Goðasteinn - 01.06.1978, Side 94
í fjölda hluta í málmsmíði, tréskurði og teikningu. Hér er ekki fjat-
stætt að minnast á skurðinn á Valþjófsstaðahurðinni, sum blöðin á
skildinum eru með auðsæjum einkennum orma- og drekahausa,
jafnvel manna, í frjálsri útfærslu. Þrír grannir hringir skilja að
skrautfléttuna og leturlínuna. Miðhringurinn er gerður af deplum
eða punktum. Allt verkið lýsir því að hér hefur æfður meistari
farið um höndum.
Lykill var lengi tákn valds og virðingar og var með nokkrum
hætti stöðutákn konu, sem átti húsum að ráða. Ekki þótti lítils um
vert að hafa lyklavöldin innan stokks á heimili. Steinvör Sighvats-
dóttir húsfreyja á Keldum segir við Hálfdán bónda sinn árið 1242:
,,ek mun fá þér af hendi búrluklana.“ Má af því ráða að sérsvið
þeirra lyklavaida er búrdyr og búrhirslur. I þann tíð voru vasar
ekki komnir í tísku og allar götur frá miðöldum til loka 18. aldar
virðast konur hafa borið lykla sína við belti sér. 1 Jónsbókarhand-
ritinu AM 345 fol. frá 16. öld eru teiknaðar hefðarkonur, sem
bera mikla skildi við mitti sér og hanga við pyngjur í löngum lind-
um. Myndir af hefðarkonum í Ferðabók Eggerts Ólafssonar frá
miðri 18. öld bera það greinilega með sér að sú breyting er á orðin
að lyklahringur er kominn við beltið í stað gömlu sylgjunnar. Lykla-
hringir af þeirri gerð eru vei þekktir í söfnum.
1 æsku minni var það löngu liðin tíð að konur bæru lykla við
belti, pilsvasinn hafði tekið við hlutverki beltis, og vel man ég gaml-
ar konur, sem geymdu lyklakippuna sína í honum, þetta var líkt
og áfangi á langri braut. Búrkistur voru þá ekki með öllu úr sög-
unni og vissara þótti að láta ekki hvern sem var ganga í þær. Pall-
kistlar kvenna voru einnig flestir með góðri læsingu. Síst er því
að furða að ég hafi orðið nokkuð fengsæll í söfnun lykla og lykla-
hringa, en lyklasylgja Haralds Ólafssonar er einstæður gripur í
Skógasafni, fyllir þar autt rúm. Af þeirri ástæðu einni er hún safn-
inu merkisgripur, en ein sér eða innan um fjölda annarra gripa
mun hún jafnan vekja athygli sem fulltrúi mikillar menningar og
listar „langt fram á horfinni öld“. Ekkert mælir því í móti að
sylgjan geti verið smíði 16. aldar og því þá ekki að kenna hana
til Önnu í Teigi, hver sem hún hefur annars verið, höfðingskonan,
sem undi því ekki að sjá skjöldinn sinn góða innan um ístöð og
beislabúnað.
92
Goðasteinn