Tímarit lögfræðinga - 01.04.2017, Page 80
78
þýðingu í tengslum við ofbeldi í nánum samböndum. Ekki var um
sérstakan lagabálk að ræða, heldur farin sú leið að koma reglunum fyrir
í lögum um meðferð opinberra mála (sakamála) þó að nálgunarbann
tengist ekki beint rannsókn eða meðferð sakamáls í tilefni af tilteknu
broti, sbr. lög nr. 94/2000 um breyting á lögum um meðferð opinberra
mála og almennum hegningarlögum (nálgunarbann).18 Síðar var horfið
frá þessu fyrirkomulagi og sett sérstök lög um nálgunarbann, sbr. lög
nr. 122/2008.
Gildandi lög um nálgunarbann eru nr. 85/2011.19 Þar er ennfremur að
finna ákvæði um brottvísun af heimili. Með lögunum var „austurríska
leiðin“, sem nefnd hefur verið svo, lögfest, en það er úrræði sem heimilar
lögreglu að vísa ofbeldismanni burt af heimili sínu eða dvalarstað og
banna honum að koma þangað aftur í tiltekinn tíma.20 Úrræðið hafði
verið tekið upp í löggjöf annarra Evrópulanda, þ.á m. Norður landanna.21
Í áliti allsherjarnefndar með frumvarpi því, er varð að lögum
nr. 85/2011, segir að ofbeldi á heimili sé mál sem samfélagið þurfi
að bregðast við og vinna bug á með víðtækri samvinnu sem flestra.
Lögin feli í sér mikla réttarbót fyrir þolendur heimilisofbeldis og í
úrræðum þess felist mikil vernd fyrir börn sem búa við heimilisofbeldi
og tækifæri til að tryggja þeim nauðsynlegan stöðugleika og öryggi.22
4. NÁIN TENGSL SEM REFSIÞYNGINGARÁSTÆÐA
Árið 2004 fór þáverandi dómsmálaráðherra þess á leit við refsiréttar-
nefnd að hún „gæfi álit sitt á þeim sjónarmiðum sem fram hefðu
komið um hvort setja bæri í almenn hegningarlög refsiákvæði þar sem
heimilisofbeldi yrði lýst sem sérstökum refsinæmum verknaði eða
hvort áfram skyldi stuðst við hin almennu líkamsmeiðingarákvæði
217. og 218. gr. laganna“.23
18 Með lögum nr. 94/2000 var annars vegar nýjum kafla bætt inn í lög um meðferð
opinberra mála nr. 19/1991 (nú lög um meðferð sakamála nr. 88/2008), sem geymdi reglur
um nálgunarbann og hins vegar var nýtt ákvæði sett í almenn hegningarlög, þar sem brot
gegn nálgunarbanni var mælt refsivert, sbr. 1. mgr. 232. gr. hgl.
19 Lög nr. 85/2011 um nálgunarbann og brottvísun af heimili.
20 „Austurríska leiðin“ vísar til laga sem tóku gildi í Austurríki 1. maí 1997. Lagasetningin
var liður í baráttu Austurríkismanna gegn heimilisofbeldi eftir að þeir höfðu opnað
tuttugasta kvennaathvarfið. Sjá nánar Rosa Logar: The Austrian model of intervention in
domestic violence cases. Vín 2005, bls. 7–8.
21 Frumvarp til laga um nálgunarbann og brottvísun af heimili, sbr. þskj. 1225, 706. mál,
139. löggjafarþing (2010–2011).
22 Álit allsherjarnefndar um frv. til l. um nálgunarbann og brottvísun af heimili, sbr.
þskj. 1628, 706. mál, 139. löggjafarþing (2010–2011).
23 Þetta kemur fram í inngangskafla greinargerðar með frumvarpi því er varð að lögum
nr. 27/2006, sbr. þskj. 419, 365. mál 132. löggjafarþing (2005–2006).