Tímarit lögfræðinga - 01.04.2017, Qupperneq 12
10
úr ríkissjóði vegna tjóns á æðarvarpinu sem var varið af ákvæði
stjórnarskrár um vernd eignarréttar. Telja verður að bótaskylda ríkisins
hafi verið byggð á almennum reglum um bótaábyrgð hins opinbera,
enda ekki um það að ræða að eignarheimildir landeigandans hefðu
verið teknar eignarnámi.
Við aðgreiningu á eignarskerðingum, sem ekki teljast til eignar-
náms í þrengri merkingu, liggur beint við að greina á milli bótaskyldra
skerðinga og skerðinga sem menn þurfa að þola bótalaust (almennar
takmarkanir á eignarrétti). Löggjafinn getur heimilað ýmsar takmark-
anir á eignarrétti án þess að til bótaskyldu stofnist, en þær verða að
eiga sér lagastoð, hvíla á málefnalegum grunni auk þess sem gæta
verður jafnræðis og meðalhófs. Slíkar eignarskerðingar má greina í
tvo flokka, þ.e. annars vegar venjuhelgaðar eignarskerðingar sem löng
hefð er fyrir í réttarskipaninni og hins vegar almennar takmarkanir
á eignarrétti. Hvað varðar hinar venjuhelguðu eignarskerðingar má
sem dæmi nefna skatta, upptöku eigna í refsiskyni og brottfall réttinda
fyrir fyrningu.14 Athafnir og reglur af þessu tagi hafa vissulega áhrif
á eignarréttindi manna en um réttmæti þeirra rís sjaldan ágreiningur.
2.3 Almennar takmarkanir á eignarrétti
Þegar litið er til almennra takmarkana á eignarrétti sem hvíla á lögum
hafa dómstólar játað löggjafanum nokkuð svigrúm án þess að til
bótaskyldu stofnist. Ekki eru til staðar einhlít svör um mörkin og
hvenær nákvæmlega bótaskylda stofnast, enda þjóna lögbundnar
takmarkanir mismunandi markmiðum og hafa afar misjöfn áhrif á
eignarréttindin.15 Vegna þessa þarf að meta heildstætt alla þætti þeirrar
eignarskerðingar sem um ræðir til að skera úr um hvort bótaskylda
sé til staðar samkvæmt 72. gr. stjórnarskrárinnar. Nefna má tiltekin
viðmið sem dómstólar hafa litið til við matið, en vægi þeirra og þýðing
er misjöfn frá einu máli til annars. Ber þar einkum að líta til þess (i)
hvort stofnað er til nýrra eignarheimilda til handa öðrum aðila en
eigandanum, (ii) hver eru markmiðin að baki skerðingunni, svo sem
14 Sjá nánar Björg Thorarensen: Stjórnskipunarréttur. Mannréttindi, bls. 479-487.
15 Sjá t.d. Hrd. 2001, bls. 1169 (mál nr. 395/2000) (Hámark viðmiðunartekna o.fl.). Í málinu
var tekist á um stjórnskipulegt gildi þágildandi ákvæðis 3. mgr. 7. gr. skaðabótalaga nr.
50/1993. Í dómi Hæstaréttar sagði meðal annars: „Viðurkennt er að þrátt fyrir ákvæði 72. gr.
stjórnarskrárinnar getur löggjafinn mælt fyrir um ýmiss konar takmarkanir á eignarrétti
og eignarskerðingar án þess að til bóta komi, enda byggist þær á almennum efnislegum
ástæðum og jafnræðis sé gætt.“ Þá hefur þetta verið orðað með þeim hætti að skerðing
eignarréttinda sé innan þeirra marka sem 72. gr. stjórnarskrárinnar setur þar sem unnt sé
að skerða eignarréttindi manna án þess að bætur komi fyrir, sbr. t.d. Hrd. 2000, bls. 1252
(mál nr. 340/1999) (óvirk lífeyrisréttindi).