Bændablaðið - 23.02.2023, Síða 8
8 Bændablaðið | Fimmtudagur 23. febrúar 2023
FRÉTTIR
Til sölu Ssangyong Rexton, 7 manna 2,2 Dísel, sjálfskiptur.
Árgerð 2021. Ekinn 11.000 km. Bíllinn er með 33“ breytingu.
Bíllinn er með hátt og lágt drif,læstur millikassi, sjálfstæð fjöðrun,
læst afturdrif,byggður á grind.Dráttarbeisli. Dráttargeta 3000kg.
Verð kr. 8.990.000.- Upplýsingar í s. 567-4949.
Kornrækt:
Leggja til 500 milljón
króna ríkisstuðning
Starfshópur matvælaráðherra
leggur til árlegan 500 milljón króna
ríkisstuðning auk fjárúthlutunar í
sérstakan þróunarsjóð í drögum
sínum að aðgerðaráætlun til
eflingar kornræktar. Lokaskýrsla
hópsins verður afhentur ráðherra
um næstu mánaðamót.
Starfshópinn skipa Helgi
Eyleifur Þorvaldsson, Hrannar
Smári Hilmarsson og Egill
Gautason hjá Landbúnaðarháskóla
Íslands. Síðan hópurinn var
skipaður í ágúst í fyrra hefur
hann m.a. safnað saman tiltækum
gögnum, tekið viðtöl við bændur,
sérfræðinga og kornkaupendur,
kynnt sér fyrirkomulag kornræktar
í nágrannalöndum og teiknað
upp mögulegar sviðsmyndir fyrir
uppbyggingu kornræktar hér á landi.
Hópurinn hélt í janúar tvo fundi
með bændum sunnan heiða og
norðan þar sem þeir kynntu vinnu
sína og drögin. Mæltust þeir vel
fyrir. Egill segir það hafa komið
þeim þægilega á óvart hvað mæting
var mikil. Fjörugar umræður hafi
skapast sem sýndi augljósan áhuga
bænda á málefninu.
Stærðarhagkvæmni lykilatriði
Í aðgerðaráætluninni leggur
hópurinn meðal annars til árlegan
500 milljón króna ríkisstuðning
sem skiptist í fjárfestingastuðning
og framleiðslutengdan stuðning.
„Fjárfestingastuðningurinn yrði
ætlaður í innviðauppbyggingu;
byggingu þurrkstöðva og sílóa, auk
kaupa á kornflutningavögnum og
þreskivélum,“ segir Helgi.
Egill bendir á að eitt af megin
niðurstöðum þeirra sé nauðsyn
þess að byggja upp hagkvæma
innviði til þurrkunar, geymslu og
flutninga. „Stærðarhagkvæmni er
þar lykilatriði og því tölum við um
að til þess að hægt sé að fá styrk
þurfi stöðin að afkasta að minnsta
kosti 1.000 tonnum með áætlanir
um stækkun. Minni og óhagkvæmari
einingar yrðu verri fjárfesting fyrir
hið opinbera sem og rekstraraðila
stöðvarinnar.“
Helgi segir að færri og stærri
þurrkstöðvar væru æskilegasti
kosturinn. „Fjárfestingakostnaður
á tíu þúsund tonna stöð er helmingi
minni en á þúsund tonna stöð ef
þú deilir henni niður á kíló. Við
leggjum höfuðáherslu á að verkefni
verði fullfjármögnuð. Að uppfylltum
tilteknum skilyrðum leggi ríkið þá
til 40% í fjárfestingunni.“
Hann segir þó mikilvægt að
bændur séu í ráðandi hlut. „Til þess
að verkefninu fylgi ákefð og ástríða.
En við leggjum það þó í hendur
bænda að koma sér saman í hóp.“
Hvati til að gera vel
Hinn angi stuðningsins yrði svo
framleiðslutengdur. Starfshópurinn
leggur til að til að byrja með yrðu 10
20 krónur greiddar fyrir hvert kg af
byggi, hveiti og höfrum.
„Við teljum að framleiðslutengdur
stuðningur skapi hvata fyrir bændur
til að gera vel, vanda jarðvinnslu og
hámarka uppskeru – sem er um leið
best fyrir umhverfið. Þannig gæti
land sem skilar tveimur tonnum
skilað fjórum tonnum með réttri
þekkingu og vandvirkni. Bóndinn
gæti þar með tvöfaldað stuðning
sinn,“ bendir Helgi á.
Egill segir að hugmyndin sé
að framleiðslustuðningur yrði
smám saman trappaður niður
þegar markmið um aukna innan
landsframleiðslu verði náð. „Passa
þyrfti upp á að hann eigngerist ekki.“
Markmiðið sé sjálfsnægt í
byggframleiðslu, sem hópurinn
hefur reiknað út að sé á milli 35 og
45 þúsund tonn og 80 þúsund tonna
framleiðsla af hveiti.
Kornið er fyrst og fremst ætlað
í fóður en þegar manneldiskröfum
er náð hækkar virði þess. Markaður
með hafra er töluvert minni, þar sem
það fer lítið í fóður.
