Hugur og hönd - 2021, Síða 25
25HUGUR OG HÖND 2021
HÆGFARA HUGARFARSBREYTING
Námskeiðin Lesið í skóginn hafa notið
vinsælda, þótt sú staðreynd hversu fram-
andi tálgun í ferskan við þótti í upphafi
hafi gert það að verkum að hægar hefur
gengið að innleiða hugarfarsbreytingu
í tengslum við viðarnytjar en ella hefði
getað orðið. Á þeim 20 árum sem liðin
eru frá upphafi námskeiðanna má þó
vel greina vísbendingar um auknar
vinsældir tréhandverks úr íslenskum
viði. Sífellt fleiri vinna með tré, halda
sýningar og selja viðargripi. Einnig er
stöðug eftirspurn eftir fræðslunni Lesið
í skóginn — tálgað í tré hjá ýmsum
hópum, t.d. meðal kennara, ýmissa
félagasamtaka og í tengslum við náms-
og starfsendurhæfingu. Þá sækir
fjölskyldufólk í að tálga saman og styrkja
þannig samskipti og samveru, foreldrar
og börn, afi eða amma með barnabörn-
um. Loks hefur í seinni tíð borið á því
að fólk leitar í námskeiðið sem hluta af
breyttum lífsstíl, þar sem áhersla er á að
líta sér nær — nýta efni úr nærumhverf-
inu, stunda skapandi iðju og samveru
og hugsa um leið vel um náttúruna. Þeir
sem tileinka sér tálgun geta enn fremur
haft mikil áhrif á sína neyslumenningu
með því að búa til áhöld til eigin nota
í daglegu lífi á heimilinu. Um leið geta
þeir orðið öðrum fyrirmynd í því að
hugsa um gróðurinn, stytta vistsporin
og lifa í sátt við náttúruna.
TÁLGUN ER VINSÆL
Margir sem kynnast tálgun segja að
hún hjálpi þeim að slaka á og komast í
„núvitundarástand“. Á námskeiðunum
Lesið í skóginn gefst tækifæri til að út-
færa verkefni á persónulegan hátt. Það
er þetta samband tálgarans og viðarins
sem gerir sköpunarferlið fullnægjandi
og nærandi. Fæstir nemendur gera sér
grein fyrir því hvers vegna þeir vinna
gripina eins og raunin verður og eru
oftar en ekki hissa á útkomunni. Þetta
sköpunarsamband er það sem nærir
og gleður. Fullunninn gripur sem gefinn
er öðrum sem gleðst yfir gjöfinni eflir
þann sem eytt hefur tíma og kröftum
í að hanna, vinna og fullgera gripinn.
Séu tálgugripirnir unnir úr trjám sem
eiga sögu tengda þeim sem gjöfina fær
eykur það enn verðmæti gripsins og
gjafarinnar. Þeir sem kynnast þessari
gefandi iðju ferskra viðarnytja ná oft
góðu sambandi við sig sjálfa í sköpun
og búa til nytjahluti sem geta að lokum
ratað aftur til náttúrunnar og orðið að
kolefnisbundnum jarðvegi.
Ólafur Oddsson hefur um árabil
kennt tálgun í ferskan við á
námskeiðunum Lesið í skóginn –
tálgað í tré. Ólafur vann lengi
hjá Skógrækt ríkisins en einbeitir
sér nú að ræktun og starfsemi
í Ólaskógi í Kjós.
Heimilisiðnaðarfélagið vill
leggja sitt af mörkum til að
efla gerð nytjahluta og skraut-
muna úr íslenskum trjám og
styðja þannig við sjálfbærni og
tréhandverksmenningu sem
byggir á góðri umgengni við
skóg og náttúru. Námskeið í
tálgun eru í boði hjá félaginu.
Eldhúsáhöld. Ljósmynd: Ólafur Oddsson. Ferskar víðigreinar henta vel til að æfa sig í tálgun.
Ljósmynd: Ólafur Oddsson.
Helstu tálguáhöld: beinir og bognir hnífar, axir
og barkarhnífur. Ljósmynd: Ólafur Oddsson.