Bændablaðið - 25.08.2022, Blaðsíða 20
20 Bændablaðið | Fimmtudagur 25. ágúst 2022
FRÉTTASKÝRING
Þórdís Ingunn Björnsdóttir og
Heiðar Þór Sigurjónsson stunda
blóðbúskap að Álftarhóli í Austur-
Landeyjum. Bændablaðið fékk að
fylgjast með blóðtöku á meðan
fjölskyldan ræddi hina ýmsu
þætti sem snerta þessa umdeildu
landbúnaðarstarfsemi.
Hafið er tímabil blóðtöku úr
fylfullum hryssum hér á landi en
þær fara alla jafna fram frá lokum
júlímánaðar fram í október. Í fyrra
varð starfsemi blóðmerabúskapar að
stóru fjölmiðlamáli í kjölfar útgáfu
myndbands á Youtube. Fjölmargir
aðilar, mistengdir starfseminni, lögðu
þar orð í belg og rataði umræðan
m.a. inn á borð Alþingis í formi
frumvarps um bann við blóðtökum.
Matvælaráðherra skipaði starfshóp
sem fór yfir regluverk, eftirlit og
löggjöf starfseminnar og í framhaldi
var gefin út reglugerð um blóðtökur
úr fylfullum hryssum þann 5. ágúst
sl. sem gildir í rúm þrjú ár.
Blóðmerarbúskapur er því áfram
leyfður og stundaður hér á landi
en í ofanálag hefur blásið köldu á
milli hagsmunafélags blóðbænda
og líftæknifyrirtækisins Ísteka, sem
vinnur hormónið PMSG úr blóðinu og
selur til lyfjaframleiðenda. Ísteka er
eini kaupandi blóðs hér á landi og sú
einokunarstaða setur bændur í veika
samningsstöðu gagnvart fyrirtækinu
þegar semja á um afurðaverð. Þar
að auki hefur rekstrarumhverfi
landbúnaðar versnað svo um munar
á undanförnu ári með verðhækkunum
á helstu aðföngum til búskapar.
Kemur því ekki á óvart að margir
bændur, sem halda blóðmerar, hafi
ákveðið að hætta starfsemi sinni eða
minnkað verulega í stóðum sínum. Þó
eru kringum 100 bændur enn starfandi
og eru Þórdís Ingunn Björnsdóttir og
Heiðar Þór Sigurjónsson á Álftarhóli
meðal þeirra.
Þórdís og Heiðar hafa haldið 39
hryssur til blóðtöku og hafa stundað
búskapinn í þrjú ár samhliða vinnu
utan bús.
„Við sáum þetta sem auðvelda leið
til að stunda einhvers konar búskap.
Við höfum áhuga á hrossum og alltaf
átt reiðhross. Við eigum land og
vildum vera með einhvern búrekstur.
Það er ekki gengið að því að stökkva
út í kúabúskap eða sauðfjárbúskap,
því þá hefðum við átt á hættu að lenda
í miklum skuldum. Með því að halda
blóðmerar getum við nýtt jörðina
og um leið sinnt áhugamáli okkar
og verið réttum megin við núllið í
rekstri,“ segir Þórdís en auk þess eiga
þau 30 kindur.
Lýsing á blóðtöku
Þórdís og Heiðar buðu Bændablaðinu
að vera við blóðtöku um miðjan
ágúst og mynda ferlið að vild.
Með því vilja þau stuðla að opnu
samtali um starfsemina og svipta
hulunni af meintri leynd í kringum
blóðmerarbúskap. Þau segjast ekki
hafa neitt að fela.
Í aðdraganda blóðtöku er búið að
meta heilsufar meranna og tekið hefur
verið sýni sem segir til um hvort þær
framleiði PMSG, en það gera þær
í allt að 80 daga meðgöngunnar.
Við blóðtökuna voru viðstödd, auk
Þórdísar og Heiðars, dýralæknirinn
Jón Kolbeinn Jónsson, faðir Þórdísar,
Björn Jón, og aðstoðarkona.
Eftirlitsmaður frá Ísteka var einnig
á staðnum um stund.
Blóðtökuaðstaðan er innanhúss
hjá þeim. Í enda hússins er opið svæði
þar sem merarnar koma inn í hollum.
Þeim er svo beint einni af annarri
inn tvo ganga þar sem blóðtökubásar
eru staðsettir. Þegar inn í básinn er
komið er tveimur járnstöngum rennt í
gegnum básinn, fyrir framan og aftan
merina til að aftra ferðum hennar.
Strappi er settur yfir herðakamb
hryssunnar til að koma í veg fyrir
að hún stökkvi upp úr básnum og
slasi sig ef eitthvað kemur upp á, en
strappinn þjarmar ekki að henni.
