Tímarit lögfræðinga - 01.04.2017, Blaðsíða 7
5
1. INNGANGUR1
Eignarrétturinn er lýstur friðhelgur í 72. gr. stjórnarskrárinnar. Fyrsta
málsgrein ákvæðisins er tvískipt. Annars vegar er því lýst yfir í fyrsta
málslið að eignarrétturinn sé friðhelgur. Um þýðingu þess ákvæðis
fyrir stjórnskipulega eignarréttarvernd hefur mikið verið fjallað en
kemur ekki til frekari skoðunar hér.2 Hins vegar eru eignarskerðingum
settar sérstakar skorður í öðrum málslið og það vald sem ella myndi
leiða af 2. gr. stjórnarskrárinnar takmarkað. Í 2. málslið ákvæðisins er
mælt fyrir um að engan megi skylda til að láta af hendi eign sína nema
almenningsþörf krefji. Þurfi til þess lagafyrirmæli og komi fullt verð
fyrir. Þessi þríþætti varnargarður endurspeglar um leið þær kröfur
sem uppfylla verður telji stjórnvöld almenningsþörf knýja á um að
tilteknar eignarskerðingar eigi sér stað. Stjórnarskrárfyrirmælin marka
þannig skilyrði eignarnáms í þrengri merkingu að lögum.
Skipta má eignarnámsferlinu í þrjú skref. Þannig er fyrsta skrefið
aðdragandi að töku ákvörðunar um eignarnám og eiginleg ákvarðana-
taka. Liggi slík ákvörðun fyrir er til staðar heimild til eignarnáms og
ber þá næst að ákveða bætur til eignarnámsþola. Slíkt fellur í hlut
matsnefndar eignarnámsbóta á grundvelli fyrirmæla í lögum nr.
11/1973 um framkvæmd eignarnáms. Að svo búnu þarf að framkvæma
eignarnám eftir atvikum með umráðatöku og má finna vissa leiðsögn
um hana í fyrrgreindum lögum. Það er þó ekki svo að eignarnámsferlið
fari ætíð fram í þessari röð, enda eru þessir þrír þættir oftar en ekki
samofnir. Sem dæmi má nefna að samningsumleitan um eignarnámið
sem slíkt og um fjárhæð bóta þurfa oftar en ekki að haldast í hendur.
Þess utan flækir það þessa einföldu mynd að ýmsar framkvæmdir
sem leiða til eignarnáms eru þess eðlis að þörf er á umhverfismati og
leyfum af ýmsum toga.
Með þessari grein er ekki ætlunin að fjalla um eignarnáms ferlið
í heild sinni.3 Sjónum verður beint að eignarnámsákvörð uninni sjálfri,
aðdraganda hennar og þeim skilyrðum sem þurfa að vera uppfyllt svo unnt sé að
taka slíka ákvörðun. Kröfur dómstóla til efnislegs mats þeirra stjórnvalda,
sem fara með ákvörðunarvald um eignarnám, hafa skýrst frekar á
1 Höfundar taka fram að í greininni er m.a. fjallað um dómsmál sem þau hafa komið
að sem lögmenn og dómari. Af þeirra hálfu er þess kappkostað að sú aðkoma hafi engin
áhrif á þá fræðilegu nálgun sem viðhöfð var við samningu greinarinnar.
2 Sjá t.d. Björg Thorarensen: Stjórnskipunarréttur. Mannréttindi. Reykjavík 2008, bls. 446-
447 og Ólafur Jóhannesson: Stjórnskipun Íslands. Reykjavík 1978, bls. 439.
3 Í greininni verður ekki fjallað um framkvæmd eignarnáms eða ákvörðun bóta, nema
að því marki sem nauðsynlegt telst til skýringa og samhengisins vegna. Ætlun höfunda
er að skrifa aðrar greinar um þau viðfangsefni.