Skinfaxi

Árgangur

Skinfaxi - 01.01.2023, Blaðsíða 24

Skinfaxi - 01.01.2023, Blaðsíða 24
24 S K I N FA X I Embla Líf Hallsdóttir er formaður Ungmenna- ráðs UMFÍ. Ráðið vinnur að undirbúningi ung- mennaráðstefnunnar Ungt fólk og lýðræði og við- burðinum Samtal ungmennaráða, sem er vett- vangur fyrir ungmennaráð af öllu landinu. „Við þurfum svolítið að útskýra fyrir fólki að við fáum ekkert greitt fyrir vinnuna okkar, jafnvel þótt við hvetjum aðra í öðrum ungmennaráðum til að fá greitt fyrir störf sín,“ segir Embla Líf Hallsdóttir, formaður Ung- mennaráðs UMFÍ. Vinna í ungmennaráðinu er sjálfboðaliðastarf með sama hætti og seta í stjórn UMFÍ. Þetta er þó mikil vinna, sérstaklega við undirbúning viðburða ráðsins. Ungmennaráðið er að undirbúa viðburði eins og samtal ungmennaráða, skemmtisólarhring og fundi með öðrum ráðum auk stóru ráðstefnunnar Ungt fólk og lýðræði, sem verður í september. „Þetta er heilmikil vinna, enda erum við að vinna að mörgu sem hef- ur sjaldan verið gert, þar á meðal samtali ungmennaráða, þar sem öll- um ungmennaráðum á landinu er boðið í samtal. Okkur fannst vanta vettvang fyrir ungmennaráðin, stað þar sem þau gætu hist og rætt saman um starfið. Við þurfum ekki að finna upp hjólið í hverju horni heldur getum við gert það saman. Nú stefnum við á einn fund í Reykja- vík og annan á Akureyri. Við erum búin að funda fimmtán sinnum um þessi verkefni og hver fundur er allavega ein og hálf klukkustund. Þetta er dágóður tími þegar allt er tekið saman,“ segir Embla. Gaman fyrir ungt fólk að taka þátt Í ungmennaráði UMFÍ sitja átta einstaklingar af öllu landinu á aldrinum 16–25 ára. Venjulega er ráðið endurnýjað með sambærilegum hætti og aðrar nefndir UMFÍ, á sambandsþingum sem haldið er á tveggja ára fresti. Nýverið samþykkti þó stjórn UMFÍ ósk ungmennaráðsins um að seta í ráðinu yrði opnari svo að ungmennaráðið gæti endurnýjað sig hraðar. Mikið er líka um að vera hjá meðlimum ráðsins, sem flestir eru í fullu námi og virkir í fleiri ráðum á borð við ungmennaráð sveitarfélaga. Sara J. Geirsdóttir, sem situr í ungmennaráði UMFÍ, á einmitt sæti í ungmennaráði UNICEF. Embla byrjaði sömuleiðis snemma að vinna í ungmennaráðum. Það fyrsta var Ungmennaráð Mosfellsbæjar, sem hún tók sæti í þegar hún var í tíunda bekk í grunnskóla. Tilurð þessa segir hún þá að deildar- stjóri í skólanum hafi komið að máli við sig og spurt hvort hún væri til í að prófa að sitja í ráðinu. Það gerði hún og fannst gaman, enda tók ráðið virkan þátt í starfi sveitarfélagsins. Sjálfboðastarf er gott fyrir ferilskrána Embla situr enn í fjölda annarra ráða og nefnda, meðal annars sem forseti nemendafélagsins á Bifröst. Hún segir þetta gott fyrir framtíðina og hvetur því ungt fólk til að setjast í ráð og nefndir og sinna starfi sjálfboðaliða. „Ég er með skjal þar sem ég held utan um alla sjálfboðaliðavinnuna mína og nefndirnar sem ég sit í. Þar færi ég inn tilvísanir á greinar og viðtöl. Þetta er gott fyrir ferilskrána og bætir hana,“ segir Embla en leggur jafnframt áherslu á að halda verði vel utan um alla sjálfboðaliða, hvaða starfi sem þeir sinna, því ef mikið verði á þá lagt sé hætt við að þeir bugist, brenni út og hætti. „Fólk þarf að vilja halda áfram og taka þátt á öllum aldri. Starf sjálf- boðaliða á líka að vera gaman því við tökum svo margt að okkur. Þess vegna skiptir máli að lyfta starfinu upp og sýna hvað það er skemmti- legt. En maður þarf að vera skipulagður til að sinna þessu starfi,“ segir hún og mælir með því að viðurkenna verðmæti starfa sjálfboðaliða með einhverjum hætti til að sýna betur ávinning þess, bæði afrakstur vinnunnar og áhrifin á sjálfboðaliðann sjálfan. „Störf sjálfboðaliða eru mikilvæg samfélagsleg verkefni, hluti af félagsfærni og leiðtogaþjálfun. Þetta er svo mikil reynsla. Margir þættir spila inn í og fólk þarf að fá eitthvað fyrir vinnu sína. Þess vegna gæti það hjálpað ungu fólki að meta störf þess til eininga í skólum. Sjálf held ég áfram að sitja í ráðum af því að ég finn að vinna mín skilar sér til annarra, ég er að gera gagn,“ segir Embla Líf. Starf sjálfboðaliða er gott fyrir ferilskrána

x

Skinfaxi

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Skinfaxi
https://timarit.is/publication/334

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.