Úrval - 01.03.1975, Síða 92
þótt ofmælin brynnu á vörum,
hve viðkvæm og ljúf hún leiddi
hinn litla son þeirra beggja,
hve kvenleg hún klæði breiddi
á kvöldin á rekkju tveggja,
og hversu, er að baki baðma
lauk bliknaður dagur flótta,
þau fléttuðu sig í faðma
í fullsælu og drottins ótta.
Og Adam brá þegar á eril,
og einstöku blóðdropa sá hann
á strjálingi um flóttans feril,
— að fljótinu helga lá hann.
Hann leit hana á bakkans barmi
með barnið Kain til hliðar,
í andanum hrjáða af harmi
og heiftúð, án stundlegs friðar.
Til Evu hann skundaði að ánni:
„Mig iðrar að slá þig og særa!
— nú þvæ ég þér blóð af bránni
úr blessaðri Efrat, kæra!
við brjóst þér ég lauf skal leggja,
sem lækni þitt særða hjarta,
og taka byrði okkar beggja
á bak mitt, án þess að kvarta!
Þú ein getur létt mér amann
við útlegðarkjörin hörðu,
við tvö eigum sælu saman
og sorg á þessari jörðu,
hvar snöru okkur virðist vefa
hver vera, sem kvik má heita!“
Svo talaði Adam, en Eva
gerði ekki að játa eða neita.
Og aftur varð Adam hljóður
og úfinn af þykkju á svipinn,
um hugann fór hefndarmóður,
og hatri varð lundin gripin.