Hugur og hönd - 2021, Qupperneq 46
46 HUGUR OG HÖND2021
Farin var sú leið að gera samhliða
bókinni kennslumyndbönd með helstu
aðferðum sem eru notaðar í vettlinga-
prjóni. Það var ný reynsla fyrir höfundinn
en þessi myndbönd eru opin fyrir alla og
er að finna á síðunni www.reykjavikknit-
tingcompany.com. Miðað við undirtekt-
irnar var sú hugmynd vel til fundin og
margir nýir vettlingaprjónarar hafa bæst
við sem er ánægjulegt.
UPPSKRIFTALÆSI
Ákveðið var í byrjun að vettlingabókin
yrði gefin samtímis út á íslensku og ensku
og ráðinn var bandarískur yfirlesari í
prjóntækni. Þetta jók aðeins flækjustigið
en var góð reynsla fyrir höfundinn. Það
kom í ljós að í ensku prjónamáli eru ekki
til jafn mörg orð til að lýsa vettlingum
eins og í íslensku. Þetta gefur okkur
vísbendingu um að prjónahefðin er
samofin tungumálinu okkar.
Til að mæta kröfum prjónaheimsins í
uppskriftagerð er bæði texti og mynstur-
teikning í hverri uppskrift. Uppskriftalæsi
er áhugavert viðfangsefni því fólk fylgir
uppskriftum á ólíkan hátt. Á meðan sum-
ir vilja eingöngu nota mynsturteikningar
finnst öðrum betra að lesa texta. Texti
getur verið í heilum orðum og löngum
setningum eða, eins og algengt er í prjóna-
máli, stytt mál með skammstöfunum
eða orðalyklum. Ég valdi mynsturteikn-
ingar og stytt prjónamál sem byggir á
skammstafanakerfi úr Prjónabiblíunni
sem kom út 2014. Það kerfi hefur reynst
mér vel í prjónauppskriftagerð.
SAGA MYNSTRANNA
Í byrjun hvers kafla er rakinn uppruni
vettlinganna, ef hann er þekktur. Því
miður er ekki vitað hver prjónaði nokk-
ur vettlingapör og þótt vitað sé hver
prjónaði parið sem safnið geymir þá er
ekki endilega vitað hvaðan mynstrin
komu. Nokkrir vettlingar koma úr Hall-
dórustofu sem er deild innan Heim-
ilisiðnaðarsafnsins. Þessir vettlingar vöktu
athygli mína fyrir að vera ólíkir öðrum
vettlingum sem ég hef séð. Skýringin
kann að vera sú að þeir komu úr sam-
keppni sem Halldóra stóð fyrir, þannig
að þeir hafa þá verið frumhönnun
viðkomandi. Því miður skortir nánari
upplýsingar um þá samkeppni sem og
hver hannaði eða prjónaði þessa vettlinga.
Hluta mynstranna er hægt að rekja
til eldri bóka eða tímarita. Vestfirsku
vettlingarnir eru auðvitað sér á parti og
eiga sína sögu og hefðir, en þrjú slík
vettlingapör eru í bókinni en ólík þó.
ÍÐORÐANEFND UM HANNYRÐIR
Ekki er hægt að fjalla um vettlingabók-
ina án þess að nefna íðorðanefndina.
Þegar ég hófst handa fannst mér
nauðsynlegt að nota góð og gild íslensk
heiti um allt sem tengist vettlingum.
Ég rak mig á að margt var á reiki og
stundum voru engin orð til á íslensku. Ég
hafði samband við Árnastofnun en undir
hennar hatti starfa margar íðorðanefndir
innan ýmissa faggreina. Til að gera langa
sögu stutta stofnuðum við íðorðanefnd
um hannyrðir og hefur hópur góðra
kvenna unnið að því starfi síðan en
afraksturinn má m.a. sjá á
https://idordabanki.arnastofnun.is/leit//
ordabok/HANNYRDIR.
Þar er nú að finna á fimmta hundrað orð
og orðaskýringar um prjón og munu
bætast við fleiri orðasöfn innan hann-
yrðagreinarinnar á næstu misserum.
VETTLINGAORÐ
Dæmi um orð sem tengjast vettlingum
og vettlingaprjóni eru handarbak, lófi,
þumall og tota. Mér fannst vanta heiti
yfir þann hluta vettlingsins sem er á milli
þumals og totu. Það gamla og góða orð
fannst; greip. Heiti vantaði yfir þann hluta
vettlings sem er utan um úlnliðinn en
er ekki stroff. Það orð fannst líka; stofn.
Þá fannst gamalt orð; stuðlaprjón sem
Íðorðanefndin vildi dusta rykið af og
táknar það sama og brugðningur eða
þar sem notaðar eru sléttar og brugðnar
lykkjur á víxl til að prjóna stroff. Þá eru
ótalin nöfn á aðferðum, mynstrum og
grófleika garns. Allir vettlingarnir í bókinni
eru t.d. prjónaðir úr fínbandi sem er garn
fyrir prjóna 2,5 - 3 mm og með um 400 m
í 100 grömmum. Íslensku heitin yfir garn-
grófleika frá fasta bandinu til hins gróf-
asta; fisband, fínband, smáband, léttband,
þykkband, grófband og stórband.
PRJÓNIÐ OKKAR
Við eigum ríkulegan menningararf
í prjónamynstrum, prjónaaðferðum og
prjónaorðum á Íslandi. Meðan áhugi
á prjóni er jafn mikill og raun ber vitni
þurfum við ekki að hafa áhyggjur af því
að arfurinn glatist. En prjónaáhuginn
gengur oft í bylgjum og því verðum við líka
að kortleggja prjónið okkar til að varðveita
fyrir okkur og komandi kynslóðir.
Guðrún Hannele Henttinen,
textílkennari og eigandi garn-
verslunarinnar Storksins, er höfundur
bókarinnar Íslenskir vettlingar.
Ljósmynd: Karl Alvarsson.