Skessuhorn


Skessuhorn - 16.11.2022, Blaðsíða 26

Skessuhorn - 16.11.2022, Blaðsíða 26
MIÐVIKUDAGUR 16. NÓVEMBER 202226 Skagamenn léku í sumar fjórða árið í röð í efstu deild karla í knattspyrnu sem nefndist Besta deildin. ÍA lauk leik í næst neðsta sæti deildar- innar með 25 stig úr 27 leikjum og féll í Lengjudeildina ásamt Leikni Reykjavík. ÍA vann sex leiki, gerði sjö jafntefli og tapaði fjórtán. Blaða- maður Skessuhorns kíkti í vinnuna til Jóns Þórs fyrir helgi og fór yfir tímabilið með honum. Ef við förum yfir tímabilið í heild sinni þá spilið þið átta leiki í apríl og maí. Einn sigur, þrjú jafntefli og fjögur töp. Var þér ljóst þarna að það yrði ykkar hlutskipti að vera í fallbar- áttu í sumar? „Byrjunin benti ekki til þess, fyrstu þrír leikirnir voru glimrandi fínir og voru í takt við það sem við vorum búnir að gera í aðdraganda mótsins. Hlutirnir voru að smella alveg ágætlega fyrir okkur en síðan lendum við í mannfalli þannig að við missum svolítið taktinn. Við misstum menn í veikindi og þeir Viktor Jóns, Alexander Davey, Aron Bjarki og Wout Droste glímdu við meiðsli. Þarna voru máttarstólpar í vörn og sókn farnir og þar með misstum við hryggjarsúluna í liðinu ásamt því að Oliver Stefánsson var mikið inn og út framan af sumri. Við misstum taktinn alveg þarna og náðum honum aldrei í raun til baka,“ segir Jón Þór. Byrjuðu upp á nýtt Í júní spilið þið ekki nema tvo leiki sem enda báðir með jafntefli á móti KR og FH. Hvað lagðir þú upp með í þessum mánuði varðandi æfingar sökum lítils leikjaálags? „Maí var martraðarmánuður þar sem við lentum í veikindahrinu leik- manna sem lagðist þungt á okkur. Menn voru kannski ekki lengi frá vegna veikinda en virtust missa allt form hvað varðar orku, kraft, úthald og þol. Við vorum farnir að horfa í þetta landsleikjahlé til þess að ná vopnum okkar aftur og hlaða batteríin þannig að það var ákveðið í bland við gott frí að æfa vel. Við náðum að nýta þennan tíma gríðar- lega vel, hreinsa hugann og byrja upp á nýtt, bæði andlega og líkam- lega. Við áttum síðan okkar besta leik eftir fríið í Frostaskjólinu á móti KR í grátlegu 3-3 jafntefli og í kjölfarið gerðum við 1-1 jafntefli við FH. Þá hélt ég að við gætum byggt ofan á þessa frammistöðu en annað kom á daginn.“ Hugur í hópnum og menn virkilega að reyna Í júlí spilið þið fjóra leiki og tapið þeim öllum. Hvernig er að vera þjálf- ari í þessum aðstæðum, hvernig gekk að halda mönnum við efnið og er ekki erfitt að vera jákvæður í svona taphr- inu? „Þegar þarna er komið sögu höfum við ekki enn náð að spila tvo leiki í röð með sömu varnarlínu þannig að við náum aldrei þeim stöðugleika og þeim ramma á varnarleikinn sem þú þarft. Það reyndist okkur erfitt auk þess að vera það lið í deildinni sem mátti minnst við því því við vorum með marga nýja leikmenn og búið að vera mikið rót á leikmannahópi liðsins síð- ustu ár þar að auki. Annars var mik- ill hugur í hópnum og hver einasti leikmaður gerði sér grein fyrir því að við værum með nógu gott lið til að standa okkur vel í þessari deild. Menn voru virkilega að leggja sig fram og reyna að ná betri úrslitum en af ýmsum ástæðum náðist það ekki. Það skorti upp á liðsheildina hjá okkur, hópurinn var stór en vant- aði upp á tengingu og þéttleikann sem maður vill hafa. Hvað jákvæðn- ina varðar, ef þú hefur ekki trú á hlutunum og því sem þú ert að gera og liðinu þínu, þá er það auðvitað ómögulegt verkefni. Maður reynir að taka það jákvæða og bæta það sem vantar upp á. Þó úrslitin væru ekki að skila sér þá voru ákveðnir þættir sem við vorum ánægðir með en því miður duttu úrslitin ekki fyrir okkur í þessum leikjum.