Múll er settur á merina og haus
hennar er svo bundinn upp til að
dýralæknir hafi aðgengi að æðinni
sem blóð er tekið úr. Dýralæknir
staðdeyfir á stungustað, þræðir nál í
æðina og svo lekur blóð úr æðinni í
brúsann. Um leið og blóðtakan byrjar
er merin losuð úr höfuðstillingunni
og stendur því eðlilega meðan
á blóðtöku stendur. Að lokinni
blóðtöku er hryssunni hleypt úr
básnum og fær hún þá aðgengi að
beit, vatni og steinefnum. Ferlið tekur
fáeinar mínútur.
Taka má mest fimm lítra í einni
blóðtöku og í mesta lagi átta sinnum
á ári. Jón Kolbeinn bendir á að
fæstar merar framleiði PMSG svo
lengi að hægt sé að taka blóð átta
sinnum, langflestar fari því sjaldnar
í gegnum ferlið.
Velferð hryssnanna í fyrirrúmi
Þórdís og Heiðar kannast ekki
við þær öfgakenndu lýsingar á
blóðtöku eins og sagt er frá þeim
í myndbandi þýsk-svissnesku
dýraverndarsamtakanna TBS/AWD.
„Enginn græðir á því að vera
með æsing eða læti í kringum
hryssurnar, það þjónar engum
tilgangi. Myndbandið endurspeglar
ekki raunveruleika blóðbúskapar eins
og ég þekkir starfsemina, enda er það
klippt til og sett saman með ákveðinn
tilgang í huga.“
Á Álftarhóli sýni merarnar engin
merki þess að á þeim sé brotið, þær
séu vanar að fara í gegnum það ferli
sem hlutverki þeirra fylgir.
„Þær eru teknar úr mýrinni,
settar í beitarhólf, fara í ferlið, aftur
í beitarhólfið og svo í dagslok aftur
út á mýri. Þær forðast okkur ekki og
vappa í kringum okkur, bæði fyrir
og eftir blóðtöku. Það eru ekki læti
í réttinni, nema þær séu að berjast
innbyrðis.“
Mestu skiptir að hafa geðslags-
góðar hryssur í starfseminni. „Þær
eru allar með sinn einstaka karakter,
sumar eru frekari eða stressaðri en
aðrar. Ef þær eru mjög stressaðar
og aðlagast ekki ferlinu vel þá
einfaldlega henta þær ekki í stóðið.“
Í blóðtökunni sem blaðamaður
varð vitni að voru tvær hryssur
augljóslega stressaðri en aðrar.
Aðstaðan á Álftarhóli er sem hér sést. Tveir blóðtökubásar og gangar sem leiða inn í opið svæði þar sem merarnar
ganga inn. Þórdís Ingunn Björnsdóttir stendur hjá meri sem er í blóðtöku. Heiðar Þór Sigurjónsson stendur hjá
meri sem hann er að slaka niður úr höfuðstillingu. Jón Kolbeinn Jónsson dýralæknir er til hægri. Myndir / ghp
„Ef merunum líður ekki vel þá er enginn grundvöllur fyrir búskapnum og
starfseminni,“ segir Þórdís.
Nálarnar sem notaðar eru í blóðtöku.
Guðrún Hulda Pálsdóttir
gudrunhulda@bondi.is
Blóðmerarbúskapur:
„Hryssurnar skipta okkur öllu máli“
– Fulltrúar dýraverndarsamtaka flúðu þegar bóndi ætlaði að ná tali af þeim
Að minnsta kosti tvær tilkynningar bárust lögreglustjóranum
á Suðurlandi vegna ferða fólks um og við lögbýli ásamt
óleyfilegum myndbandsupptökum í byrjun ágúst. Þar
voru á ferðinni York Ditfurth og Sabrina Gurtner frá
dýraverndarsamtökunum TSB og AWD ásamt tveimur
starfsmönnum þýsku sjónvarpsstöðvarinnar ARD.
Tilgangur ferðar Yorks og Sabrinu var að sögn þeirra
að safna gögnum fyrir frekari rannsóknir samtakanna
á starfsemi blóðtöku úr fylfullum hryssum, en þýska
fjölmiðlafólkið var hér að safna efni fyrir heimildarmynd um
störf dýraverndarsamtakanna. „Markmið okkar með þessari
ferð var að tala við mismunandi hagsmunaaðila og ná fram
ólíkri afstöðu þeirra,“ segir Sabrina en auk þess segir hún að
þau hafi farið að skoða og kanna yfir fimmtán bæi.
York og Sabrina segja að þau hafi mætt mótlæti þegar þau
komu við á búum og hugðust ræða við bændur. Ábúendur
hefðu ekki verið reiðubúnir til viðtals eða samtals við þau
auk þess sem framkvæmdastjóri Ísteka hafi hætt við fund
með þeim. „Okkur finnst augljóst að þau eru að reyna að fela
starfsemina eins mikið og mögulegt er, í stað þess að gera
hana gagnsæja. Ef hún væri gagnsæ, hvað væri þá hægt að
gagnrýna ef það er ekkert að fela?“ spyr York.
