Goðasteinn - 01.09.2022, Blaðsíða 181
179
Goðasteinn 2022
hjá Austurleið til fjölda ára og var síðar flutningabílstjóri hjá Kaupfélaginu Þór
á Hellu og seinna hjá Höfn-Þríhyrningi. Um tíma var hann umsjónarmaður
byggingavörudeildar Þríhyrnings í kaupfélagi þeirra á Hellu. Seinni árin var
hann verkstjóri fræhúðunar og flutningabílstjóri hjá Landgræðslu ríkisins í
Gunnarsholti.
Eftirlifandi eiginkonu sinni, Sólveigu Stolzenwald, kynntist Hjörtur á Hellu
og gengu þau í hjónaband 23. október 1971 í Oddakirkju á Rangárvöllum. Þau
bjuggu alla tíð á Hellu og síðast í húsi sem þau byggðu sjálf, að Nestúni 7. Sam-
an varð þeim tveggja dætra auðið, Elínar og Ragnhildar Erlu. Elín býr á Hellu
með manni sínum, Viðari Rúnari Guðnasyni. Fyrir átti hún dæturnar Írenu
Sólveigu og Rebekku Rut með Sverri Norðfjörð Bergssyni og eru þær báðar
búsettar á Hellu ásamt unnustum sínum. Fyrir átti Viðar börnin Sunnu Líf, sem
á eitt barn með Einari manni sínum, Örnu Sif, sem á eitt barn með Þór manni
sínum, og yngstur barna Viðars er Rúnar Darri.
Ragnhildur Erla býr í Garðabæ með eiginmanni sínum, Svani Sævari Lár-
ussyni, og eiga þau dótturina Margréti Rós.
Hjörtur var mikill pabbi og dætrum sínum góður. Stundum fengu systurn-
ar að fara með honum á vörubílnum þegar hann keyrði út vörur á bæina. Oft
var mikið suðað um að fá að taka kettling hér, eða hvolp þar, og tókst í það
minnsta einu sinni, að sögn dætranna. Þær heyrðu líka margar frægðarsögurn-
ar í Reykjavík þegar þær fengu að fara með honum á Vöruflutningamiðstöðina
og muna pabba sinn vel í þeim mörgu ævintýrum sem hann upplifði á ferðum
sínum á vörubílnum.
Ófáar ævintýraferðir fór hann í „Dalakofa“ með fjölskylduna, jafnt að vetri
sem sumri, og liggja margar góðar sögur að baki úr þeim ferðum.
Sem rútubílstjóri kunni hann einnig ótal sögur af skemmtilegu fólki og hafði
einstaka frásagnargáfu. Það var gaman að hlusta á hann og hann átti það til að
herma eftir, sem vakti oft ómælda kátínu viðstaddra. Hann var gætinn ökumað-
ur og til þess tekið hve varlega hann fór yfir óbrúaðar ár. Óð venjulega á undan
yfir ána til að finna besta vaðið. Hann hélt mikið upp á Þórsmörk, þar sem
hann þekkti hverja þúfu og stein. Hann var einn af þeim sem tóku þátt í þeirri
stórkostlegu uppgræðslu sem átt hefur sér stað þar. Það kom enginn að tómum
kofanum þegar talið barst að hinni einstöku náttúruperlu, Þórsmörk.
Hann hafði alla tíð mikinn áhuga á trjárækt og ber garður þeirra hjóna að
Nestúni 7 á Hellu þess berlega merki sem mikill lystigarður sem Hjörtur eyddi
frístundum sínum í að hlúa að og laga, ásamt eiginkonu sinni.
Hann var stjórnarmaður í bílstjórafélagi Rangæinga og sat um tíma í stjórn
Lífeyrissjóðs Rangæinga.