Tímarit lögfræðinga - 01.04.2017, Blaðsíða 75
73
1. INNGANGUR
Í framsöguræðu innanríkisráðherra 19. janúar 2016, er hann mælti fyrir
frumvarpi sem fól í sér nýtt refsiákvæði um ofbeldi í nánum sambönd-
um, kom fram að heimilisofbeldi væri ekki einkamál fjölskyldna,
heldur varðaði samfélagið allt og væri vandamál sem sporna yrði við.1
Þessi orð lýsa afstöðu löggjafarvaldsins til heimilisofbeldis og vitna um
vilja til að hamla gegn því. Frumvarpið var liður í því að gera íslenskum
stjórnvöldum kleift að fullgilda samning Evrópuráðsins um forvarnir og
baráttu gegn ofbeldi gegn konum og heimilisofbeldi.2 Samningurinn, sem
í daglegu tali er nefndur Istanbúlsamningurinn, var samþykktur á
vettvangi Evrópuráðsins 11. maí 2011 og undirritaður af íslenskum
stjórnvöldum sama dag.3
Við undirbúning að fullgildingu Istanbúl-samningsins var Mann-
réttindastofnun Háskóla Íslands falið að gera athugun og greiningu
á íslenskum rétti og skoða sérstaklega hvort íslensk lög og laga fram-
kvæmd fullnægðu þeim skuldbindingum sem í samningnum felast.4
Stofnunin skilaði ítarlegri greinargerð í október 2012 sem ber heitið
Skýrsla um samning Evrópuráðsins um forvarnir og baráttu gegn ofbeldi á
konum og heimilisofbeldi og aðlögun íslenskra laga og reglna vegna aðildar.5
Í skýrslunni er að finna nákvæma úttekt á íslensku réttarkerfi og
samanburð á því og ákvæðum samningsins sem síðan er fylgt eftir
með tillögum til úrbóta.
Með hliðsjón af helstu niðurstöðum skýrslunnar var m.a. talið
nauðsynlegt og eðlilegt að lögfesta tvö nýmæli. Annars vegar ákvæði
um nauðungarhjónaband og hins vegar ákvæði um ofbeldi í nánum sam
böndum.6 Þegar skýrslan lá fyrir fól innanríkisráðherra refsi réttarnefnd
1 Flutningsræða innanríkisráðherra 19. jan. 2016, 63. fundur, 401. mál, 145. löggjafarþing
(2015-2016).
2 Samningurinn heitir á ensku Council of Europe Convention on preventing and combating
violence against women and domestic violence og má finna á vef Evrópuráðsins coe.int.
3 Samningurinn tók gildi 1. ágúst 2014 þegar tilskilinn fjöldi ríkja hafði fullgilt hann.
Hinn 1. janúar 2017 höfðu 22 af 47 aðildarríkjum Evrópuráðsins fullgilt hann.
4 Afdráttarlaus vilji íslenska ríkisins til að fullgilda Istanbúl-samninginn kemur
fram í svari innanríkisráðherra við fyrirspurn þingmanns um fyrirhugaða fullgildingu
samningsins af Íslands hálfu og hvort efnisleg greining á samningnum hafi farið fram af
því tilefni, sbr. þskj. 952 og 1029, 562. mál, 141. löggjaf arþing (2012–2013).
5 Skýrsluna er að finna á vef Mannréttindastofnunar Háskóla Íslands mhi.is. Höfundur
hennar er Gunnar Narfi Gunnarsson lögfræðingur.
6 Höfundur skýrslunnar mat það svo að íslensk lög væru ekki í samræmi við ákvæði
samningsins um nauðungarhjónaband og taldi nauðsynlegt að lögfest yrði sérstakt refsi-
ákvæði þar að lútandi, sbr. 5. kafla skýrslunnar (bls. 80). Á hinn bóginn var ekki lagt til að
sérstakt ákvæði um heimilisofbeldi yrði lögfest, en ráðherra mat það svo að slíkt ákvæði
þjónaði vel því markmiði sem samningnum væri ætlað að ná.