Sjómannablaðið Víkingur - 01.01.2013, Blaðsíða 31
Sjómannablaðið Víkingur – 31
víða við umhverfis landið og lærðum til
verka.
Að ýmsu var unnið þetta sumar. Siglt
var kringum landið og skipt um gashylki
í fjölda vita, á Seyðisfirði var kafað niður
að flaki El Grillo, fiskveiðieftirlit var
töluvert, skip í nauðum voru aðstoðuð,
siglt með erlenda fréttamenn vegna
kynningar á útfærslu landhelginnar í 50
mílur þann 1. september 1972.
Einnig var unnið að hefðbundnu við-
haldi skipsins til að tryggja að það yrði í
sem bestu standi á haustdögum þegar út-
færslan tæki gildi.
Í dagbókarbrotum frá þessum tíma
hef ég ritað að sunnudaginn 30. júlí var
haldið frá Reykjavík áleiðis til Eyrar-
bakka til að sækja umræddan hval. Að-
fararnótt mánudagsins var hvalurinn
dreginn út og siglt með hann vestur með
landinu. Á mánudeginum var svo komið
að því að reyna að sökkva hvalnum sem
hafði verið leystur frá dráttarvírnum og
velktist nú með kviðinn upp úti á regin-
hafi og beið örlaga sinna. Bátur var
mannaður og siglt að hvalnum reynt var
að skera á kviðinn á honum. Þrátt fyrir
nokkrar tilraunir gekk þessi aðgerð eng-
an veginn upp og var annarra ráða leitað.
Skammt þar frá komu menn auga á
annan minni hval, sá var líka dauður.
Var nú ráðist til atlögu við hann og gekk
vel að skera á kviðinn á honum þannig
að hann sökk og var ekki lengur ógn við
sjóumferð. Áfram var haldið að reyna að
koma stórhvelinu undir yfirborðið. Nú
tók einn af stýrimönnum Óðins að
munda fallbyssu skipsins og skaut
nokkrum föstum skotum að hvalnum en
þau skot sem hittu breyttu engu um.
Að lokum var siglt yfir hvalinn og
breytti það litlu. Þegar síðast sást til
skepnunnar, síðasta dag júlímánaðar
1972, var hún enn á floti. En varðskipið
hélt að þessu loknu til Ólafsvíkur og
sótti þangað dýpkunarprammann Gretti
og dró hann hálfa leiðina kringum land-
ið til Húsavíkur.
Fallbyssan tekin í gagnið. Sigurður Steinar Ketilsson, núverandi skipherra á Þór, miðar og hleypir af.
Þrautaráðið – sem dugði þó ekki – var að sigla á skepnuna.