Tímarit lögfræðinga - 01.04.2017, Síða 55
53
Í áðurnefndum úrskurðum Skipulagsstofnunar og umhverfisráðherra um mat
á umhverfisáhrifum af Norðausturvegi voru kostir og gallar hverrar veglínu
ítarlega kannaðir og metnir. Niðurstöður þessara stjórnvalda voru ótvírætt
á þann veg að allar leiðirnar þrjár væru ásættanlegar og að umhverfisáhrif
yrðu í engu tilviki talin umtalsverð. Hlutverk þessara stjórnvalda var ekki
að velja á milli leiða og það gerðu þau heldur ekki. Um tiltekin atriði voru
ókostir við leið 150 [um land í eigu ríkisins] taldir ívið meiri en af hinum
leiðunum tveimur, en sá munur er óverulegur þegar borin er saman í heild
sinni umsögn um leiðirnar þrjár, sem komu til álita. Umhverfisáhrif gátu því
ekki réttlætt ákvörðun stefnda Vegagerðarinnar um að leita eignarnáms til að
svipta áfrýjendur eign sinni í stað þess að leggja veginn eftir leið 150 yfir land
ríkisins. Að öðru leyti hefur Vegagerðin borið fyrir sig að af vegtæknilegum
ástæðum, sem svo eru nefndar, hafi veglínur 140 og 141 kosti umfram leið 150
og að kostnaður af þeim fyrrnefndu sé minni. Þessar staðhæfingar eru engum
gögnum studdar og hafa ekki verið skýrðar frekar. Þá hefur Vegagerðin
einnig hreyft því að vegalengdir milli þéttbýliskjarna verði styttri með því
að velja fyrrnefndu leiðirnar. Af áðurnefndum úrskurði Skipulagsstofnunar
verður þvert á móti ráðið að leið 150 sé rúmlega einum kílómetra styttri
en hinar leiðirnar tvær. Sé litið til vegalengdar milli Kópaskers og hinna
þéttbýlisstaðanna tveggja jafnast sá munur þó út þegar virt er að tenging
Norðausturvegar kemur inn á þjóðveg nr. 85 heldur sunnar frá Kópaskeri
með leið 150 en með annarri hvorri hinna leiðanna. Þessar ástæður stefnda
Vegagerðarinnar fyrir að fara yfir land áfrýjenda eru því haldlausar.“
[áherslubr. höfunda]
Samkvæmt öllu framanröktu var skilyrði 2. málsliðar 1. mgr. 72. gr.
stjórnarskrárinnar um almenningsþörf ekki talið uppfyllt til þess að
Vegagerðin gæti beitt eignarnámi í umrætt sinn. Krafa eignarnámsþola
um ógildingu eignarnámsins var því tekin til greina. Eins og framan-
greind reifun leiðir í ljós þá er dómurinn skýrt dæmi um þýðingu
meðalhófs við mat á því hvaða leið skuli valin vegna framkvæmdar
sem er í almannaþágu. Um leið má sjá hversu langt dómstólar telja
sér fært að ganga í endurskoðun mats stjórnvalds, sem ætla mætti að
væri fyrst og fremst sérfræðilegt, en í dóminum eru borin saman atriði
á borð við kostnað, umferðaröryggi, umhverfisáhrif og vegalengdir.
Annar dómur Hæstaréttar, þar sem meðalhóf við beitingu eignar-
námsheimildar er í forgrunni, er fyrrnefndur dómur frá 5. nóvember 2015
í máli nr. 173/2015 (Hestamannafélagið Funi). Í málinu krafðist jarðeigandi
í Eyjafirði ógildingar á ákvörðun ráðherra frá árinu 2010 þar sem
Eyjafjarðarsveit var veitt heimild til eignarnáms á landi úr jörðinni
undir reiðstíg á austurbakka Eyjafjarðarár. Talið var leiða af 1. mgr.
10. gr., sbr. 6. gr. vegalaga, að reiðstígar teldust til vegakerfis landsins.
Bæði hefðu Eyjafjarðarsveit með nánar tilgreindu aðalskipulagi og
vegamálastjóri í tillögu til ráðherra byggt á því að nauðsynlegt væri