“ Stór ákvörðun Í ágúst spilið þið fimm leiki, tapið fyrstu þremur leikjunum á móti Breiðablik, Val og KA en náið loks sigri í tveimur næstu leikjum. Þú tekur markvörðinn og fyrirliðann Árna Snæ út úr liðinu í byrjun mánaðarins og setur Árna Marinó inn. Varst þú búinn að hugsa þetta lengi og fannst þér eitthvað breytast með tilkomu Árna Marinó? Jón Þór segir að á þessum tíma- punkti hefði Árni Marinó átt tæki- færi skilið því það var orðin ansi löng leikjatörn hjá liðinu án sigurs. „Þá veltir maður öllum steinum og veltir ýmsu fyrir sér. Kannski hefðum við átt að gera þetta fyrr en markmannsstaðan er sú staða sem þú vilt síst vera að hræra í á miðju tímabili og við reyndum að bíða með það eins lengi og við gátum. Árni Snær var auk þess fyr- irliði liðsins og því var þetta stór ákvörðun en við þurftum stórar ákvarðanir á þessum tímapunkti. Þetta var ein af mörgum sem var tekin til að reyna að snúa gengi liðsins til hins betra.“ Allt þyngist og verður grárra Fyrsti sigurleikurinn í næstum fjóra mánuði kom loks í 18. umferðinni á móti ÍBV og í kjölfarið sigur á Keflavík. Þetta hefur verið mikill léttir og breytti þetta miklu? „Þetta breytti öllu því þegar leikjunum fjölgar sem þú nærð ekki sigri þá þyngist allt og verður grárra. Það á alveg eins við leik- menn, þjálfara, stuðningsmenn, stjórnarmenn og alla sem eru í kringum liðið að þetta hefur gríðarleg áhrif á andlegu og líkam- legu hliðina. Við vorum búnir að skoða marga þætti hvernig við gætum snúið þessu við og það er meira en að segja það að ná því en á endanum eru þetta engin vís- indi. Við vorum búnir að finna það út að það væru þættir í okkar leik sem við vorum mjög ósáttir við, tölfræðiþættir eins og tæklingar, seinni bolti, hlaup, sprettir og svo framvegis. Við breyttum þessum þáttum markvisst og við sáum það sem gullið tækifæri að bæta liðið verulega með einföldum hætti. Það er ekkert sjálfgefið fyrir lið í þessari stöðu að vinna þá sigra sem við gerðum og ég tel að það hafi verið stórt að hafa náð því með liðið í þessu ástandi. Eftir svona marga tapleiki í röð var það að ná að vinna svona baráttu- og karakter sigra með þessum hætti afar kærkomið.“ Í raun og veru sakamál Í september gerðuð þið jafntefli við KR, töpuðuð stórt á móti FH og töpuðuð í mjög mikilvægum leik á móti Leikni. Þetta hlýtur að hafa verið afar svekkj- andi? „Þetta var alveg grátlegt, þegar maður horfir til baka og niður- staðan er sú að við föllum á marka- tölu þá var það mjög svekkjandi. Í raun og veru er það sakamál að spila þrjá leiki við Leikni í sumar og fá aðeins eitt stig út úr þeim leikjum. Það er þar sem maður staldrar mest við þegar maður fer að telja til baka stigin í sumar og verulega þungt að tapa mikilvægum stigum í þessum leikjum.“ Svo tók við í október mót sex neðri liðanna í deildinni um það að sleppa við fall. Í þriðju umferðinni gerðuð þið jafntefli við Leikni sem nánast felldi ykkur. Hefðuð þið ekki mátt taka meiri áhættu í þeim leik? Jón Þór segir þegar hann rifjar þetta upp að eftir á að hyggja flokk- ist það sem mistök að hafa ekki gert það en á þeim tímapunkti sem þjálfararnir voru að velta því fyrir sér hefði verið ágætis taktur í þeirra leik. „Við vorum bæði með Viktor og Eyþór Aron frammi sem báðir fengu dauðafæri til að koma okkur yfir í leiknum undir lokin. Þegar þú tekur áhættu og hendir öllum fram þá geturðu tekið taktinn úr leik liðsins og vegna þess að við vorum að skapa okkur færi þá vorum við hikandi við það. Kannski hefðum við átt að gera það en svona eru þessar ákvarðanir oft, það þarf að hrökkva eða stökkva og eftir á að hyggja miðað við hvernig leikurinn þróaðist á lokamínútunum þá voru mistök að breyta ekki.