Hugur og hönd


Hugur og hönd - 2021, Síða 29

Hugur og hönd - 2021, Síða 29
29HUGUR OG HÖND 2021 GRÓSKA Í HANDVEFNAÐI Á árunum 1890 til 1920 hafði átt sér stað gagnger endursköpun í vefnaði í Danmörku, þar sem byggt var á gömlum handverkshefðum, en munstur, áferð og litir voru í auknum mæli mótuð í takt við nýja tíma og nýja hugmyndafræði. Sú þróun tengdist þeim hræringum sem höfðu átt sér stað í hönnun og listhandverki víða í Evrópu. Vélvæðing sótti alls staðar á, húsgögn voru fjöldaframleidd og vefnaðarvara framleidd í verksmiðjum í miklu magni. En handverksfólk sneri víða vörn í sókn, stofnuð voru félög og fyrirtæki þar sem unnið var markvisst að því að auka veg handverks og listiðnaðar. Danska listiðnaðarfélagið, Dansk Kunstflidsforening, lagði áherslu á vandað handverk og var undir áhrifum frá list- og handverkshreyfingunni The Arts and Crafts Movement. Hugmynda- fræði hreyfingarinnar lagði áherslu á að gera handverki jafn hátt undir höfði og myndlist og hafði hreyfingin mikil áhrif, sérstaklega í Bretlandi og Þýskalandi. Hannyrðanámskeið það sem Karólína sótti hjá Dansk Kunstflidsforening, byggði því á fagurfræðilegum hugmynd- um í anda listiðnaðarhreyfingarinnar. FRÖKEN SIEGUMFELDT Johanne Siegumfeldt var í forystusveit þeirra sem stóðu fyrir endurreisn handvefn- aðar í Danmörku. Hún hafði árum saman unnið náið með móðursystur sinni, vefn- aðarkennaranum Jenny la Cour, við vefnaðarkennslu og rannsóknir. Saman gáfu þær út bók um vefnað árið 1897, Vævebog for Hjemmene, sem varð grunnrit í vefnaðarfræðum næstu ára- tugina bæði á Norðurlöndunum og í Þýskalandi. Siegumfeldt ferðaðist um sveitir Danmerkur og safnaði gömlum textílum, einkum vefnaði, og stúderaði vefnaðarmunstur og aðferðir. Hennar sérsvið urðu blóma- og dregilmunstur, sem áttu uppruna í danskri hefð en voru útfærð með nýrri tækni. Árin tvö hjá fröken Siegumfeldt reyndust Karólínu hinn besti skóli. Karólína minntist hennar ætíð með miklum hlýhug og þakk- læti og héldu þær bréfasambandi lengi. BOÐBERI NÝRRA TÍMA Í Kaupmannahöfn kynntist Karólína nýjustu stefnum og straumum í vefnaði, handverki og hönnun. Auk vefstóls flutti hún því með sér heim til Íslands dýrmæta þekkingu og reynslu og hóf strax að vefa af kappi. Vorið 1923 hélt hún einka- sýningu í húsi Listvinafélagsins á Skóla- vörðuholti. Þar sýndi hún vandaðan handvefnað, nútímalegar voðir sem sýndu og sönnuðu að handvefnaður tilheyrði ekki aðeins fortíðinni heldur einnig og ekki síður nútíð og framtíð. Með sýningunni 1923 braut hún blað í þróun handverks og listiðnaðar á Íslandi, þar var hún boðberi nýrra tíma. Verk hennar endurspegluðu nýjar hugmyndir og viðhorf til handverks, hún samein- aði alþjóðlega strauma og íslenska handverkshefð. Hún sýndi þjóðinni að handverk gat verið vandað, fallegt, jafnvel listrænt, og í umsögnum um verk hennar var talað um listhandverk. SKÝR FRAMTÍÐARSÝN Ljóst er að Karólína hefur snemma einsett sér að koma upp sinni eigin vefstofu. Árið 1922 lætur hún prenta fjölda spjalda undir vefnaðarsýnishorn merkt Vefnaðar- stofu Karólínu Guðmundsdóttur. Í kjölfar sýningarinnar 1923 auglýsti hún þjónustu sína, hún taki að sér að vefa alls kyns voðir og kenna hannyrðir. Hún var einnig formaður Heimilisiðnaðarfélags Íslands 1923 til 1927 og stóð þar fyrir metnaðar- fullum námskeiðum. Karólína var alþjóðleg í hugsun, viðhorf hennar til handverks voru einföld og skýr, fagurfræði og fagmennska voru grunnurinn, vandvirkni og nákvæmni voru hennar leiðarljós. Aðalatriðið var afurðin sjálf, gæði handverksins, samspil lita og munsturs, fagurfræði og notagildi voru jafngild. Um leið og Karólína var trú sinni eigin reynslu var hún óhrædd við að þróa áfram munstur, bæta inn sköftum og stigum og breyta munstrum, bæði til að laga að einfaldari vefstólum en eins til að bæta við litum í munstur, búa þannig til sitt eigið sérkenni eða tilbrigði. VEFSTOFAN BLÓMSTRAR Auk þess að vefa fyrir einstaklinga óf Karólína bæði húsgagnaáklæði og gluggatjöld fyrir stofnanir og fyrirtæki, oft í samvinnu við arkitekta. Hún óf meðal annars fyrir Háskóla Íslands, Búnaðarbanka Íslands, Landsbankann á Selfossi, Hússtjórnarskólann í Reykjavík, Gamla bíó, Gljúfrastein og ótal fleiri. Mikið af þessum textílum hefur glatast enda bæði gluggatjöld og húsgagnaáklæði viðkvæm fyrir sólarljósi og núningi auk þess sem skynbragð fólks og skilningur á vönduðu handverki var oft takmarkaður og virðing fyrir notuðum textílum lítil. Karólína óf einnig mikið fyrir sitt eigið heimili, gluggatjöld, rúmteppi, dúka og gólfdregla. Þá naut fjölskyldan góðs af gjafmildi og vinnusemi Karólínu sem og vinir og kunningjar. Hefur töluvert af þessum textílum varðveist, bæði hjá einstaklingum og á söfnum. Vefnaðarferilinn hóf Karólína sem einyrki en eftir því sem verkefnum fjölgaði bætti hún við vefstólum og réð til sín stúlkur Karólína (1897-1981), eiginmaður hennar Einar S. Jóhannesson (1892-1966) og synir þeirra Guðmundur (1925-2007) og Jóhannes (f. 1929). Ljósmynd: Úr einkasafni.

x

Hugur og hönd

Beinleiðis leinki

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Hugur og hönd
https://timarit.is/publication/1414

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.