Tímarit lögfræðinga - 01.04.2017, Page 18
16
þess að fá hana skyldaða til að selja eignarhlut sinn. Fallist var á með
húsfélaginu að konan hefði brotið gróflega og ítrekað gegn eigendum
annarra eignarhluta í húsinu með því að virða ekki skyldur sínar
samkvæmt fjöleignarhúsalögum. Um þá málsástæðu konunnar að
með söluskyldunni væri brotið gegn friðhelgi eignarréttar hennar, sbr.
1. mgr. 72. gr. stjórnarskrárinnar, segir svo í forsendum Hæstaréttar:
„Um þessa málsástæðu er að því að gæta að samkvæmt 2. og 3. málslið
sama ákvæðis getur friðhelgi eignarréttar sætt þeirri takmörkun að skylda
megi mann eða lögaðila til að láta af hendi eign sína ef almenningsþörf
krefji, en til þess þurfi lagafyrirmæli og komi fullt verð fyrir. Með setningu
4. mgr. og 5. mgr. 55. gr. laga nr. 26/1994 hefur löggjafinn metið það svo að
almenningsþörf geti krafist þess að eiganda hlutar í fjöleignarhúsi verði gert
að láta af hendi þá eign sína með því að hún verði seld gegn vilja hans. Ganga
verður út frá því að það mat hafi öðru fremur verið reist á því að stórfelld
brot eiganda hlutar í fjöleignarhúsi gagnvart öðrum eigendum geti vegið að
friðhelgi eignarréttinda þeirra og heimilis. Einnig er hér fullnægt áskilnaði
stjórnarskrár um að lagafyrirmæli þurfi til að skerða eignarréttindi á þennan
hátt.“ [áherslubreyting höfunda]
Niðurstaðan varð því sú að ákvæði 5. mgr. 55. gr. laga nr. 26/1994 var
talið standast skilyrði 72. gr. stjórnarskrárinnar.
Í íslenskri dómaframkvæmd er ekki að finna mörg dæmi þess
að ágreiningur hafi risið um hvort tilteknar framkvæmdir þjóni
samfélags legum hagsmunum og hvort þeir séu slíkir að eignarnám sé
réttlætanlegt. Eðli málsins samkvæmt eru skoðanir manna á því hvað
þjóni samfélaginu misjafnar, en það er þó eðlismunur á framkvæmdum
á borð við lagningu vega og raforkuflutningsmannvirkja annars vegar
og byggingu aðstöðu til íþróttaiðkunar eða afþreyingar hins vegar. Í
dönskum rétti hefur reynt á heimildir sveitarfélaga til að taka landsvæði
eignar námi vegna byggingar golfvalla, en eignarnám getur átt sér
stoð í þarlendum skipulagslögum sé gert ráð fyrir framkvæmdum í
samþykktu deiliskipulagi. Á þetta atriði reyndi í tveimur málum sem
komu fyrir dönsku stjórnsýslunefndina natur og miljöklagenævnet, sbr.
mál KFE 1996.132 og KFE 1993.215 (NKO 3). Í málunum reyndi á lögmæti
eignarnáms sveitarfélaga vegna byggingar golfvalla og var komist að
ólíkum niðurstöðum. Í fyrrnefnda málinu var talið að ákvörðun um
eignarnám í því skyni að bæta tveimur holum við golfvöll væri lögmæt,
en í síðarnefnda málinu var talið að eignarnám væri ekki nauðsynlegt
þar sem koma mætti golfvelli fyrir á öðru svæði.27 Það er athyglisvert
27 Sjá nánari umfjöllun um úrskurðina í riti Hanne Mølbeck og Jens Flensborg:
Ekspropriation i praksis, bls. 59.