Tímarit lögfræðinga - 01.04.2017, Page 30
28
við það 21,84 hektarar. Í forsendum héraðsdóms kemur fram að af
fyrirmælum vegalaga leiddi að ekki mætti staðsetja mannvirki eða
grafa framræsluskurði nær veginum en 30 metra frá miðlínu hans.
Hagnýting eignar sætti því takmörkum og væri eignarréttur þannig
skertur. Hins vegar væri ekki um sviptingu eignarráða að ræða og
gætu eignarnámsþolar nýtt landsvæðið að öðru leyti. Reyndi því á
mörkin milli eignarnáms og almennra eignarskerðinga. Til þess yrði
þá að líta að í vegalögum væri ekki mælt fyrir um neinar bætur fyrir
þessar takmarkanir. Væri hér um að ræða almennar kvaðir sem hvíldu
á öllum landeigendum. Enn fremur yrði að líta til þess að landsvæðið
væri ekki líklegt byggingarland. Þá taldi héraðsdómur sjónarmið um
jafnræði ekki hagga þessari niðurstöðu, en af hálfu eignarnámsþola var
bent á að í öðrum og sambærilegum tilvikum hefði Vegagerðin greitt
landeigendum fyrir 30 metra belti á hvora vegu. Niðurstaða Hæstaréttar
varð á sömu lund með nokkuð öðrum rökstuðningi þó. Var kröfum
eignarnámsþola því hafnað og eignarnámsákvörðunin stóð óhögguð.
Loks er vert, í þessu samhengi, að nefna á nýjan leik til sögunnar dóm
Hæstaréttar frá 26. mars 2015 í máli nr. 583/2014 (Hjarðarhagi). Þar reyndi
á túlkun 37. gr. vegalaga þar sem að Vegagerðinni er veitt heimild til
eignarnáms og annars konar skerðingar á eignarrétti til þjóðvegagerðar
og hvers kyns veghalds, svo sem breytinga, breikkunar eða viðhalds.
Ágreiningur málsaðila fólst í því að Vegagerðin gerði skilyrðislausa
kröfu um að öðlast beinan eignarrétt að því landi sem þörf var á vegna
vegagerðarinnar, en eignarnámsþoli bauð ótímabundinn afnotarétt
og taldi Vegagerðina eins vel setta á grundvelli þess viðurhlutaminna
inngrips. Í dómi Hæstaréttar var tekið fram að tilvitnuð heimild
vegalaga fullnægði þeim skilyrðum sem sett eru í 2. og 3. málslið 1.
mgr. 72. gr. stjórnarskrárinnar. Síðan segir svo í forsendum réttarins:
„Þó verða þau ekki skýrð á þann hátt að þau feli í sér fortakslausan rétt og
jafnframt skyldu stefnda til að öðlast beinan eignarrétt að landi til vegagerðar,
sbr. og 1. mgr. 3. gr. laga nr. 11/1973 um framkvæmd eignarnáms, heldur
verður í því efni að líta til sjónarmiða um meðalhóf.“
Niðurstaða Hæstaréttar varð síðan sú, af nánar tilgreindum atviks-
bundnum ástæðum, að fallist var á að Vegagerðinni væri nauðsynlegt
að öðlast beinan eignarrétt að landinu.
Mat á lagaskilyrðum eignarnáms er eðli málsins samkvæmt ein-
ungis einn þátturinn í aðdraganda lögmætrar eignarnámsákvörðunar.
Ákvörðunin verður auk þess að uppfylla skilyrði formlegs eðlis og
sæta ströngu og margþættu efnislegu mati, þar sem meðal annars