Goðasteinn - 01.09.2022, Page 213
211
Goðasteinn 2022
fóru ekki varhluta af veitingunum. Stundum fór Sigríður með kjötsúpuna upp
í Reyðarvatnsréttir og fagnaði sínu fólki sem var að koma af fjalli. Lengi var
sá gamli siður við lýði í Hjarðarbrekku að slátra einnig lambi til jólanna, og
kjötsúpa var þar í matinn á aðfangadag, og hefur sá siður breiðst út innan fjöl-
skyldunnar.
Sigríður var virk í starfi Kvenfélagsins Unnar á Rangárvöllum, var formaður
þess um tíma, og síðast heiðursfélagi. Hún lífgaði ævinlega upp á umhverfi
sitt og samfélag, var glaðsinna, viðmótsþýð og ræðin, og alltaf gott að hitta
hana. Sigríður ræktaði garð heima við bæ í Hjarðarbrekku og hafði af því mikla
ánægju og yndi og flutti með sér nokkrar plöntur úr garðinum þegar hún fluttist
þaðan og gróðursetti í nýjum garði á Selfossi. Þannig fylgdi gróður jarðarinnar
henni héðan úr sveitinni til nýrra heimkynna, en í Hjarðarbrekku festi hún ræt-
ur sem ung kona, vann þar ævistarf sitt og var bundin Rangárvöllunum sterkum
átthagaböndum.
Sigríður var heilsuhraust og sá um heimili sitt fram á gamals aldur. Afkom-
endur hennar voru margir skammt undan úti á Selfossi, svo heimsóknir þeirra
voru tíðar og margt sem bryddað var upp á til að auka lit og lífi við dagana.
Sigríður nafna hennar og dótturdóttir borðaði með henni í hádeginu einu sinni í
viku í 15 ár, einlægt á þriðjudögum, og jólin hélt hún í áratugi með Báru og fjöl-
skyldu. Þegar sjón Sigríðar tók að daprast síðustu misserin rýrnuðu lífsgæðin
heldur, því eftir það var henni fyrirmunað að prjóna og hugarleikfimi sudoku-
þrautanna, sem Hafrún hafði kennt henni lagið á, gat hún ekki stundað lengur.
En hugurinn var samt skýr og minnið óbilað, og hún gladdist yfir því að flytjast
austur að Lundi á Hellu á útmánuðum 2021. Dvölin þar varð þó skemmri en
skyldi. Sigríður lést á Lundi í páskavikunni, 8. apríl 2021, 96 ára að aldri. Hún
var jarðsungin frá Oddakirkju 23. apríl 2021.
Sigurður Jónsson
prestur í Laugardalsprestakalli, Reykjavík