Tímarit lögfræðinga - 01.04.2017, Page 29
27
deili skipu lags með vísan til 5. töluliðar 2. mgr. 32. gr. þágildandi
skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.51 Í ákvæðinu var mælt fyrir
um heimild sveitarstjórnar, að fenginni umsögn Skipulagsstofnunar
og á grundvelli gildandi deiliskipulags, til eignarnáms á „lóð eða
lóðarhluta sem stendur í vegi fyrir nýrri lóðaskiptingu sem ákveðin
er í deiliskipulagi“. Ekki var talið að neinir þeir ágallar hefðu verið á
umræddu deiliskipulagi sem varðað gætu ógildi þess. Þá var ekki talið
sýnt fram á annmarka á málsmeðferð í aðdraganda töku ákvörðunar
um eignarnám. Hvað varðar eignarnámsheimildina sagði nánar í
héraðsdómi sem Hæstiréttur staðfesti með vísan til forsendna:
„Er hér sérstaklega til þess að líta að í tilvitnuðu heimildarákvæði eru engin
þau skilyrði sett fyrir eignarnámi sem beinlínis eru háð mati sveitarstjórnar
og þar með endurskoðunarvaldi dómstóla.“
Samkvæmt þessu var raunar talið að lagaheimildin væri þannig
framsett að ákvörðun um eignarnám hefði ekki verið háð mati stjórn-
valds sem dómstólar gætu endurskoðað. Verður að skilja þetta svo að
í reynd hafi lagaákvæðið ekki falið stjórnvaldinu efnislegt mat á því
hvort skilyrði eignarnáms væru uppfyllt og þegar af þeirri ástæðu
gætu dómstólar ekki endurskoðað slíkt. Ákvörðun um eignarnám var
í þessum skilningi eingöngu formlegs eðlis. Að þessu gættu var kröfu
um ógildingu eignarnámsins hafnað. Með hliðsjón af þeirri öru þróun
sem sjá má stað í dómum liðinna ára og birtist í því að dómstólar ganga
æ lengra í þá veru að endurskoða mat löggjafa og stjórnvalda, sbr. t.d.
dóm Hæstaréttar frá 15. nóvember 2012 í málinu nr. 60/2012 (Hverfisgata),
má velta því fyrir sér hvort að í dómsúrlausn í dag yrði talið heimilt
að ganga lengra í þessu mati sem eftir atvikum tæki þá almennt til
lagaheimildarinnar sem slíkrar.
Í dómi Hæstaréttar frá 14. maí 2009 í máli nr. 346/2008 (vegalagning um
Norðurárdal í Skagafirði) reyndi á gildi eignarnáms Vegagerðarinnar sem
fram fór á grundvelli 9. kafla þágildandi vegalaga nr. 45/1994. Sérstaklega
reyndi á beitingu heimildar til eignarnáms til þjóðvegagerðar með
hliðsjón af svokölluðu veghelgunarsvæði samkvæmt 33. gr. laganna, 30
metra frá miðlínu vegar í hvora átt. Vegagerðin taldi að eignarnámið
ætti að ná til lands undir 40 m breitt vegsvæði að flatarmáli 16,9
hektarar en eignarnámsþoli krafðist þess hins vegar að tekið yrði mið
af veghelgunarsvæði og umfang eignarnámsins ákvarðað í samræmi
51 Ákvæði 5. tl. 2. mgr. 50. gr. gildandi skipulagslaga nr. 123/2010 er samhljóða hinu
eldra ákvæði.