Tímarit lögfræðinga - 01.04.2017, Qupperneq 15
13
lögmæti eignarnámsins.18 Í íslenskri dómaframkvæmd hefur þetta
álitaefni einkum lotið að því hvort að skilyrðið um almenningsþörf
hafi upphaflega verið fyrir hendi og/eða forsendur þess breyst síðar
og þá sú réttarstaða að eignarnámsþoli gæti átt rétt til endurheimtu
hinna eignarnumdu verðmæta.19 Af dómaframkvæmd sýnist mega
draga þá ályktun að Hæstiréttur telji sig bæran til þess að taka síðar
til endurskoðunar hvort að skilyrði hafi verið til eignarnáms og eftir
atvikum hvort forsendur hafi breyst þannig að skilyrði hafi brostið.
Er sú nálgun í samræmi við dómaframkvæmd Mannréttindadómstóls
Evrópu, sbr. dóm MDE frá 2. júlí 2002 í máli nr. 48161/99 (Motais de
Narbonne gegn Frakklandi) og dóm frá 13. júlí 2004 í máli nr. 40786/98
(Beneficio Capella Paolini gegn San Marínó) en í báðum málum var sú
staða uppi að eignarnumið land hafði ekki enn verið tekið til áformaðra
nota þegar dómar Mannréttindadómstólsins gengu.20 Á álitaefni um
varanleika eignarnáms mun að einhverju leyti reyna í málum nr. 1828/06
(G.I.E.M. s.r.l. gegn Ítalíu), nr. 34163/07 (Hotel Promotions Bureau s.r.l. o.fl.
gegn Ítalíu) og nr. 19029/11 (Falgest s.r.l. o.fl. gegn Ítalíu) sem hefur verið
vísað til yfirdeildar Mannréttindadómstóls Evrópu. Í málunum reynir
18 Sjá til hliðsjónar dóm Hæstaréttar frá 11. febrúar 2016 í máli nr. 411/2015 (Varnargarður við
Þórólfsfell). Í þessu samhengi er áhugavert álitaefni hver staðan sé væru framkvæmdir á
grundvelli eignarnáms hafnar eða jafnvel lokið en síðar væri eignarnámið ógilt með dómi.
Færa mætti rök að því að eignarnema bæri undir þeim kringumstæðum að fjarlægja þau
mannvirki og rask sem um ræðir og/eða bæta fébótum það tjón sem framkvæmdir hafa
valdið. Til samanburðar má benda á tilhögun byggingar- og skipulagslöggjafar sem mælir
fyrir um slíkt undir þeim kringumstæðum að framkvæmda- eða byggingarleyfi reynast
ógild, sbr. 3. mgr. 53. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og 2. mgr. 55. gr. laga um mannvirki
nr. 160/2010. Um sama atriði vísast til réttarframkvæmdar á grundvelli 2. mgr. 56. gr. eldri
skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 sem var þó fortakslausari í þessa veru, sbr. t.d.
dóm Hæstaréttar frá 6. nóvember 2008 í máli nr. 32/2008 (Suðurhús I) og dóm Hæstaréttar frá 22.
nóvember 2012 í máli nr. 138/2012 (Suðurhús II).
19 Hrd. 1965, bls. 169 (Varmahlíð), Hrd. 1999, bls. 2777 (mál nr. 40/1999) (Krísuvík), Hrd. 2001,
bls. 1090 (mál nr. 58/2000) (Vatnsendi), Hrd. 2003, bls. 1158 (mál nr. 388/2002) (Fífuhvammur).
Af þessum dómum verður ráðið að gert sé ráð fyrir því að eignarnámsþoli kunni að eiga
endurheimturétt sé fyrir hendi lagaheimild þess efnis eða „sérstakar aðstæður“, sbr. einkum
Hrd. 2001, bls. 1090 (mál nr. 58/2000) (Vatnsendi).
20 Í dómi Mannréttindadómstóls Evrópu í máli Motais de Narbonne gegn Frakklandi frá 2. júlí 2002,
mál nr. 48161/99, hafði land verið tekið eignarnámi árið 1982 til að byggja á því félagslegt
húsnæði. Þau áform gengu ekki eftir og þegar dómur Mannréttindadómstólsins gekk 19
árum síðar hafði enn ekki verið hafist handa í samræmi við tilgang eignarnámsins. Í dómi
Mannréttindadómstóls Evrópu í máli Beneficio Capella Paolini gegn San Marínó frá 13. júlí 2004,
mál nr. 40786/98, höfðu yfirvöld tekið ákveðinn hluta lands í eigu kirkjunnar eignarnámi
árið 1985 í þágu skipulags og átti verkefninu að vera lokið á tveimur árum. Þau áform
gengu ekki eftir og lét kirkjan reyna á rétt sinn til þess að endurheimta hið eignarnumda.
Í báðum tilvikum féllst Mannréttindadómstóllinn á að brotið hefði verið gegn lögvörðum
eignarréttindum málsaðila, m.a. með vísan til þess að skilyrði um hagsmuni almennings
(almenningsþörf) hefði ekki verið til staðar.