“ Með stóran hóp af ungum leikmönnum Eftir sigra á ÍBV og FH var ljóst að ÍA var fallið í Lengjudeildina eftir fjögurra ára veru í efstu deild. Það er ljóst að þú verður áfram þjálfari liðsins og sex erlendir leikmenn eru á förum. Hver er stefna þjálfarans varðandi leikmannamál og með framhaldið? „Ég tel að okkur vegni best þegar stefna ÍA er höfð í hávegum og við náum að búa til lið sem er byggt upp á heimamönnum. Ég trúi því einlæglega að það hafi virkað best fyrir okkur og við höfum svo sem reynt að fara aðrar leiðir í að búa til gott lið en það hefur ekki gengið upp af ýmsum ástæðum. Mín stefna í leikmanna- málum er sú að við séum með öfl- ugan kjarna af heimamönnum sem við byggjum okkar lið í kringum. Við erum með stóran hóp af ungum leikmönnum sem eiga framtíðina fyrir sér og þeirra bíður stórt tækifæri til þess að láta til sín taka. Það er undir þeim komið að taka það stóra skref, þeir verða að átta sig á því að skrefið er mjög stórt og þeir þurfa að þroskast og fullorðnast mjög hratt á mjög skömmum tíma. En með mikilli vinnu þá tel ég þá eiga góða möguleika á því. Það eru spennandi hlutir framundan hjá liðinu og ég get ekki beðið eftir að byrja nýtt undirbúningstímabil frá byrjun sem ég náði ekki á þessu tímabili.“ Hvað með aðstöðuna hjá félaginu? Má bæta hana og að hvaða leyti? „Það sem vantar er aðstaða til að iðka knattspyrnu utan dyra allt árið, okkur vantar gervigras úti hvort sem það er á aðalvöll- inn eða á æfingasvæðið eða hvaða leið sem menn geta eða vilja fara í þeim málum. Aðalvöllurinn er ónýtur og það er gríðarlega erfitt að spila góða knattspyrnu á honum yfir bestu mánuðina. Við getum ekki vökvað hann, ef það er þurrt á leikdegi þá er mjög erfitt að spila á honum og ef það er rigning þá verður hann mjög blautur af því hann hleypir engu vatni í gegnum sig, hann drenar ekki. Númer eitt er að fá nýjan völl þar sem hægt er að spila betri knattspyrnu, hvort sem það er góður grasvöllur eða gervigrasvöllur, það breytir mig engu máli. Við búum við þannig aðstæður að gervigrasið hentar okkur betur og það myndi kosta um 130-170 milljónir með flóð- ljósum og vökvunarkerfi ef farið yrði í þá framkvæmd.“ Mikil vinna framundan Hvernig líst þér á næsta sumar og er ekki stefnan að fara með liðið beint upp aftur? „Það eru margir hlutir í félaginu sem við þurfum að skoða og sú vinna er þegar hafin. Við þurfum að greina það hvað það er sem fer úrskeiðis hjá okkur, við erum í reglulegu millibili að lenda í vandræðum í meistaraflokki karla og það er eitthvað sem við þurfum að finna lausn á. Það snýst ekki bara um næsta ár heldur hvernig komum við okkur upp aftur og höldum okkur þar. Búum til öfl- ugt og gott lið til frambúðar og þar held ég að stefnan komi sterk inn. Í gegnum tíðina höfum við farið rækilega út af sporinu í þeim efnum og þegar maður kafar ofan í þetta þá eru ótrúleg líkindi með því þegar við föllum. Þetta eru nánast sömu hlutirnir sem eiga sér stað í aðdragandanum þannig að þetta er ekki spurningin um stefnu ÍA, hún hefur alltaf verið til. Vandamálið er að ef við förum út af því spori, af hverju fylgjum við því ekki og hvernig getum við gert það til framtíðar, það er algjört lykilatriði. Við þurfum að byrja á byrjuninni og eins og staðan er akkúrat núna þá er mikil vinna framundan, bæði í kringum liðið og í umgjörðinni allri. Þá er ekk- ert annað að gera en að bretta upp ermar og byrja þá vinnu á réttum stað. Svo komum við liðinu upp og getum þá vonandi náð því að byggja upp góðan grunn sem hægt er að hlúa vel að um ókomin ár,“ segir Jón Þór að lokum. vaks „Við þurfum að búa til öflugt og gott lið til frambúðar“ Rætt við Jón Þór Hauksson þjálfara Skagamanna um tímabilið í sumar Jón Þór Hauksson þjálfari ÍA. Ljósm. vaks Lið ÍA sem lék í Bestu deildinni í sumar. Ljósm. kfia

x

Skessuhorn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Skessuhorn
https://timarit.is/publication/1096

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.