Goðasteinn - 01.09.2022, Page 217
215
Goðasteinn 2022
á trú sína né tilfinningar, eða annað er næst stóð hjarta hans. Löngum tók vinn-
an drýgstan tíma hans ásamt ýmsum önnum er henni tengdust, sem oft gengu
fyrir öðru, bæði sýkna daga og helga, og hann tók sér ekki oft frí frá störfum.
Ekki efaðist Sigurbjartur um göfgandi hlutverk vinnunnar og leti og ómennska
var honum eitur í beinum. Um 1990 reisti hann fjölskyldu sinni sumarbústað
í landi Tobbakots, er nefndur var Árbakki. Þar hefur fjölskyldan notið margra
ánægjustunda síðan, og þar ræktaði Sigurbjartur kartöflur hvert sumar, en hann
var nostursamur ræktunarmaður og hafði gróðurhús í garðinum heima í Langa-
gerði. Þar ræktaði hann bæði rósir, gúrkur og tómata, svo ekkert skorti af gæð-
um þess á heimilið þegar gróðurinn stóð í blóma.
Sigurbjartur var félagslyndur maður og ræðinn og kunni vel við sig úti á
meðal fólks. Þau Guðbjörg höfðu mikla ánægju af gömlu dönsunum og stund-
uðu þá lengi. Á efri árum sótti hann félagsstarf aldraðra í Hæðargarði sér til
mikillar ánægju, þar sem hann skar út í tré, og í félagsstarfinu vestur á Sel-
tjarnarnesi lærði hann að vinna með gler. Þess utan var hann við rennibekkinn
í bílskúrnum heima og vann þar úr tré ýmsan fallegan nytjahlut.
Sigurbjartur var heilsuhraustur maður fram til hárrar elli og varð ekki oft
misdægurt. Upp úr níræðu tók minni hans að bila, og heldur þyngdist sá róður
með árunum. Sigurbjarti féll þungt að eldast og geta ekki lengur fengist við það
sem vilji hans og áhugi stóð til, en Guðbjörg og fjölskyldan öll var honum mik-
ilvæg stoð og stytta í veikindum hans. Sigurbjartur fluttist að hjúkrunarheim-
ilinu Hrafnistu í Laugarási 2020, og lést þar 12. maí 2021. Hann var kvaddur frá
Bústaðakirkju 27. maí og jarðsettur í Gufuneskirkjugarði.
Sigurður Jónsson
prestur í Laugardalsprestakalli, Reykjavík