Þau segja aðbúnað blóðtöku ekki hafa breyst síðan þau
voru hér árið 2019, en aðstöðurnar telja þau það vanbúna að
slysahætta geti skapist af. Í einhverjum tilfellum hafi aðstaða
verið færð inn í hús, annars staðar hefði verið reistur veggur
til að hylja aðstöðu frá akvegi og enn annars staðar hefðu
blóðtökubásar verið færðir fjær vegi.
Þau segja slíkar aðgerðir sambærilegar þeim sem þau urðu
vitni að þegar þau rannsökuðu starfsemi blóðtöku í Úrúgvæ, en
samtökin birtu efni úr störfum sínum þar á árunum 2014-2018.
„Verið er að fjárfesta í felum, ekki í dýravelferð,“ segir York.
Þau óska eftir upplýsingum og samtali við bændur sem enn
stunda starfsemina og lofa nafnleysi ef farið er fram á það.
Samtökin gáfu út myndband sl. vetur sem sýnir
ámælisverð vinnubrögð við blóðtöku. Viðbrögðin við útgáfu
myndbandsins veltu af stað atburðaráð sem fól meðal annars
í sér endurskoðun á lagaumgjörð, regluverki og eftirliti með
starfsemi blóðtöku.
„Í sannleika sagt, þá hefði verið betra ef það væri ekki þörf
fyrir slíka myndbandaframleiðslu,“ segir York. „Venjulega
höfum við getað fundað með hagaðilum, eins og MSD [einum
stærsta kaupanda PMSG] eða öðrum líftæknifyrirtækjum.
Í þeirra tilfelli er ekkert myndband að finna því talsmenn
þeirra voru til í samband og samskipti, sem leiddi til þess
að við skiptumst á upplýsingum. Hér mætum við járntjaldi
og okkur ber að kíkja bak við það – það er verkefnið okkar
sem dýravelferðarsamtök þegar við erum að koma á framfæri
þeim skilaboðum að PMSG er ekki framtíðin.“
„Að okkar mati er það kerfisbundið vandamál að
hryssurnar séu hálfvilltar, að þær séu ekki vanar meðhöndlun
mannsins, að þær séu ekki tamdar og þjálfaðar til þessarar
starfsemi. Það er einfaldlega ómögulegt að taka blóð úr
hálfvilltum hesti án þess að valda honum streitu og ótta
og án þess að beita ofbeldi,“ segir Sabrina. Þau byggja
vitneskju sína á viðtali sínu við dýravelferðareftirlitsmann
Ísteka og útgefnu efni fyrirtækisins þar sem þau segja
að fram komi að hryssurnar lifi við frelsi og lítið áreiti frá
manninum utan blóðtöku.
York segist hafa áratuga langa reynslu innan um hross
og fullyrðir að hryssur í blóðtökubásum sýni hegðun særðra
dýra. Sabrina bendir á hugtakið um lært hjálparleysi, sem
lýsir sér m.a. í uppgjöf sem afleiðingu af því að geta ekki
bjargað sér úr ákveðnum aðstæðum.
Í umsögn sinni við tillögu að reglugerð um blóðtöku úr
fylfullum hryssum kalla samtökin eftir því að krafa verði gerð
um skylduþjálfun hryssnanna. Sabrina segir að í því geti falist
að hryssurnar væru bandvanar og þjálfaðar til að vera í básnum
meðan á blóðtöku stendur. Þá gera samtökin athugasemd við
blóðmagnið og mælingar á áhrifum blóðtöku, sem þau segja
þurfa að vera víðtækari.
En burtséð frá hvernig staðið er að starfsemi blóðtöku hér á
landi telur York daga blóðbúskapar talda. Til séu aðrir valkostir
til að stilla gangmál og örva frjósemi í búfénaði. „Við höfum
fengið upplýsingar frá vísindadeild þýsku ríkisstjórnarinnar
að til séu 36 tilbúin staðgöngulyf og þar af eru átta fyrir svín.
Það er því engin ástæða til að nota PMSG. Ég held að út frá
hagsmunum Íslands sem ferðamannalands þá sé framleiðsla
PMSG í mótsögn við þróun ferðaþjónustu. Þetta er starfsemi
sem skaðar ímynd Íslands í nafni framleiðslu sem ég held að
muni hætta af sjálfu sér á næstu fimm árum,“ segir hann.
„Við erum ekki óvinirnir. Við erum síðasta tækifæri
bændanna til að breyta horfum framtíðarinnar til hins betra
fjárhagslega því nú eru þeir á tilgangslausri vegferð sem mun
verða stöðvuð. Þetta er bara spurning um tíma, það er engin
framtíð í PMSG.“ /ghp
Fulltrúar þýsk-svissneskra dýraverndarsamtakanna TBS/AWD á ferð um landið:
Telja daga blóðbúskapar talda
York Ditfurth og Sabrina Gurtner.