Skinfaxi - 01.02.2019, Blaðsíða 42
42 SKINFAXI
HVAÐ ER
AÐ FRÉTTA?
„Brottfall úr íþróttum er algengt,
sérstaklega meðal ungmenna
sem finna sig ekki í hópíþróttum
og hjá iðkendum sem hafa ekki
áhuga á þeim íþróttum sem eru
í boði hjá Þrótti og sækja því
æfingar í önnur sveitarfélög.
Við glímum við það, eins og
fleiri lítil félög, að lenda í vand-
ræðum með að setja saman
ellefu manna fótboltalið. Með
því að bjóða upp á „Unglinga-
hreysti“ kynnum við fyrir iðkend-
um fleiri kosti í sveitarfélaginu
og bætum grunnþekkingu þeirra á tækni í leiðinni. Þetta nýtist
þeim til framtíðar og við teljum að það geti aukið líkurnar á að
iðkendurnir nýti kostina hjá Þrótti,“ segir Petra Ruth Rúnarsdóttir,
formaður Umf. Þróttar Vogum og þjálfari á námskeiðinu. Félagið
hóf í september að bjóða nemendum í 7.–10. bekk upp á tíma í
unglingahreysti. Kennt er þrisvar í viku, klukkutíma í senn, strax
eftir skóla, og verður svo fram til áramóta og síðan aftur næsta
vor.
Petra segir að stjórn Þróttar og reyndar fólk víðar hafi áhyggjur
af unglingum sem hætti ástundun íþrótta. Hætt sé við að þeir
falli milli skips og bryggju, ef svo mætti segja, sæki í áhættu-
hegðun og annað óæskilegt. Unglingahreysti segir hún tilraun
til að sporna við slíku. Takist þetta fjölgar ekki aðeins iðkendum
heldur læra þeir líka grunnatriði og réttu tæknina við æfingar.
Grunnurinn er mikilvægur
„Allir hafa gagn af því að læra réttu grunntæknina í líkamsbeit-
ingu. Það eykur sjálfstraust iðkenda og líkurnar á því að iðkend-
ur haldi áfram að stunda íþróttir, bæði á eigin vegum og með
öðrum. Það er svo gott til framtíðar að hafa grunn til að byggja
á því að þá eru krakkarnir öruggari þegar þau fara af stað síðar
á lífsleiðinni,“ segir Petra. Á meðal þátta, sem kenndir eru í
Unglingahreysti, eru hnébeygjur, framstig og aðrir þættir sem
allir þurfa að kunna.
„Ef iðkendur kunna ekki réttu tökin missa þeir áhuga á grein-
inni. Þekking eykur því bæði líkurnar á að fólk haldi áfram í
íþróttum og að það bæti heilsufar sitt,“ segir Petra og bætir við
að inn í námið fléttist markmiðasetning og fræðsla um næringu.
Auk þess er farið í heimsóknir í líkamsræktarstöðvar og á fleiri
staði. Nemendum eru kynntir allir möguleikar hreyfingar sem
bjóðast í sveitarfélaginu.
Kynna íþróttir á þremur tungumálum
Petra segir það hafa tekið tiltölulega skamman tíma að koma
námskeiðinu af stað. Hún hafi fengið hugmyndina í fyrra, verk-
efnið var undirbúið vel í vor og svo var farið, þegar skólar hófust
í haust, að kynna Unglingahreysti og annað sem Þróttur Vogum
hefur upp á að bjóða.
„Við kynntum námskeiðið í Stóru-Vogaskóla. Krakkarnir fengu
upplýsingar um æfingatímana á þremur tungumálum. Í skólan-
um kynntum við námskeiðið á íslensku en svo fengu börnin upp-
lýsingablað heim á ensku og pólsku fyrir foreldra þeirra sem
skilja ekki íslensku,” segir Petra.
Undirtektirnar voru umfram væntingar. Petra gerði ráð fyrir
12–15 þátttakendum á námskeiðinu. „Þrír komu í fyrsta tímann.
En svo hafa krakkarnir talað saman því að þau eru nú orðin
sautján og allir segjast skemmta sér!“ segir hún.
Telja hreystitíma efla áhuga barna á íþróttum
Í grófum dráttum:
• Unglingahreysti fyrir nemendur í 7.–10. bekk.
• Kennt er þrisvar í viku, á milli kl. 15:30 og 16:30.
• Heimsóknir á ýmsa staði.
• Sund og gufa eru eftir hvern tíma.
• Námskeiðið er kynnt á íslensku og bæklingar sendir
til foreldra á ensku og pólsku.
Ungmennafélagið Þróttur Vogum bryddaði í haust upp á nýjung fyrir unga iðkendur. Þá hófust
hreystitímar fyrir nemendur í 7.–10. bekk grunnskólans. Formaður félagsins segir unglinga sækjast
eftir þekkingu um heilsu og næringu. Undirtektirnar eru gríðarlega góðar.
Petra Ruth Rúnarsdóttir, for-
maður Umf. Þróttar Vogum.