Telja þeir nokkuð raunhæft að
komast nálægt markmiðunum á
áratug í bygg og hafrarækt miðað við
þá sviðsmynd sem þeir hafa dregið
upp en markmið í hveitiræktun tekur
væntanlega lengri tíma.
Merkileg staða
Í lokaskýrslunni má einnig finna
kafla eftir Daða Má Kristófersson,
prófessor í umhverfis og
auðlindafræði.
„Í þeim kafla færir hann rök
fyrir því að með réttum aðgerðum
sé kornrækt á Íslandi raunverulega
samkeppnishæf við erlenda
framleiðslu. Ástæðan er sú að við
erum nær á pari í kostnaði, sem
auðveldlega væri hægt að minnka
með betri vélakosti og úrvinnslu.
Við búum við það að eiga fullt af
frjósömu landi, ódýrt rafmagn og
heitt vatn. Veikleiki okkar er kalt
veðurfar og ofsafengin sem við getum
brugðist við t.d. með skjólbeltarækt
og plöntukynbótum. En á meðan
eru líka veikleikar erlendis, s.s.
miklir þurrkar, skordýraplágur og
ófrjósamur jarðvegur. Í kaflanum
kemur fram að við eigum margt inni
og ef okkur tekst að byggja innviði
sem lækkar kostnað við framleiðslu
þá erum við komin í ansi merkilega
stöðu,“ segir Helgi.
/ghp
Starfshópurinn, þeir Helgi Eyleifur Þorvaldsson, Hrannar Smári Hilmarsson
og Egill Gautason hjá LbhÍ, kynntu sér fyrirkomulag kornræktar í
nágrannalöndunum. Hér eru þeir að kynna sér aðstæður í Noregi. Mynd / LbhÍ
Aðgerðaráætlun starfshóps matvælaráðherra telur að framleiðslutengdur stuðningur skapi hvata fyrir bændur til
að vanda til verka við kornrækt.
Dagur Freyr Jónasson og Ragnhildur Ásta Ragnarsdóttir, bændur í
Norðurhaga í Austur-Húnavatnssýslu. Mynd / Aðsend
Yngsti bóndi landsins
Fyrir skemmstu tóku Ragnhildur
Ásta Ragnarsdóttir og Dagur
Freyr Jónasson við búi foreldra
Ragnhildar. Norðurhagi er
500 kinda sauðfjárbú við Þing
í Húnabyggð.
Ragnhildur segist hafa verið
viðloðandi búskapinn frá ómunatíð.
Foreldrar hennar heita Þorbjörg
Pálsdóttir og Ragnar Bjarnason,
en Ragnar ólst upp í Haga og
byggði Norðurhaga með skiptingu
jarðarinnar. Hún segir að mikil
veikindi hafi verið upp á síðkastið og
eldra fólkið hafi viljað stíga til hliðar
til að hleypa kærustuparinu unga
að. Sama fjölskyldan hefur byggt
jörðina frá 1915. Nú er Ragnhildur
fjórði ættliðurinn og fyrsta konan
sem tekur við kefli foreldra sinna.
Hún er yngst af tíu systkinum og er
bróðir hennar bóndi á Haga, þar sem
faðir þeirra ólst upp.
Nánast jafnaldrar
Ragnhildur og Dagur eru bæði 19
ára, en hún er ögn yngri og hlýtur
því nafnbótina yngsti bóndi landsins,
fædd í september 2003. Engin skrá
heldur utan um aldur bænda, en
hún segist þekkja Kristófer Orra
Hlynsson, sem áður bar titilinn og
að hann hafi fært henni „kyndilinn“.
Nú þegar þau hafa tekið við
lyklavöldum í Norðurhaga stefna
Ragnhildur og Dagur að endurbótum
á íbúðarhúsi og útihúsum.
Aðspurð hvaða ráð hún gefi ungu
fólki sem ætli í búskap, þá hvetur
Ragnhildur áhugasama til að nýta
alla faghjálp sem býðst.
Í búfræðinámi
Ragnhildur er á fyrsta ári í búfræði
við Landbúnaðarháskóla Íslands á
Hvanneyri. Hún dvelur við skólann
á virkum dögum og fer heim allar
helgar. Á meðan heldur Dagur til
í Norðurhaga og sér um daglegan
rekstur búsins, með aðstoð foreldra
Ragnhildar. Hann starfar einnig sem
smiður á Blönduósi.
Dagur er frá Akureyri og kynntust
þau Ragnhildur þegar þau voru bæði
við nám við Verkmenntaskólann á
Akureyri. Hún segir hann ekki hafa
stefnt að því að verða bóndi, en hafi
heillast þegar hún kynnti hann fyrir
sveitinni.
„Ég ætla að taka upp orð föður
míns og segja að enginn ætti að
reyna sauðfjárbúskap nema að
hafa óbilandi áhuga. Þetta getur
verið erfitt, en er á sama tíma mjög
skemmtilegt og krefjandi,“ segir
Ragnhildur að lokum. /ÁL