Skinfaxi

Árgangur

Skinfaxi - 01.01.2023, Blaðsíða 25

Skinfaxi - 01.01.2023, Blaðsíða 25
 S K I N FA X I 25 Jón Sverrir Sigtryggsson tók við formennsku hjá Héraðssambandi Þingeyinga því sá sem ætlaði að gera það guggnaði. Hann segir ótrúlegt hvað fólk sé óviljugt að taka að sér sjálfboðaliðastörf hjá félagasamtökum í dreifðari byggðum. „Allir eru að segja að það stefni í að okkur vanti sjálfboðaliða. En við erum því miður löngu komin þangað og þurfum næstum því að snúa upp á handlegginn á fólki til að fá það í stjórn,“ segir Jón Sverrir Sig- tryggsson, formaður Héraðssambands Þingeyinga (HSÞ). Nokkuð illa hefur gengið að virkja sjálfboðaliða í röðum Þingeyinga utan Húsavíkur til að vinna að viðburðum tengdum aðildarfélögum HSÞ og sambandinu sjálfu. Meira að segja gengur illa að manna stjórn HSÞ. Á ársþingi HSÞ í febrúar var Jón Sverrir einmitt endurkjörinn formaður stjórnar. Hann ætlaði upphaflega ekki að setjast í formannsstólinn en gerði það til að skera vin sinn úr snörunni. Enginn annar fannst Jón Sverrir var kosinn formaður á þingi HSÞ vorið 2022. Hann lýsir atburðarásinni með þeim hætti að þegar hann mætti á þingið hafi hann hitt fyrrverandi bekkjarbróður sem hafi verið formannsefni. Sá hafi haft lítinn áhuga á því en samþykkt að taka formannsembættið að sér þar eð enginn annar hafi fundist til að taka hlutverkið að sér. „Þessi vílar lítið fyrir sér. En fyrir þessu var hann kvíðinn og viður- kenndi fyrir mér að hann hefði aldrei verið eins taugastrekktur fyrir neinu og þessu. Hann fann sex aðra sem voru beðnir að setjast í for- mannsstólinn í staðinn en þeir neituðu því allir. Á þinginu sendi hann mér svo smáskilaboð og spurði hvort ég væri til í það. Ég ákvað að taka þetta á mig til að koma honum úr kvíðakastinu,“ segir Jón Sverrir. Vorum heppin að einn gleymdi kjörbréfinu Jón bendir á að því miður sé það raunin í mörgum stjórnum félaga og félagasamtaka að þar sitji fólk af því að enginn hafi fundist til að manna stöðuna. Sumir geri það af skyldurækni. Þeir brenni félagsmálakertið sitt hratt upp og hætti síðan allri aðkomu sinni að félagsmálum. „Það er ekki létt verk að finna fólk til að sitja í stjórn HSÞ. Í mínu til- viki var þetta spurning um hver nennti að taka þetta verk að sér. Fólk telur sig ekki hafa tíma til að sinna sjálfboðaliðastörfum. Samt eru þetta hlutir sem við verðum að skipta á milli okkar,“ segir hann og bætir við að í aðdraganda síðasta þings hafi vantað frambjóðanda í stjórn. En þá kom tækifærið. „Við vorum svo stálheppin að félag eins fulltrúa gleymdi kjörbréfinu hans. Þess vegna gátum við þvingað hann til þess að verða varamaður áður en þingið byrjaði,“ segir Jón Sverrir. „Ég veit ekki hvað skýrir þetta. Að stórum hluta getur þetta verið áhugaleysi. Þessi fáu sem voru virk í stjórnum sinna félaga og höfðu mikinn áhuga á félagsstarfi fyrir tíu til fimmtán árum, sérstaklega á strjál- býlli svæðum, voru í kirkjukórnum, karlakórnum, búnaðarfélaginu og kvenfélaginu. Þau eru farin að gera eitthvað annað. Það er alveg sama hvort þau eru fertug, fimmtug eða sextug. Þau hafa sinnt sínu og aðrir eiga að taka við keflinu. En við höfum enga í staðinn,“ segir hann. Á endanum ertu einn Jón segir vel hafa gengið að manna stöður sjálfboðaliða á árum áður. Fólk hafi verið skyldurækið og mætt í þau verkefni sem því hafi verið sett fyrir. En eitthvað hafi gerst eftir 2013 því fljótlega upp úr því hafi fólki fækkað sem tók að sér störf sjálfboðaliða. Jón telur skýringuna að hluta vera áhugaleysi en líka tímaleysi. Hann finnur líka fyrir þessu í tengslum við fjölmennt stórmót Þjálfa í Reykja- dal fyrstu helgina í ágúst á hverju ári. „Undirbúningur mótsins lýsir stöðunni vel. Fólk tekur alltaf vel í erindi manns í byrjun sumars. En þegar nær dregur viðburðinum heltist fólk úr lestinni. Þegar stundin rennur svo upp hætta allir við og á endanum stendurðu uppi einn,“ segir Jón að lokum. Þurfum að snúa upp á handlegginn á fólki

x

Skinfaxi

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Skinfaxi
https://timarit.is/publication/334

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.