Goðasteinn - 01.09.2022, Page 186
184
Goðasteinn 2022
Þau Íshildur og Sigurður byrjuðu sinn búskap í Vestmannaeyjum og þar
starfaði hún m.a. á Sjúkrahúsinu og átti það eftir að koma sér vel síðar þegar
hún m.a. aðstoðaði við bólasetningar og eitt og annað tengt heilsufari sveitunga
sinna. Þau fluttu upp á land og sinntu búskap á Ægissíðu og síðar bjuggu þau á
Helluvaði en fjölskyldan stækkaði með undraverðum hraða svo ekki var annað
í stöðunni en byggja hús, sem þau gerðu að Útskálum 7 á Hellu og þar bjuggu
þau með hópinn sinn. Lífið var ljúft, börnin stækkuðu og fengu það nánast með
móðurmjólkinni að standa sig í lífinu og að það væri ekkert sem þau gætu ekki
og umfram allt ættu þau að vera dugleg, ekkert hangs og slór og ekkert væl.
Hún vakti athygli, hún Íshildur, þegar hún flutti hingað austur, fyrir glæsi-
leika: háir hælar, tískuföt, falleg greiðsla, svo ekki sé nú talað um varalitinn.
Hún fór ekki fram hjá neinum og hún var alltaf jafn glæsileg, alveg fram á sinn
síðasta dag.
En um miðjan áttunda áratuginn dró ský fyrir sólu en þá veiktist Íshildur
alvarlega af asma og átti sá sjúkdómur eftir að hafa áhrif á hana allt hennar líf.
Árið 1982 reið annað áfall yfir fjölskylduna á Útskálum þegar Sigurður, fjöl-
skyldufaðirinn, varð bráðkvaddur hinn 29. apríl það ár, aðeins rétt 46 ára gam-
all. Nokkrum árum eftir lát Sigurðar flutti hún til Reykjavíkur og bjó þar um
tíma en hugurinn leitaði alltaf heim á Hellu og flutti hún fljótlega til baka.
Henni var margt til lista lagt og var hún einstök handverkskona, listakona
er orðið sem nær best yfir hana. Hún málaði fallegar myndir og sótti námskeið,
bæði hér heima og erlendis, en hún hafði alltaf gaman af því að ferðast og fór
hún oft til Ameríku til Öggu systur sinnar og dvaldi hún þar oft mánuðum
saman.
Síðustu árin bjó Íshildur á Hjúkrunarheimilinu Lundi þar sem hún lést að
morgni hins 23. apríl.
Sr. Elína Hrund Kristjánsdóttir