Goðasteinn - 01.09.2005, Síða 25
Goðasteinn 2005
við að þjónustunni þætti nokkuð misskipt við borðið og óneitanlega fengu sumir
kvenfélagsmeðlimir elskulegri þjónustu en aðrar, hinum til mikillar kátínu.
Á þessum tímamótum hvarflaði hugurinn heim og til þeirra aðstæðna sem
stofnendur kvenfélagsins bjuggu við fyrir 70 árum síðan og þeirra líf snerist um.
Trúlegt er að þær hafi verið með okkur í anda og tekið þátt í gleðinni þó aðstæður
þessar kæmu þeim áreiðanlega nokkuð spánskt fyrir sjónir. Að máltíð lokinni
ákváðu flestar að ganga heim á hótel en nokkrar tóku leigubíl. Gaman var að rölta
heim á hótel í kvöldmyrkrinu og setjast svo inn á hótelkrána og skála fyrir kven-
félaginu. Tíndumst við svo ein af annarri upp á herbergi og höfum áreiðanlega
allar sofnað með bros á vör eftir langan en skemmtilegan dag.
Rann nú laugardagurinn upp og var veðurútlitið frekar þungbúið en í dag
ætlaði hluti hópsins að fara í útsýnisferð út fyrir borgarmörkin og líta hinar
margfrægu skosku heiðar. Hinn hluti hópsins ætlaði hins vegar að eyða deginum í
borginni, skoða sig um og jafnvel að versla svolítið ef tækifæri gæfist til sem
vafðist að sjálfsögðu ekki fyrir okkur. Kvenfélagsmeðlimir týndust niður í
morgunmat og ekki laust við að veðurfarið virtist hafa haft áhrif á einhverjar sem
fengið höfðu styttri nætursvefn en aðrar, nokkuð lágskýjað á köflum, en þegar
leið á morguninn fór að rofa til og eftir góðan kaffibolla var útlitið bara nokkuð
bjart. Sveitaferðarkonur stigu upp í rútu og síðan var haldið af stað sem leið lá,
beint út úr borginni. Meðan ekið var, benti fararstjórinn okkur á margvíslegar
byggingar, skólahúsnæði og annað markvert. Eftir því sem lengra var farið sá
maður vel hve Edinborg stendur í miklum halla en í raun og veru er hún á nokkr-
um hæðum.
Kjartan fararstjóri lýsti umhverfinu fyrir okkur, tengdi það sögu Skotlands og
einnig ýmsum bókmenntum og sögnum sem mörg okkar könnuðust við. Byrjað
var á að heimsækja hinn fallega Stirling-kastala sem Skotar og Englendingar
börðust löngum um, en hann stendur upp á hæð og gott útsýni er úr kastalanum til
allra átta. Kvikmyndin Braveheart var einmitt tekin upp á þeim slóðum og sagði
fararstjórinn að eitt af skylduverkefnum Skotlandsfara væri að sjá þá mynd.
Fengum við að ganga um og skoða kastalann.
Byrjuðum á að fara í eldhúsið sem var niðri í kjallara. Þar var búið að útbúa
nokkurs konar leikmynd þar sem var eldabuska, vikapiltur og vinnumenn,
matvæli á borðum og hangandi niður úr loftinu, pottur á hlóðum, mjólkurpollur á
gólfi sem köttur var að lepja og svo mætti lengi telja. Samhliða voru spiluð til-
heyrandi hljóð af segulbandi þannig að það var eins og maður kæmi í átjándu
aldar eldhús og dagleg störf væru þar í fullum gangi. Mjög skemmtileg upplifun.
Þar næst gengum við um hátíðarsali þar sem sumar okkar tylltu sér í hásæti og
hvíldu lúin bein og skoðuðum við kapelluna. Var hún mikil andstæða við St.
Margaret's Chapel í Edinborgarkastala því hér var hátt til lofts og vítt til veggja.
-23-