Nýir pennar - 15.04.1947, Qupperneq 57
um á hverju sumri bezta vín í heimi úr eini og hrútaberjum skóg-
arins. Hún hálffyllti hatt hans sjöstjörnum og villirósum og sagð-
ist ætla að láta slík blóm standa blómguð árið í kring í svefnhúsi
þeirra, er þau væru gift, — það væri alltaf sumar einhvers staðar
í skútum eða skógarbotni á vetrum, þar sem hún gæti lesið þau.
En hann sá ekki blómin, sá ekkert nema unnustuna, sem honum
fannst blíðari en draumur. Þau hlupu stundum heilar júnínætur
um skóginn, — urðu frámuna við að anda að sér anganinni af
birki og víði og reyni og úr reyrgresinu, hlupu upp að Þrífossa-
gili, þar sem feikilega hár foss féll með kristallsóm, klifu hæstu
hamra til þess eins að sjá sem bezt skriðjöklafossana og Lóma-
gnúp, er var sem blátt, höfugt regnský, hversu heiðríkt sem *'ar.
En upprifjun hans lauk sem fyrr á minningum um brostnar
vonir og svik og á tryllingshlátri. En hve hún hafði verið fölsk.
Höfðu orð hennar alltaf verið önglar, sem varpað er á miðum
eftir bráð?
Enn einu sinni hvíslaði maðurinn nafni unnustunnar eins og
bæn. Hversu sæll hafði hann alltaf verið í návist hennar, — naum-
ast vitað, hvort hann var á himni eða jörðu, naumast vitað, hvort
sumarið var skemmtilegra en veturinn. Það var líka eins og gleði
hennar væri aldrei fullkomin, nema hann samgleddist henni. Ef
hún hafði gert fallega skó, ofið góða einskeftu, saumað snotra
brjósthlíf eða fundið upp nýtt útprjón, þá var hún ckki í rónni,
fyrr en hann hafði hrósað því. Hrós annarra heimilismanna virt-
ist henni eigi mikls virði. Eða hve hún sóttist eftir að vera með
honum einum. Þá er hann var að skera torf á vorin, en hún að
rífa mosa eða tína í eldinn, lagði hún langan krók á leið sína
bara til að geta hitt hann. Blaut pælan var þó engan veginn fýsi-
legur staður til ástafunda.
Hann hélt áfram að teyga minningarnar um hana eins og dauð-
þyrstur maður vatn úr hófspori.
Eitt sinn að vetrarlagi fóru þau á dansleik í aðra sveit. A heim-.
Ieiðinni gerði fjúk svo mikið, að þau villtust. í hálft dægur var
þreifandi snjókoma, færð þyngdist, og alltaf voru þau að villast.
55