Goðasteinn - 01.09.2022, Page 195
193
Goðasteinn 2022
Þó Magga væri Reykjavíkurmær, þá átti hún ættir að rekja út á land og á
sumrin dvaldi hún oft í Stykkishólmi hjá fólkinu sínu í föðurætt og hún var
ekki gömul þegar hún fór austur á Rangárvelli í vist á Vindási. Sumarið 1963,
þegar hún var 16 ára, réði hún sig sem vinnukonu hjá Jóni móðurbróður sínum
sem bjó á Bala í Þykkvabænum. Þetta var örlagarík ákvörðun því þetta sumar
kynntist hún honum Guðjóni sínum og þau Guðjón hófu búskap í Háarima árið
eftir en þar bjuggu líka foreldrar hans Guðjóns, þau Guðni Sigurðsson frá Þúfu
í Landeyjum og Pálína Kristín Jónsdóttir frá Unhól í Þykkvabæ.
Börnin komu eitt af öðru og fyrstur fæddist hann Gestur en hans kona er
Þórunn Ósk. Pálina Kristín kom 2 árum á eftir bróður sínum og næst í röðinni
er hún Berglind Ester og hennar maður er Marcus. Yngstur er Guðni Þór, hans
kona er Lilja. Á milli Berglindar og Guðna var von á barni nr. 4 en því auðn-
aðist ekki að líta dagsins ljós.
Svo börnin sem komust á legg urðu 4 og barnabörnin eru 9 og 4 langafa- og
langömmubörn eru komin í heiminn. Þau Magga og Guðjón höfðu nóg að gera
að koma börnunum sínum til manns, svo heilagt hjónaband beið allt þar til á
gamlársdag árið 1978.
Magga var góð mamma og allra besta amma. Hún hafði alltaf tíma fyrir
barnabörnin og þvílík gleði var þegar að Guðni og Lilja ákváðu að setjast að í
Þykkvabænum og hafa 3 af barnabörnunum nánast í næsta húsi.
Hún var myndarhúsmóðir og það var allt í röð og reglu í Háarima og bæði
húsið og börnin alltaf hrein og fín. Þau höfðu orð á því, börnin hennar, að oft
hafi það verið hennar fyrsta verk á morgnanna að athuga hvort það væri þurrkur
og ef svo var þá var sett í vél og hengt út og þau veltu því stundum fyrir sér hvar
mamma fyndi eiginlega allan þennan þvott. Hún var dugleg til vinnu og vann
við búskapinn, sem og í kartöfluverksmiðjunni, samhliða heimilsstörfunum.
Hún var heimakær en tók þó þátt í samfélaginu og var virk í kvenfélaginu og
flest ef ekki öll handavinna lék í höndunum hennar. Það eru ófáir sokkarnir og
vettlingarnir eftir hana sem haldið hafa hita á fjölda manns í gegnum tíðina og
útsaumsmyndirnar eftir hana eru hver annarri fallegri og svo málaði hún líka
á postulín og steina og samt hafði hún tíma til að una sér í garðinum þegar þau
voru búin að koma honum upp í kringum húsið. Það er nú ekki beint auðvelt
að koma upp fallegum garði í Þykkvabænum þar sem það blæs nú ansi oft og
sjávarseltan liggur í loftinu.
Þó hún væri heimakær, þótti þeim Guðjóni gaman að ferðast og lengi vel
ferðuðust þau um landið með tjaldvagninn í eftirdragi og svo fóru þau nokkrar
ferðir til Kanarí.
Síðustu árin fór að halla undan fæti og minnið fór að gefa sig smátt og smátt