Tímarit lögfræðinga - 01.04.2017, Blaðsíða 26
24
önnur dæmi um almennar eignarnámsheimildir sem talsvert reynir
á í framkvæmd má nefna 37. gr. vegalaga og 50. gr. skipulagslaga.
3.4 Nánar um útfærslu almennra eignarnámsheimilda
Það er afar misjafnt hversu nákvæmar hinar almennu heimildir til
eignarnáms eru, bæði hvað varðar andlag eignarnámsins, lögbundinn
aðdraganda þess og málsmeðferð. Þannig er í sumum tilvikum fjallað
nákvæmlega um til hvaða þátta eignarnám getur náð. Sem dæmi um
mjög skýra afmörkun á andlagi eignarnáms má nefna 36. gr. orkulaga
nr. 58/1967 þar sem eingöngu er gert ráð fyrir því að eignarnám geti
náð til „utanhússpípulagna samhitunarkerfa“. Oftar er þó farin sú
leið að tilgreina andlagið með rúmum og almennum hætti þannig að
vandséð er hvers konar réttindi geti í reynd talist undanþegin. Sem
dæmi um slíkt má á ný vísa til 23. gr. raforkulaga þar sem heimildin
er afmörkuð við „nauðsynlegt land, landgæði, mannvirki, aðstöðu og
önnur réttindi landeiganda að því leyti sem nauðsyn ber til“. Annað
dæmi um rúma afmörkun er 29. gr. laga nr. 57/1998 um rannsóknir
og nýtingu á auðlindum í jörðu, en þar er veitt heimild til þess að
taka „auðlindir eignarnámi ásamt nauðsynlegu landi, mannvirkjum,
aðstöðu til vinnslu auðlindanna og öðrum réttindum landeiganda“.48
Til samanburðar og sem dæmi um annars konar afmörkun á andlagi
eignarnáms má nefna 27. gr. laga um leit, rannsóknir og vinnslu
kolvetnis þar sem ráðherra er veitt heimild til að taka eignarnámi
„fasteignir“ til að starfsemi geti farið fram samkvæmt lögunum. Við
slíkar aðstæður reynir á skýringu hugtaksins fasteign, svo sem hvort
heimildin nái til bygginga á viðkomandi landsvæði og takmarkaðra
eignarréttinda sem því tengjast. Við úrlausn þessa yrði litið til
almennrar skilgreiningar fasteignahugtaksins.49
Það má velta fyrir sér hvort það hafi efnislega þýðingu að telja
með tæmandi hætti upp einstök réttindi sem tengst geta fasteign. Er
eignarnámsheimild kolvetnislaga sem eingöngu tilgreinir „fasteign“
takmarkaðri af þessum sökum? Svara verður þeirri spurningu neitandi.
48 Sjá einnig 3. gr. orkulaga nr. 58/1967. Jafnframt lög nr. 9/2009 um uppbyggingu og
rekstur fráveita, en þar er með 19. gr. ráðherra heimilað að „land og/eða lóðarréttindi
verði tekin eignarnámi ásamt nauðsynlegum mannvirkjum aðstöðu og öðrum réttindum
fasteignareiganda“ vegna lagningar fráveitu sveitarfélags í samræmi við ákvæði laganna.
49 Fasteign hefur verið skilgreind sem afmarkað land ásamt eðlilegum hlutum landsins,
lífrænum og ólífrænum, og þeim mannvirkjum sem varanlega eru við landið skeytt, sbr.
í dæmaskyni 1. mgr. 3. gr. laga nr. 6/2001 um skráningu og mat fasteigna og 2. gr. laga
nr. 40/2002 um fasteignakaup. Sjá t.d. Ólaf Lárusson: Eignaréttur I. Reykjavík 1950, bls. 30,
Gauk Jörundsson: Eignaréttur, bls. 41 og Þorgeir Örlygsson: Kaflar úr eignarétti I. Reykjavík
1998, bls. 59-61.