Tímarit lögfræðinga - 01.04.2017, Blaðsíða 10
8
eignarnámi sem eignarnema, en til þess aðila sem á þau eignarréttindi
sem eignarnám beinist að sem eignarnámsþola. Þetta er í samræmi við
lög um framkvæmd eignarnáms, sbr. 2. mgr. 1. gr. laganna.
2.1 Eignarnám í þrengri merkingu
Í grein þessari er hugtakið eignarnám eingöngu notað um þá aðstöðu
þegar maður er sviptur eignarréttindum sínum á grundvelli sérstakrar
lagaheimildar í þágu almannahagsmuna gegn greiðslu bóta. Sem dæmi
má nefna eignarnám á grundvelli 1. mgr. 37. gr. vegalaga nr. 80/2007
vegna áforma Vegagerðarinnar um nýjan þjóðveg og eignarnám á
grundvelli 50. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 vegna framkvæmdar
skipulags sem hefur verið samþykkt af sveitarfélagi. Þetta má nefna
eignarnám í þrengri merkingu, en verður hér eftir til hægðarauka nefnt
eignarnám. Hugtakið nær þannig ekki til hvers konar eignarskerðinga
sem leiða til bótaskyldu samkvæmt 72. gr. stjórnarskrárinnar.9 Þegar
löggjöf, sem skerðir eignarheimildir, kemur sérstaklega harkalega
niður á einstökum aðila þannig að hann öðlist bótarétt samkvæmt 72.
gr. stjórnarskrárinnar, er ekki um eignarnám í eiginlegri merkingu að
ræða. Hins vegar kann að vera um að ræða aðstöðu sem jafna má efnislega
til eignarnáms þannig að sömu skilyrði liggja til grundvallar því mati
sem fram fer á því hvort bótaskylda hafi stofnast.10 Á álitaefni af þessum
toga reyndi til að mynda í dómi Hæstaréttar frá 28. október 2010 í málum
9 Skúli Magnússon hefur gert greinarmun á þrenns konar lagaheimildum sem geta verið
grundvöllur eignarskerðinga. Í fyrsta lagi beinum og ótvíræðum eignarnámsheimildum
í samræmi við 2. ml. 1. mgr. 72. gr. stjórnarskrárinnar. Í öðru lagi lagaákvæðum sem feli í
sér skerðingu eignarréttinda en séu ranglega á þeirri forsendu reist að skerðingin sé ekki
bótaskyld. Í þriðja lagi kunni lög svo að fela í sér skerðingu sem réttilega sé ekki á því reist
að bótaskylda sé fyrir hendi en við framkvæmd þeirra komi í ljós að þau komi sérstaklega
hart niður á einstökum aðilum. Sjá nánar Skúli Magnússon: „Íslensk fiskveiðistjórn og
réttur eigenda sjávarjarða“ í ritinu Lögberg – Rit Lagastofnunar Háskóla Íslands, Reykjavík
2003, bls. 701-703. Sjá jafnframt Björg Thorarensen: Stjórnskipunarréttur. Mannréttindi,
bls. 488: „Mikilvægt er að hafa í huga að þótt manni séu greiddar bætur vegna þess að
eignarréttindi hans samkvæmt 1. mgr. 72. gr. stjskr. hafa verið skert með ólögmætum hætti,
er ekki endilega staðfest að eignarskerðingin jafngildi eignarnámi í skilningi ákvæðisins.“
Í umfjöllun Valgerðar Sólnes: „Neyðarlagadómarnir og friðhelgi eignarréttar“, bls. 367-368
sýnist hins vegar ekki gerður þessi greinarmunur á eignarnámi í eiginlegri merkingu og
öðrum bótaskyldum eignarskerðingum.
10 Í dönskum rétti hefur t.a.m. reynt á hvort jafna megi áhrifum deiliskipulags, sem
stjórnvöld hafa samþykkt, á möguleika eiganda til þess að nýta fasteign til eignarnáms,
sbr. t.d. MAD 2006.622 Ö og UfR. 1979.938 Ö (Hotel Søfryden). Í hvorugu málinu var fallist á
slíkt. Sjá einnig Hanne Mølbeck og Jens Flensborg: Ekspropriation i praksis. Kaupmannahöfn
2010, bls. 33.