Sjómannablaðið Víkingur

Volume

Sjómannablaðið Víkingur - 01.03.2014, Page 32

Sjómannablaðið Víkingur - 01.03.2014, Page 32
32 – Sjómannablaðið Víkingur Í atvinnusögu má finna mörg dæmi þess að athafnir, dirfska og frumkvæði eins manns marki tímamót. Þannig var á verslunarstaðnum á Skutulsfjarðareyri við Djúp, þar sem síðar hét Ísafjarðarkaupstaður. Skutulsfirðingar höfðu að sönnu róið til fiskjar öldum saman eins og nágrannar þeirra í öðrum byggðarlögum við Ísafjarðardjúp. Úr Skutulsfirði var hins vegar langt að róa á fengsæl mið og þess vegna reru bændur úr Skutulsfirði löngum úr Bolungarvík á vetrar- og vorvertíð. Eina umtalsverða undantekningin voru hákarlaróðr- ar – hákarlalegur – í þær fóru Skutulsfirðingar jafnan úr heimavör, oftast á áttæringum eða stærri skipum. Á 4. áratug 19. aldar varð breyting í þessum efnum. Þá hófst atburðarás sem leiddi til þess að verslunarstaðurinn á Skutuls- fjarðareyri varð á fáeinum áratugum einn öflugasti útgerðar- staður landsins og þar reis blómlegur kaupstaður, sem um alda- mótin 1900 var hinn annar stærsti á Íslandi. Árið 1827 urðu þau tíðindi í ísfirskri verslunarsögu að af- komendur Ólafs Thorlacius á Bíldudal seldu verslun sína í svo- nefndum Hæstakaupstað á Skutulsfjarðareyri. Kaupandinn var kornungur maður, Jens Jacob Benedictsen. Hann var 21 árs að aldri, er hér var komið sögu, sonur Boga Benediktssonar á Staðarfelli í Dölum, sem verið hafði verslunarstjóri á Bíldudal og fjárhaldsmaður sona Ólafs Thorlacius kaupmanns eftir að hann lést af slysförum í Kaupmannahöfn árið 1815. Bogi var stórefnaður maður, sagður „fjárgæzlumaður mikill“, og af mörg- um talinn ríkastur allra Íslendinga um sína daga. Auðæfi hans voru, eins og flestra velmegandi Íslendinga um hans daga, öðru fremur bundin í jarðeignum. Hann var mikill fræðaþulur og í sögunni er hann líkast til þekktastur fyrir hið mikla ritverk sitt, Sýslumannaævir. Jens Jacob Benedictsen var stórhuga og hugðist efla útveg verslunarinnar í Hæstakaupstað með nýjum aðferðum. Hann fluttist til Ísafjarðar haustið 1827 og sá strax í hendi sér, að með aukinni sjósókn og útgerð þilskipa til hákarla- og handfæra- veiða mætti auka til muna saltfiskverkun og framleiðslu á há- karlalýsi. Eftirspurn eftir þessum afurðum var mikil á þessum tíma og verð á þeim hækkaði stöðugt á erlendum mörkuðum. Vorið 1831 lét Jens Benedictsen til skarar skríða. Þá sendi hann til Ísafjarðar frá Danmörku fiskijagt, sem bar nafnið Jens Peter den Gamle og var 8½ verslunarlest að stærð (u.þ.b. 26 smálestir). Skipið var strax sent til veiða og 14. júlí skrifaði helsti keppinautur Jens, Paus verslunarstjóri M. W. Sass í Neðstakaupstað, húsbónda sínum í Kaupmannahöfn: „Enn sem komið er, getur Benedictsen ekki hrósað sér af hagnaðinum af fiskijagt sinni; tilkostnaðurinn af henni er alltof mikill. Á henni eru 9 menn, 5 Danir og 4 íslenskir fiskimenn. Íslendingarnir fjórir hafa hver um sig 10-12 spesíur á mánuði og fá að auki kaffi og brennivín 3-4 sinnum á dag. Fram til þessa hafa þeir alleinasta aflað 250 þorska, um það bil 7 skippunda í blautfiski, og 28 tunnur hafa þeir fengið af hákarlslifur, sem gerir um það bil 19 tunnur lýsis.“ Þegar leið á sumarið virðist útgerðin hafa gengið betur og 30. september skrifaði Paus: „Í síðustu tveim veiðiferðum hefur fiskijagt hr. B[enedictsen] gengið mjög bærilega við hákarla- veiðarnar, og telur hann sig nú geta greitt kostnað af úthaldinu og eygir jafnvel svolítinn hagnað. Hann segist hafa fengið 90- 100 tunnur lýsis úr afla jagtarinnar.“ Jens Peter den Gamle var fyrsta þilskipið, sem gert var út frá Ísafirði, og markaði þannig upphaf mikillar sögu. Jens Jacob Benedictsen byggði á fáum árum upp umfangsmikinn atvinnu- rekstur á Íslandi og í Danmörku. Hann eignaðist verslanir í Keflavík og Vestmannaeyjum og gerði á báðum stöðum út skip og báta til fiskveiða auk þess sem hann átti kaupskip í förum sem fluttu varning á milli landa fyrir verslanir hans. Ísafjörður um aldamótin 1900. Mynd: Frederick W.W. Howell/Cornell University Library Jón Þ. Þór Fyrsti íslenski skipakóngurinn

x

Sjómannablaðið Víkingur

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Sjómannablaðið Víkingur
https://timarit.is/publication/335

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.