Tímarit lögfræðinga - 01.04.2017, Page 79
77
ýmis nauðungar- og frelsissviptingarbrot, sbr. 195., 225. og 226. gr.
hgl. Þá lagði nefndin til að lögfestar yrðu reglur um nálgunarbann,
vitnavernd og rétt brotaþola til að fá skipaðan löglærðan talsmann,
auk þess sem hún taldi þýðingarmikið að ríkislögreglustjóri gæfi út
samræmdar reglur um rannsókn heimilisofbeldismála hjá lögreglu
og skyldu lögreglu til að upplýsa brotaþola um bótarétt hans og til að
leiðbeina honum við gerð bótakröfu.
Nefndin, sem fékk það hlutverk að huga að meðferð heimilis-
ofbeldismála í dómskerfinu, lagði athugasemdalaust til grundvallar
sömu skilgreiningu á heimilisofbeldi og nefndin frá 1994 hafði gert
og einskorðaði hana við ofbeldi sem konur og karlar verða fyrir af
hálfu núverandi eða fyrrverandi maka eða sambúðaraðila.17 Hvorki
var gerður fyrirvari um börn sem búa á heimili þar sem ofbeldi er
viðvarandi né talin ástæða til að rýmka ofbeldishugtakið með þeim
hætti sem gert var í skýrslu nefndarinnar, sem fjallaði um meðferð mála
hjá lögreglu. Þá var lagt til að lögfestar yrðu reglur um nálgunarbann
og um rétt brotaþola til að fá skipaðan löglærðan talsmann, auk þess
sem ákærureglum vegna minni háttar líkamsmeiðinga yrði breytt
þolanda til hagsbóta.
Í skýrslunum fjórum, sem hér hefur verið getið, vekur einkum
tvennt athygli sem skiptir máli fyrir efni þessarar greinar. Í fyrsta lagi
lagði engin nefndanna til að sett yrði sérstakt ákvæði í hegningarlög
um heimilisofbeldi eða eftir atvikum ofbeldi í nánum samböndum,
eins og algengara er að orða þetta nú á dögum. Í öðru lagi leggja
nefndirnar, hver með sínum hætti, líkamlegt ofbeldi (líkamsárás eða
líkamsmeiðingar) til grundvallar við skilgreiningu á heimilisofbeldi
(sbr. 217. og 218. gr.). Ein þeirra taldi þó rétt að fella einnig undir
heimilisofbeldi verknaði þar sem beitt væri aðferðum sem falla undir
önnur ákvæði hegningarlaganna um húsbrot, ofsóknir og hótanir (sbr.
231., 232. og 233. gr.) og nauðgun (sbr. 194. gr.), sem og ýmis nauðungar-
og frelsissviptingarbrot (sbr. 195., 225. og 226. gr.). Þessar skilgreiningar
eru á hinn bóginn nokkuð þrengri en sú sem ákvæði 218. gr. b hgl. er
byggt á eins og nánar er vikið að síðar.
3. NÁLGUNARBANN OG BROTTVÍSUN AF HEIMILI
Í kjölfar starfa þessara nefnda voru lögfestar reglur um nálgunar-
bann, sem höfðu að meginmarkmiði að vernda þolendur ofbeldis
og fyrirbyggja frekara ofbeldi. Nálgunarbann hefur þannig sérstaka
17 Skýrsla dómsmálaráðherra um meðferð heimilisofbeldismála í dómskerfinu, sbr. þskj.
1384, 713. mál, 122. löggjafarþing (1997–1998). Sjá inngangskafla.