
til sín.
í kvöld var mánudagskvöld, og
Helgi vissi ekki annað en Lauga ætti
að fara að vinna eins og venjulega.
Raunar hafði hann ekki séð hana
síðan fyrir helgi, en hún hafði ekki
talað um annað en hann sækti sig
eins og vant var.
Helgi snaraðist út úr bílnum og
hljóp upp tröppurnar á húsinu heima
hjá Laugu. Hann hafði varla snert
dyrabjölluhnappinn þegar móðir Ás-
laugar kom til dyra.
— Nei sæll Helgi minn! Það er
langt síðan við höfum sést. Mikið
þakka ég þér vel fyrir hvað þú hefur
verið henni Laugu minni góður. —
En meðal annarra orða, hvað ert þú
að gera hér núna? Varla trúi ég að
hún hafi gleymt að segja þér það.
— Segja mér hvað?
— Nú, hún Lauga og hann Agnar
listmálari giftu sig á laugardaginn,
og í gær fóru þau í brúðkaupsferð
suður til Ítalíu.
Það var eins og Helga væri hrein-
lega kippt úr sambandi. Hann stirðn-
aði upp, náfölnaði, en snarsnerist
síðan og hljóp niður tröppurnar og
út á götuna. Ökumaður strætisvagns-
ins sem kom aðvífandi í sama mund
átti þess ekki nokkurn kost að hemla
í tæka tíð.
Sennilega hefur Helgi ekki séð
vagninn koma, og því hlaupið út á
götuna. Eða hljóp hann ef til vill út
á götuna vegna þess að hann sá
vagninn koma?