Goðasteinn - 01.09.2005, Page 60
Goðasteinn 2005
komið í augað, því að Valmundur var kominn með hita. Ákveðið var að flytja
hann á sjúkrahúsið á Stórólfshvoli. Einar sonur hans sem var orðinn 7 ára man vel
eftir því þegar faðir hans reið úr hlaði í fylgd nágrannans Árna í Fróðholtshjáleigu
sem fylgdi honum á hesti austur fyrir Uxahrygg að bílnum sem þar beið. Helgi
læknir lagði á það ríka áherslu að Valmundur blotnaði ekki í fætuma og honum
yrði ekki kalt vegna hitans sem hann var kominn með. Þetta var löngu fyrir daga
fúkkalyfja nútímans.
Þegar á sjúkrahúsið kom var ekkert val. Ætti að bjarga lífi Valmundar og
sjóninni á hinu auganu, þá varð að fjarlæja slasaða augað strax sem Helgi gerði
með aðstoð Oddnýjar konu sinnar, svæfingu annaðist Sigurður Gíslason bóndi á
Vindási sem var vanur að aðstoða Helga við læknisstörf þegar svæfinga var þörf.
Er ekki að orðlengja það að aðgerðin heppnaðist eins og best varð á kosið. Þó
að Valmundur væri nokkuð lengi að jafna sig eftir aðgerðina, fékk hann fulla
heilsu og lifði langa æfi. Hann lést 16. september 1972.
Samtímis Valmundi á stofu lágu líklega tveir sjúklingar. Annar þeirra var
Baldvin Sigurðsson þá heimilismaður í Miðeyjarhólmi í Austur-Landeyjum en
hefur í mörg ár búið í Eyvindarhólum undir Austur-Eyjafjöllum. Hann var þarna
vegna handleggsbrots og einhverra áverka sem hann hlaut er bíll valt við vegar-
lagningu að gömlu Markarfljótsbrúnni. Hver hinn maðurinn var er ekki ljóst en
Einar Valmundsson minnir að sá hafi verið skorinn upp við botnlangabólgu.
En stundum var ekki einu sinni möguleiki á að fara með menn á sjúkrahúsið.
Hvort það var fyrir þessa daga veit ég ekki með vissu. Hitt man ég að oft var vitn-
að í það heima á Lágafelli, þegar Helgi Jónasson skar Jón heitinn Erlendsson
bónda í Vorsabæ upp vegna kviðslits þar sem garnirnar voru komnar út. Þessa
aðgerð framkvæmdi hann heima í Vorsabæ. Aðstöðunni var nú ekki fyrir að fara,
sem skurðarborð notaði hann hurð af útihjalli sem lögð var milli rúma. En
aðgerðin heppnaðist fullkomlega og Jón lifði langa ævi eftir þetta.
Við þetta vil ég svo bæta smábroti úr frásögn Guðbjargar Guðjónsdóttur frá
Snotru í Austur-Landeyjum. Frásögn hennar heitir „Gömul minning“ og birtist í
Ársriti Sambands sunnlenskra kvenna árið 1987, bls. 22-23.
„Árið 1934 bjó Guðbjörg ásamt manni sínum Ágústi Kristjánssyni frá
Auraseli að Ljótarstöðum í Austur-Landeyjum. I byrjun engjasláttar veiktist
Agúst svo hastarlega af blóðeitrun með meiru að honum var ekki hugað líf.
Hitinn var það hár að það var ekki viðlit aðflytja hann undir lœknishendur.
Læknirinn Helgi Jónasson á Stórólfshvoli var sóttur dag eftir dag í langan
tíma. Alltaf sama sagan, svæfing og nýir skurðir. Þetta byrjaði í annarri
hendinni ogfœrðist upp báða handleggi. Við þessu voru engin meðul sem
nú myndu vinna á þessu, svo sem pensillín og önnur fúkkalyf, þau komu
-58-