Bændablaðið - 25.08.2022, Síða 58
58 Bændablaðið | Fimmtudagur 25. ágúst 2022
Lauslegt yfirlit:
Kynjalaus tíska 2022
UMHVERFISMÁL - TÍSKA
FUGLINN: ÞÓRSHANI
Þórshani er afar sjaldgæfur varpfugl, talið er að hér séu aðeins um 300 fuglar í smáum byggðum umhverfis landið. Vegna þessa nýtur hann sérstakrar friðunar sem felur í sér að dvöl manna við hreiður
Þórshana er óheimil nema með sérstakri undanþágu frá Umhverfisstofnun. Hann kemur hingað seinastur allra farfugla og dvelur ekki nema 1-2 mánuði á varpstöðvum. Þar fyrir utan er talið að þeir
dvelji á rúmsjó allt að því 10-11 mánuði á ári og eru því vetrarstöðvar þeirra lítið þekktar. Hann er í lítilli ætt sundhana ásamt óðinshana og freyshana. Þórshani á það sameiginlegt með frændum sínum
að kvenfuglinn er skrautlegri og á frumkvæði að tilhugalífinu. Ljósmyndin sýnir karlfugl en líkt og hann er kvenfuglinn rauðbrúnn að neðan en með svartan koll, goggrót og hvítan vanga. Þegar hún hefur
orpið tekur karlinn alfarið við og sér um að liggja á eggjunum og koma ungum á legg. Kvenfuglarnir koma ekki nálægt uppeldinu heldur hópast saman eða parast aftur við aðra karlfugla og gætu þess
vegna orpið aftur. Atferli þórshana og óðinshana er mjög svipað en þeir sjást oftast á sundi þar sem þeir synda rösklega í hringi í fæðuleit. Þeir dýfa goggnum ótt og títt í vatnið til að safna alls konar
smádýrum sem þyrlast upp undan þeim. Ásamt þessu éta þeir einnig rykmý af bökkum og yfirborði vatns. Þórshani er einstaklega gæfur en best er að hafa hægt um sig nálægt þeim, láta þá óáreitta
og þá koma þeir gjarnan alveg upp að manni. Mynd og texti / Óskar Andri Víðisson
Tískuiðnaðurinn er í stöðugri
þróun eftir því sem samfélagið
breytist.
Þegar við lítum eins og hundrað
ár aftur í tímann á sögu fatnaðar, var
hlutverk hans mun aðgreindara er kom
að kynjunum. Í stuttu máli var gert
ráð fyrir að konur klæddust kjólum,
karlar buxum og lítið verið að leika sér
með þær hugmyndir vegna væntinga
samfélagsins. Þeir sem fóru yfir strikið
voru oftar en ekki litnir hornauga, en
þó varð línan sveigjanlegri eftir því
sem árin liðu.
Í kringum 1990 mátti sjá konur
í herðabreiðum jakkafötum sitja
valdsmannslega í hægindastólum
á auglýsingasíðum tískublaðanna
á meðan viðmælendur þeirra,
karlmennirnir, hnipruðu sig saman í
fósturstellingu í sófanum. Þarna var
kynhlutverkunum svissað. Það sem er
svo einmitt hæstmóðins í dag kallast
kynlaus tíska. Hannaður er fatnaður og
fylgihlutir sem gera helst ekki
greinarmun á karl- og kvenlegum
líkamlegum einkennum og tjá
kynvitund sem ekki er tvískipt.
– Þá í flokk karla eða kvenna.
Fyrstu skrefin
Kynlaus tíska hóf vegferð sína þegar
konum fannst klæðnaður þeirra
takmarka frammistöðu þeirra og
daglegar athafnir. Hreyfingin náði
miklum vinsældum þegar kvenkyns
aðgerðarsinnar komu fram og fóru að
klæðast karlmannsfötum.
Besta dæmið er Luisa Capetillo,
áköf kvenréttindakona og fyrsta
konan í Púertó Ríkó til að klæðast
karlmannsjakkafötum og bindi
á almannafæri fyrir rétt rúmum
hundrað árum.
