Tímarit lögfræðinga - 01.04.2017, Page 27
25
Þvert á móti getur sú upptalning sem finna má í raforkulögum og
auðlindalögum sætt þeirri takmörkun að gagnályktað verði þannig
að eignarnám annarra réttinda sem tengjast viðkomandi fasteign sé
óheimilt. Á hinn bóginn má ætla að tilgreining kolvetnislaga á fasteign
sem andlagi feli í sér heimild til eignarnáms á sérhverjum réttindum
sem tengjast viðkomandi fasteign í samræmi við hefðbundna skýringu
á hugtakinu.
Eignarnámsheimildir að gildandi rétti eru nokkuð misjafnar hvað
varðar tilgreiningu á þáttum sem tengjast ákvarðanatöku. Þannig er
til að mynda afar misjafnt að hve miklu leyti aðdragandi ákvörðunar
um eignarnám er rakinn í viðkomandi lagaákvæði. Í ýmsum tilvikum
er sérstaklega áskilið að leitast hafi verið við að ná samningum við
eigandann áður en til eignarnáms kemur og má sem dæmi nefna 23.
gr. raforkulaga, 50. gr. skipulagslaga og 70. gr. fjarskiptalaga.50 Þess má
þó finna ýmis dæmi að ekki sé vikið að skyldu til samningaviðræðna
og má í því sambandi nefna 37. gr. vegalaga. Þá er sú staða uppi hvað
varðar lög nr. 66/2008 um Landeyjahöfn að sérstaklega er tiltekið í 4.
mgr. 4. gr. laganna að það sé ekki skilyrði eignarnáms að áður hafi
verið leitað samninga um land við landeigendur, hvort sem er vegna
lands eða efnistöku. Þá er í sumum eignarnámsheimildum vikið að því
að nauðsyn þurfi að vera til eignarnáms, sbr. t.d. 23. gr. raforkulaga og
70. gr. fjarskiptalaga, en í öðrum tilvikum er slíkt ekki nefnt einu orði,
sbr. t.d. 27. gr. kolvetnislaga. Verður ekki séð að það hafi úrslitaþýðingu
hvort vikið sé að þáttum sem þessum í eignarnámsheimild, enda
gilda kröfur um almenningsþörf og meðalhóf sem leiddar verða af
72. gr. stjórnarskrárinnar fullum fetum. Hins vegar kann árétting
þessa að tryggja enn betur að stjórnvöld virði þessar reglur og gangi
úr skugga um að þeirra hafi verið gætt við undirbúning ákvörðunar
um eignarnám.
3.5 Dæmi úr réttarframkvæmd um skýringu almennra eignarnámsheimilda
Í tilviki almennra eignarnámsheimilda eiga dómstólar, eðli málsins
samkvæmt, ríkt mat á því hvort að fullnægjandi lagaheimild sé til
staðar og hvort það tilvik og þær aðstæður sem um er að ræða hverju
sinni falli að heimildinni á því tímamarki þegar eignarnám fer fram.
Vert er að líta til dóma Hæstaréttar hvað varðar skýringu á nokkrum
eignarnámsheimildum. Þetta er gert í dæmaskyni til að draga fram
þau álitaefni sem geta komið upp í framkvæmd.
50 Í þessari yngri löggjöf sýnist mögulega gæta áhrifa Hrd. 1998, bls. 985 (Arnarnes) hvað
varðar kröfuna um að samningar hafi verið fullreyndir.