Skinfaxi

Árgangur

Skinfaxi - 01.01.2023, Blaðsíða 17

Skinfaxi - 01.01.2023, Blaðsíða 17
 S K I N FA X I 17 Hjörleifur Kristinn Hjörleifsson hefur um ára- bil starfað í þágu UMFÍ. Í dag gegnir hann formanns- hlutverki í Héraðssambandi Snæfellsness- og Hnappa- dalssýslu, en undir sambandinu starfa íþróttafélög í Snæfellsbæ og Stykkishólmi. E ins og margir lesendur Skinfaxa hafa þegar frétt verður Lands- mót UMFÍ 50+ haldið í Stykkishólmi um Jónsmessuna á þessu ári og hefur Hjörleifur tekið að sér að vera formaður framkvæmdanefndar mótsins. Óhætt er að fullyrða að þar fari maður með reynslu, því á næsta ári eru liðin þrjátíu ár frá því að Hjörleifur kom fyrst við sögu í starfi UMFÍ. „Ég er búinn að vera sjálfboðaliði frá 1994. Byrjaði á því að fylgja börnum í íþróttastarf og fór í stjórnina þetta sama ár. Krakkarnir mínir voru þá að æfa frjálsar, körfu og fótbolta. Sá yngsti er enn að spila körfu- bolta og miðbarnið er komið í stjórnina með yngri flokka stjórn körfu- boltans,“ segir Hjörleifur og bætir við að það sé nóg um að vera því iðkendur núna séu á bilinu 180 til 200 og á öllum aldri. Hægara að fara í en úr að komast Spurður að því hvernig hann hafi tollað svona lengi í starfinu segir Hjörleifur að það sé hægara að fara í en úr að komast. „Það er ekki fólk á hverju strái til að taka við og mig langar heldur ekkert endilega úr þessu strax. Ég er alltaf að telja sjálfum mér trú um að ég hafi eitthvað fram að færa,“ segir hann og hefur rétt fyrir sér í því, þar sem hann hefur lagt ótal lóð á vogarskálarnar sem hafa eflt íþróttastarf í Snæfellsbæ og Stykkishólmi. „Það gefur mér helling að láta gott af mér leiða. Ég tek þátt í alls konar verkefnum og hef séð um marga þætti. Á köflum hefur þetta verið töluvert mikið en álagið minnkar þegar manni tekst vel að virkja fólk með sér. Þegar það tekst er lítið mál að vera formaður. Árið 2021 var gerður útikörfuboltavöllur í sjálfboðavinnu. Það tók nokkra daga og það var fínasta mæting. Ég kallaði bara fólk til eftir því sem þurfti og það var hellingur sem mætti. Við byrjuðum á þessu í ágúst og það var klárað í október. Þá sendum við út boð á Facebook að það vantaði fólk sem gæti lagt okkur lið eftir vinnu og það voru alltaf einhverjir sem mættu,“ segir Hjörleifur, sem hefur leitt margs konar sjálfboðavinnu í gegnum árin sem jafnframt hefur leitt til fjáröflunar fyrir félagið. „Við máluðum til dæmis grindverkið í kringum körfuboltavöllinn síðasta sumar. Bærinn borgaði okkur fyrir þá vinnu og sá peningur fór í fjáröflun fyrir deildir félagsins. Það var gaman að koma að svona dæmi,“ segir hann og bætir við að margt breytist í samfélaginu um leið og starfið eflist. „Núna erum við með meistaraflokka í körfubolta karla og kvenna. Fólk mætir á leiki og það gengur vel. Góð samstaða myndast og þar af leiðandi góð stemning. Það er gott að sjá þetta vaxa og daf- na. Við þurfum bara að fá stærra íþróttahús. Það gengur illa að koma öllum fyrir svo að vel sé. Þegar það verður svona sprenging í þessu góða og uppbyggilega starfi verður að vera pláss fyrir alla.“ Hundrað prósenta þátttaka hjá þeim yngstu Síðustu árin hefur iðkendum fjölgað mjög hratt hjá aðildarfélögum HSH. Vöxturinn hefur verið sérstaklega hraður síðastliðinn vetur. Hjörleifur segir þetta mögulega skýrast af vakningu hjá foreldrum og börnum um að börnin byrji snemma að stunda íþróttir. „Fólk er líka eflaust glatt að losna úr Covid-leiðindunum og langar að vera í félagsskap við aðra. Ég hef heyrt að sums staðar á landinu hafi þátttaka dregist saman en svo er ekki hér í Stykkishólmi, því hér færist allt í aukana,“ segir hann, en í Stykkishólmi er boðið upp á þjálfun í körfubolta, fótbolta og badminton. „Ég held að ég geti fullyrt að það sé hundrað prósenta þátttaka í starfinu hjá þessum yngstu,“ segir Hjörleifur. Engum þarf að leiðast á Landsmóti 50+ En hvernig skyldi ganga að undirbúa landsmótið fyrir 50+? „Það hafa þegar verið haldnir nokkrir fundir og þetta er allt á góðri leið,“ segir formaðurinn. „Það verður keppti í botsía, pútti og golfi sem golfklúbburinn sér um, frjálsum, sundi, hestaíþróttum, borðtennis, badminton, pílu og ríngó sem er einhvers konar afbrigði af blaki,“ segir hann og útskýrir að í ríngó séu tveir í liði sem kasti hringjum yfir net og að tveir hringir þurfi alltaf að vera í loftinu í einu. „Svo er keppt í frisbígolfi, en við erum með fínan völl í það sem var settur upp fyrir tveimur árum,“ segir hann. Spurður hversu mörgum gestum hann eigi von á segir hann svolítið erfitt að ráða í það en bætir við að engum þurfi að leiðast. „Mótið verð- ur haldið með Dönskum dögum á Jónsmessu, þannig að það verður nóg um að vera. Ball með Stjórninni á laugardagskvöldinu og alls konar uppákomur. Svo háttar svo skemmtilega til að þetta verður allt á sama blettinum; íþróttavöllurinn, sundlaugin, golfvöllurinn og tjaldstæðið þar mitt á milli,“ segir hann og þá er líklegast ráð að bóka gistipláss með góðum fyrirvara því mótið lofar sannarlega góðu. Ungar íþróttakempur úr Snæfelli.

x

Skinfaxi

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Skinfaxi
https://timarit.is/publication/334

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.