Strandapósturinn - 01.06.1989, Page 104
ströng, þá bárum við hlýja virðingu fyrir henni og lærðum hjá
henni. Seint held ég að ég gleymi stríðinu, sem hún átti í við að
forða mér frá þeirri „vinstri villu“ að skrifa alla tíð með vinstri
hendi. Eg er nefnilega örvhentur, og í þá daga þótti ganga guð-
lasti næst að skrifa með vinstri hendi. Þessi björgun frá vinstri
villunni náði sem sé aðeins til handarinnar, en vel má vera, að
Ingibjörgu hefði tekist að forða mér líka frá þeirri villunni, sem að
stjórnmálum snýr, ef hún hefði lagt sig fram við það. Og þegar við
fórum að ganga til spurninga fyrir ferminguna, tók séra Jón
Guðnason á Prestsbakka við uppfræðslunni. Við kölluðum hann
aldrei annað en séra Jón, og ég held að við höfum lagt alveg
sérstaka merkingu í þetta ávarp. Seinna kenndi séra Jón mér m.a.
íslensku og bókmenntasögu í héraðsskóla, og gerði heiðarlega
tilraun til að kenna mér stærðfræði. Það var ekki hans sök, þótt
forsendur fyrir því að þær tilraunir mættu takast vel, væru ekki
fyrir hendi hjá mér. Eg vona að ég halli ekki á neinn, þegar ég segi,
að enn í dag finnst mér uppfræðsla þessara þriggja lærifeðra
minna haldbesta menntunin, sem ég hef fengið á skólabekk. En ef
til vill hafa líka móttökutæki sjálfs mín byrjað að sljóvgast óvenju-
lega snemma.
Nú kynni einhver að halda, að fullorðið fólk á Borðeyri á
æskuárum mínum þar, hafi ekki verið umtalsverðar manneskjur.
Það er nú eitthvað annað. A Borðeyri, og raunar í Bæjarhreppn-
um yfirleitt, var í þá daga blómlegt og að ýmsu leyti fagurt mann-
líf, og rnargir eftirminnilegir persónuleikar.
Halldór Kr. Júlíusson, sem lengi var sýslumaður Stranda-
manna, sat þá á Borðeyri, og fyrir honum bárum við krakkarnir
talsverða virðingu, kannski dálítið óttablandna í aðra röndina,
enda var hann mikilúðlegur og sérstæður persónuleiki.
Magnús Richardsson, símstöðvarstjóri, átti lítinn fólksbíl, dross-
íu, og þótt ekki hefði verið annað, hefði það eitt dugað til að afla
honum mikils álits hjá okkur, drossíur voru ekki beinlínis algeng-
ustu farartæki norður þar í þá daga. Þó mun einn fólksflutninga-
bíll hafa verið til á Borðeyri áður, var það, ef ég man rétt, blæjubíll
af Buick-gerð, og eigandinn var Björn Kristmundsson, sem lengi
átti heima á Borðeyri.
102