Tímarit lögfræðinga - 01.04.2017, Síða 22
20
almennt varðandi kostnað við eignarnám og eignarnámsframkvæmd
í heild kallar á slíkar getsakir.35
3.2 Skýrleiki eignarnámsheimilda
Þessu næst er nauðsynlegt að huga að því hvaða kröfur verða gerðar til
skýrleika eignarnámsheimildar að lögum. Það er grundvallaratriði að
72. gr. stjórnarskrár leggur ekki grunn að heimild löggjafans til þess að
láta fara fram eignarnám.36 Slík heimild verður þvert á móti reist þegar
á grundvelli 2. gr. stjórnarskrárinnar. Tilvitnuð fyrirmæli 72. gr. um
lagafyrirmæli setja því hins vegar skorður hvernig slík lagaheimild er
úr garði gerð. Í ljósi þessa er sú spurning áleitin hvort að krafa 72. gr. um
lagafyrirmæli bæti í sjálfu sér einhverju við áskilnað hinnar almennu
lögmætisreglu. Yfirleitt er þeirri spurningu svarað á þá leið að áskilnaður
stjórnarskrárinnar feli í sér áréttingu á kröfu lögmætisreglunnar en ekki
síður að með því að krafan um lagaáskilnað komi fram með þessum hætti
þá sé útilokað að eignarnám verði reist á öðrum grundvelli en settum
lögum í þrengri merkingu.37 Löggjafinn verði þannig í viðkomandi
lagaheimild að taka skýra afstöðu til þeirra hagsmuna sem heimilað geti
eignarnám og þeirrar almenningsþarfar sem þar búi að baki. Allt framsal
á því mati sæti miklum takmörkunum.38 Þetta hefur verið orðað svo í
dómaframkvæmd að löggjöfin verði að mæla fyrir um meginreglur, þar
sem fram komi takmörk og umfang þeirrar réttindaskerðingar, sem talin
er nauðsynleg, sbr. til dæmis Hrd. 2000, bls. 1621 (nr. 15/2000) (Stjörnugrís)
þar sem vikið var að heimildum til skerðingar á friðhelgi eignarréttar
og atvinnufrelsis samkvæmt 72. og 75. gr. stjórnarskrárinnar.39
35 Þess má geta að í ákvörðunum atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis frá 24. febrúar
2014 sem vörðuðu beitingu eignarnáms vegna Suðurnesjalínu 2 á grundvelli 23. gr.
raforkulaga var Landsneti samkvæmt ákvörðunarorði heimilað að framkvæma umrætt
eignarnám vegna lagningar línunnar um land eignarnámsþola. Ekki var fjallað um
kostnað í ákvörðuninni. Í ákvörðun ráðuneytisins frá 14. október 2016 þar sem eignarnám
var heimilað vegna Kröflulínu 4 og 5 var ákvörðunarorðið sams konar og ekki vikið að
kostnaði.
36 Ólafur Jóhannesson: Stjórnskipun Íslands, bls. 454. Sjá til hliðsjónar Gaukur Jörundsson:
„Eignarnám og takmarkanir á eignarréttindum“. Tímarit lögfræðinga 1964, bls. 62-63.
37 Sjá um þetta Johs. Andenæs og Arne Fliflet: Statsforfatningen i Norge. Osló 2006, bls.
421-422 og Ólafur Jóhannesson: Stjórnskipun Íslands, bls. 454. Þessi skilningur á sér jafnframt
stoð í dönskum rétti, sbr. Hanne Mølbeck og Jens Flensborg: Ekspropriation i praksis, bls.
60-61 og Max Sørensen: Statsforfatningsret. Kaupmannahöfn 1973, bls. 415.
38 Sjá Max Sörensen: Statsforfatningsret, bls. 394-404, Henrik Zahle: Dansk forfatningsret 3.
Kaupmannahöfn 2000, bls. 186 og Peter Germer: Statsforfatningsret. Kaupmannahöfn 2007,
bls. 290.
39 Sjá jafnframt Páll Hreinsson: „Lagaáskilnaðarregla atvinnufrelsisákvæðis stjórnar-
skrárinnar“. Í ritinu Líndæla – Sigurður Líndal sjötugur, Reykjavík 2001, bls. 299-422.