Hugarástand ætti ekki endilega að
vera kynbundið
„Hugmyndin um að fatnaður sem
tjáning á persónuleika okkar tilheyri
einu kyni eða öðru er sú félagslega
uppbygging sem þarf að taka í sundur“,
segir Nick Paget, sérfræðingur
hjá World Global Style Network
(WGSN), alþjóðlegu fyrirtæki sem
greinir verslunarhegðun neytenda
og bætir við að „fatnaður undir
hatti flæðigerva (e. Gender fluid)
– kynvitund sem breytist eða er
fljótandi, getur verið hvaða fatnaður
sem er, ef fólk staldraði við og velti
því fyrir sér.“
Áhrifamiklir stjórnendur tískuviku
Bandaríkjanna bættu svo nýlega við
opinberum „*kynsegin (non-binary)“
flokki á dögum tískuvikunnar
margfrægu – New York Fashion
Week. Þá í stað þess að hafa einungis
hefðbundna flokka fatnaðar ætluðum
konum eða körlum. (Kynsegin er
regnhlífarhugtak fyrir kynvitundir
sem falla utan einungis karl-
eða kvenkyns.)
Carolina Stevenson, yfirmaður
menningar- og sögufræða við London
College of Fashion, tekur undir. „Ef
samfélagið er ekki lengur skipulagt í
kringum kynjatvískiptingu, þurfum
við ekki lengur þessa sérstæðu flokka
í tísku.“
Enda er kynjatvíhyggja (e. binary
gender) í raun hefðbundin og úreld
hugmynd um kyn sem takmarkar
möguleikana við karl og konu og
ætti í raun ekki að hafa það vald til
að takmarka tjáningu tískunnar.
Fatahönnuðir í dag
Á tískuviku Kaupmannahafnar
nýverið var að sama skapi mikil
áhersla lögð á það að fatnaðurinn
væri fremur tjáning á persónuleika
heldur en það félagslega viðhorf að
tilheyra einu kyni ofar öðru.
Að venju gengu módel
meistaranema Konunglegu dönsku
akademíunnar niður pallana en
útskriftarsýningar þeirra eru þekktar
fyrir öflugan og ferskan sköpunarkraft
í þéttsetinni dagskrá.
Var áberandi mikill áhugi fyrir
hönnun Alectra Rothschild með
línuna Masculin, en hönnunin var
kynnt sem „Ástarbréf til trans
samfélagsins“. Fatnaðinum má lýsa á
þann hátt að henta þeirri manneskju er
við öll finnum innra með okkur – hver
sem hún er – og frelsið til að klæðast
því sem hugurinn girnist.
When Harry met Harris
Einn heitasti hönnuðurinn með
þá stefnu í huga er Harris Reed.
Vill sá sérstaklega berjast fyrir
viðurkenningu á flæði kynjanna með
verkum sínum og hefur meðal annars
fengið lof sem maðurinn á bak við
einn best klædda mann heimsins.
Harry Styles heitir sá, sem sjálfur
segist kjósa að klæða sig eftir skapi
og eigin geðþótta, hvort sem það er í
blúndur eða leðurjakka. Í desember
fyrir tveimur árum vakti forsíðumynd
af honum mikla athygli, þá klæddum
af Harris Reed í ballkjól fyrir forsíðu
tímaritsins Vouge. Að berjast fyrir
víðtækari og viðurkenndari heimi
virðist vera í huga allra og 2022 er
svo sannarlega ár kynlausrar tísku.
/SP
* Kynsegin (e. non-binary)
Regnhlífarhugtak fyrir kynvitundir
sem falla utan einungis karl-
eða kvenkyns.
Hér má sjá Harry Styles á forsíðu Vouge árið 2020, Luisa Capetillo í jakkafötum, ein fyrst kvenna í Púertó Ríkó í
kringum 1920 og svo módel íklætt kynlausri hönnun Alectra Rothschild á tískuviku Kaupmannahafnar nýverið.