Hugur og hönd - 2021, Síða 8
8 HUGUR OG HÖND2021
SKOTTHÚFA FRÚ AUÐAR
MARGRÉT VALDIMARSDÓTTIR
Heimilisiðnaðarfélag Íslands hefur frá árinu 2007
staðið fyrir prjónakaffi fyrsta fimmtudagskvöld
í mánuði. Í kjölfar samkomutakmarkana vegna
heimsfaraldurs var brugðið á það ráð að streyma
prjónakaffinu á netinu. Fyrsta fimmtudagskvöldið í
febrúar og mars var Skotthúfa frú Auðar á dagskrá
í umsjón Þórdísar Höllu Sigmarsdóttur og Guðnýjar
Maríu Höskuldsdóttur. Fyrra kvöldið var fróðleikur
um húfuna, sagt frá því hvernig hún var upphaflega
í höndum Auðar og gerð grein fyrir endurgerðri
uppskrift. Seinna kvöldið var farið í frágang húfunnar
og gerð skúfsins. Dagskránni var einkar vel tekið
en áhugasamir höfðu val um að fylgjast með
í beinni útsendingu eða horfa á viðburðinn síðar.
Auður Sveinsdóttir Laxness tengist Heimilisiðnaðar-
félagi Íslands sterkum böndum en hún sat í ritnefnd
ársritsins Hugur og hönd á árunum 1971-1985. Hún
lagði ritinu til bæði greinar og uppskriftir. Auður var
annáluð handavinnukona og kemur meðal annars við
sögu íslensku lopapeysunnar eins og lesa má um í
bók Ásdísar Jóelsdóttur um það efni. Árið 1970 hlaut
Auður viðurkenningu fyrir skotthúfu úr lopa í hekl- og
prjónasamkeppni Álafoss. Í tilefni af prjónakaffinu var
uppskriftin endurgerð fyrir léttlopa í samvinnu við
safnið á Gljúfrasteini og með leyfi ættingja Auðar.
Uppskriftin er aðgengileg ókeypis á heimasíðu HFÍ
fyrir alla sem vilja koma sér upp skotthúfu úr lopa.
Hugmyndin að skotthúfukvöldunum kom frá Þórdísi
sem hafði í tilefni af fimmtugsafmæli sínu prjónað
skotthúfur frú Auðar handa sér og vinkonum sínum,
enda eru þær og húfan jafnaldra. Fyrstu húfuna
prjónaði Þórdís eftir upplestri í útvarpsþætti um Auði
en komst síðar að því að uppskriftin var aðgengileg
á heimasíðu Gljúfrasteins. Eftir tilraunir varð ljóst að
nauðsynlegt yrði að endurgera uppskriftina svo hún
hentaði fyrir léttlopa sem Þórdís hugðist nota og tók
Guðný að sér þann þátt.
Skotthúfuhólkur hylur samskeyti húfu og skúfs og
er órjúfanlegur hluti skotthúfunnar. Þær Þórdís og
Guðný höfðu ýmsar hugmyndir í þeim efnum. Fjöl-
breytt efni koma til greina, svo sem leggir af hvönn,
sauðarleggir, tálgaðir viðarhólkar, leðurbútar og
líberíborðar. Frá þeim stöllum komu einnig hólkar
úr áli sem voru afrakstur heimilisiðnaðar þeirra og
feðra þeirra sem eru annars vegar gullsmiður og
hins vegar járnsmiður. Hólkarnir eru til sölu hjá HFÍ
í Nethyl og njóta töluverðra vinsælda.
Prjónakaffi HFÍ í streymi á veraldarvefnum er
gott dæmi um þá möguleika sem felast í miðlun
á netinu. Með góðri hugmynd og góðum undir-
búningi eru slíkir viðburðir félaginu til sóma. Ljóst
er að á þennan hátt má ná til stærri hóps en með
hefðbundnu prjónakaffi.
Skotthúfa prjónuð af Auði.
Ljósmynd: Hekla Flókadóttir.