Bókatíðindi - 01.12.2013, Page 141
Hákonar saga er rituð 1264–65 af Sturlu Þórðarsyni sagnaritara að beiðni Magnúsar lagabætis,
sonar Hákonar. Hákon var við völd 1217–1263, eða lengur en nokkur annar Noregskonungur sem
vitað er um, enda hefur hann fengið viðurnefnið „gamli“ í íslenskum heimildum. Hákonar saga er
merkasta heimild sem varðveitt er um sögu Noregs á miðöldum, en um leið er hún hluti af íslenskri
bókmenntasögu þar sem hún er rituð af Íslendingi. Þá fá viðskipti konungs við Íslendinga verulegt
rými í sögunni, og ýmsir íslenskir höfðingjar birtast þar í öðru ljósi heldur en í Sturlungu eða öðrum
íslenskum heimildum. Stór hluti sögunnar fjallar um viðskipti Hákonar og Skúla jarls, tengdaföður
hans, sem síðar gerði uppreisn gegn honum og tók sér konungsnafn. Sagan er samtímasaga og
bregður upp skýrum myndum af persónum og aðstæðum sem höfundur þekkti sjálfur af eigin raun.
Böglunga saga er rituð í beinu framhaldi af Sverris sögu og brúar bilið milli hennar og Hákonar
sögu. Sagan hefst á valdatöku Hákonar Sverrissonar 1202, sáttum milli konungs og erkibiskups, en
síðan rekur hún hvernig ófriður blossaði upp að nýju milli flokka Bagla og Birkibeina eftir skyndilegt
andlát Hákonar á nýársdag 1204. Sagt er frá linnulausum bardögum um gervallan Noreg fram að
sáttafundi í Hvítingseyjum 1208. Síðan eru helstu atburðir raktir fram til andláts Inga konungs
Bárðarsonar og valdatöku Hákonar Hákonarsonar 1217.
Útgáfur Íslenzkra fornrita eru gerðar úr garði með rækilegum inngangi og skýringum á kveðskap
og torskildum orðum neðanmáls, auk sögulegrar, mannfræðilegrar og landfræðilegrar glöggvunar á
atburðum og aðstæðum þar sem þurfa þykir. Myndir, kort og skrár prýða útgáfuna.
TVÖ NÝ BINDI
ÍSLENZKRA FORNRITA
HÁKONAR SAGA
Dreifing: