Sjómannablaðið Víkingur

Árgangur

Sjómannablaðið Víkingur - 01.01.2013, Blaðsíða 33

Sjómannablaðið Víkingur - 01.01.2013, Blaðsíða 33
Sjómannablaðið Víkingur – 33 Ég verð að viðurkenna að ég hreinlega sleppti mér, því ég hélt að það væri allt hrunið aftur í vélinni. En eftir smá stund fóru þær aftur í gang og Hörður bróðir kom upp og sagði að allt væri í lagi, þetta hefði verið honum að kenna. Mér var ekki runnin reiðin og sagði að ég færi nú ekki að leita til þeirra úti á sjó, ef ég þyrfti að stoppa snögglega. „Ég segi það með þér,“ sagði Halldór Ingimarsson, fyrrverandi skipstjóri og eftirlitsmaður með búnaði skipa, „og farðu bara í land væni minn.“ Næstum farnir á hvolf Strax og búið var að laga það sem aflaga fór í reynsluferðunum, var haldið til Keflavíkur og nótin tekin um borð, þetta var ný nót 75 faðma djúp, eins og þær gerðust þá almennt. Mig minnir að við færum frá Keflavík 14. júlí 1964. Ég man að það var norðaustan bræla þegar við fórum fyrir Garðskaga og mér fannst báturinn velta ansi langt og rólega, en gleymdi því strax og við komum á lens- ið. Báturinn gekk á elleftu mílu, svona með eðlilegu álagi. Það kom fljótlega í ljós hverslags vandræði það skapaði að vera með tvær vélar, eins tengdar og voru um borð hjá okkur, því þær virkuðu bara saman á gírnum. Það var í lagi á meðan verið var að kasta nótinni, en þegar byrjað var að snurpa, drap fremri vélin á sér, því hún þoldi ekki álagið frá spildælunni. Bróðir minn varð því að stilla hana á 1600 snúninga, til að hafa við spilinu. Þegar ég þurfti að bakka, ef báturinn fór inn í nótina í snurpingu og kúplaði aftur á bak, fór allt í steik, því fremri vélin var á 1600 snúningum en sú aftari á 900. Þetta kostaði að annar kúplingsdiskurinn eyði- lagðist. Þetta kom fyrir okkur í tvö fyrstu skiptin. Þá fann bróðir minn leið, hann tengdi ljósaperu með rofa upp í brú, þannig að ég gat blikkað perunni, þegar átti að byrja að snurpa, þá kúplaði hann fremri vélinni frá gírnum og stillti hana á 1600 snúninga og ég hafði aftari vélina fyrir skrúfuna. Þannig gekk þetta þrauta- laust. Annað var það að skrúfan var föst skrúfa, en ekki skiptiskrúfa, svo að ég tók fljótlega eftir því að þó að síldin væri ágætlega inni í nótinni, þegar komið var að baujunni, þá hvarf hún öll úr nótinni þegar ég bakkaði við hana. Ég heyrði marga skipstjóra tala um þetta. Baldur útvarpsvirki og dýptarmælaviðgerðamað- ur á Norðfirði var byrjaður að mæla hljóð, sem mynduðust frá skipum og hafði nóg að gera. Við komumst að hjá honum og reyndist hávaðinn frá skrúf- unni í Sæhrímni sá mesti og höggið sem myndaðist þegar báturinn var settur í bakk var mikið. Ég man að þegar við fórum út frá Norðfirði í þetta skiptið, fundum við góða torfu á Norðfjarðar flakinu. Við köstuðum á hana, ég notaði eins litla ferð og ég gat og lét bátinn rétt renna að baujunni og bakkaði ekkert. Viti menn að við fengum 1000 mála kast. Við vor- um með allt nýtt, til dæmis var síldarháf- urinn nýr og tók einar 15 tunnur. Þegar Stefán stýrimaður, sem var með háf- bandið, tók fyrsta háfinn, veinaði ég upp, því að ég hélt að bátnum myndi hvolfa. Hann lagðist alveg á skammdekk. Við urðum að taka bara smá slatta fyrst, til að fá botnfestu. Á meðan við lönduðum síldinni, var ákveðið að við kæmum með bátinn til Keflavíkur og þar yrði hann stöðugleika mældur. Eftir þá mælingu, voru sett níu tonn af steypu og brotajárni í botninn undir vélar og undir gólf í klefum aftur í. Rauða torgið Okkur gekk alltaf illa að ná síld eftir asdikinu, en þegar hún kom á Rauða torgið, eins og það var kallað, gekk allt betur, því á haustin áður en síldin fór að búa sig undir ferðalagið til Noregs, safn- aðist hún saman í nokkrar mjög stórar torfur, sem allur flotinn veiddi úr. Fjöl- mennastir voru Rússarnir. Þeir voru flestir á reknetum, sem passaði illa við nótaskip og togara með flotvörpur. Oft urðu árekstrar, bátar lentu með nætur sínar utan í netatrossum Rússanna og Rússarnir keyrðu inn í nætur bátanna. Þaðan kom nafnið Rauða torgið á þessi mið. Síldin virtist vera rólegri fyrst á kvöld- in, þegar hún var að lyfta sér upp frá botninum, en á daginn var hún klesst við hann. Oft fengust bestu köstin fyrst á kvöldin, því þá var hún þéttust og þá var um að gera að vera rétt staðsettur. Okkur gekk mjög vel sinni partinn á haustin, en það voru alltaf vandamál með véla- kramið. Og í árslok 1965 var ákveðið að skipta um vél í Sæhrímni og lengja hann um leið um fjóra metra, sem sé að gera úr honum alvöru síldarbát. Eins dauði, annars brauð Ég má til með að segja frá atviki, er skeði á vetrarvertíðinni 1965. Við byrj- uðum vertíðina á netaveiðum, en þegar kom að loðnugöngunum, var ný þorsk- nót tekin um borð. Útgerðin vildi að við yrðum með bæði veiðarfærin um borð en ég taldi það óráð og fékk að ráða. Svo var það einn daginn, að við vor- um að komast á miðin úr einu véla haf- aríinu og áttum stutt eftir í flotann, sem var út af Selvogi. Ég heyri þá í Þórði Hermannssyni, skipstjóra á MB Ögra, sem er að segja bróður sínum, Gísla Jóni skipstjóra á MB Vigra, að hann sé með á annað hundrað tonn af þorski á síðunni. Ég var að nálgast þá á Ögra, þegar Þórð- ur kemur aftur í talstöðina og segir að nótin sé sprungin og allur fiskurinn far- inn. Ég var kominn það nærri að ég fékk torfuna inn á mælinn hjá okkur. Svo að þarna sannaðist máltækið, að oft verður eins nauð, annars brauð, því við köstuð- um á torfuna og fengum 40 tonn af stór- þorski. Bræðurnir Þórður, Gísli Jón og Gunnar Hermannssynir voru allir skip- stjórar og góðir fiskimenn. Þeir settu góðan og mikinn svip á stéttina. Þeir voru bræður Sverris Hermannssonar. Gunnar og Þórður eru dánir, en ég held að Gísli Jón sé með puttana í sínu fyrir- tæki Ögurvík hf. þótt fullorðinn sé. Gunnar var skipstjóri og eigandi að hluta á MB. Eldborg GK frá Hafnarfirði. Sæhrímnir eftir lengingu.

x

Sjómannablaðið Víkingur

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Sjómannablaðið Víkingur
https://timarit.is/publication/335

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.