Goðasteinn - 01.09.2022, Síða 51
49
Goðasteinn 2022
og afa. Enda var það fyrsta sem mamma gerði þegar hún kom í Fjarkastokk að
líta á Hekluna og dæsa. Svo sagði hún: „Jæja, hér snýr hún rétt.“
Við Steinþór kynntumst þegar við vorum bæði á fjórða ári í háskólanámi,
hann í læknisfræði og ég í lögfræði. Og það var svo sem ekki flókið; hann bauð
mér á stefnumót og sótti mig svo á rauðum og ryðguðum Toyota Hilux, 92 mód-
eli, og þar með var það slegið. Það veit allt sveitafólk hversu mikið er varið í
gamlan Lúxa. Sem betur fer reyndist ekki minna spunnið í drenginn en bílinn
– sem síðar kom í ljós að var gamli sæðingabíllinn frá Steinþóri eldri.
Eftir útskrift bjuggum við og störfuðum í Reykjavík í fimm ár áður en við
lögðumst í flakk. Í eitt ár flæktumst við með bakpoka um Afríku, Asíu og
Eyjaálfu.
Við fórum m.a. rúma 25.000 km á landi í Afríku í hinum ýmsu druslum
sem ýmist voru þaklausar, dekklausar eða bara nokkrum dögum á eftir áætlun.
Þetta gerði okkur kleift að kynnast heimamönnum og svo auðvitað lenda í alls
kyns þvælu sem eftir á má kalla ævintýri, s.s. bavíanaárás í Suður-Afríku, að
verða næstum bensínlaus í miðri Kalahari-eyðimörkinni, sitja undir börnum,
geitum og hænum klukkustundum saman á rútuferðum okkar og horfast í augu
við fjallagórillur í Úganda. Í Víetnam jugguðum við okkur upp hæstu byggða
tinda í norðri á grútmáttlausri vespu, sigldum í lausum bílsætum á timbur-
pramma niður Mekong-fljótið í gegnum Laos og enduðum svo á að reka Ís-
landshestaferðafyrirtæki í mánuð í Nýja-Sjálandi á meðan eigendurnir fóru í
frí til Evrópu. Að öllu þessu loknu héldum við til Ástralíu þar sem við dvöldum
í annað ár. Þar starfaði Steinþór á bráðamóttöku og lagði stund á nám í „rural
medicine“ (utanspítalalækningum) og ég lét gamlan draum verða að veruleika
og hófst handa við að skrifa.
Ári eftir dvölina í Ástralíu keyptum við Fjarkastokk. Steinþór hóf störf sem
læknir á HSu og ég hélt áfram að skrifa, ásamt því að sinna því sem til fell-
ur á slíku örbýli. Við erum hér með níu ær og einn sauð, hann Egil (nafna
Egils Helgasonar), tuttugu hænur, tíu hesta, tvær tíkur og hið alræmda katt-
aróféti Míu Músólíní. Þá erum við með ansi stóran og metnaðarfullan en mjög
vanræktan matjurtagarð (sem auðvitað þjáist af minnimáttarkennd innan um
garðlönd Þykkbæinganna), gróðurhús og reykkofa. Við reynum að nýta það
sem hér verður til, allt frá kjöti, ull og skinni til gulrótaræflanna sem ávallt
skulu drepast samviskusamlega í arfanum.