Skógræktarritið - 15.10.2014, Blaðsíða 7
SKÓGRÆKTARRITIÐ 2014 5
bað mig að halda hátíðarræðu á Atlavíkursamkomu
sem Skógræktarfélag Austurlands stóð fyrir á þeim
árum. Hann vildi að fjallað yrði um viðhorf til náttúru-
verndar og umhverfismála sem þá voru að færast
í brennidepil þjóðmála, ekki síst vegna deilunnar
um Laxá í Þingeyjarsýslu. Stefán Jónsson, þáverandi
fréttamaður hjá Ríkisútvarpinu og síðar þingmaður,
hafði bent honum á mig vegna viðhorfa sem Stefáni
þóttu nokkuð óhefðbundin hjá verkfræðingi á þeim
árum - ekki síst hjá verkfræðingi sem einmitt var við-
riðinn rannsóknir á nýtingu náttúruauðlinda í þágu
atvinnuskapandi iðnaðar á vegum Rannsóknaráðs
ríkisins!
Kjarninn í þeim hugmyndum var sá - og er enn - að
friðun og vernd sé eitt form á nýtingu náttúrunnar
og fullgilt í þágu hagsældar og farsældar fyrir mann-
inn - jafnt á líðandi stundu sem fyrir framtíð hans á
jörðinni. Náttúruvernd mætti því meta til verðgildis
jafnt og aðra verðmætasköpun úr auðlindum náttúr-
unnar. Umhverfisvernd væri brýn nauðsyn fyrst
og fremst vegna mannsins sjálfs, en ekki vegna
náttúrunnar - hennar sjálfrar vegna! Við blasir
vandrataður vegur og alls ekki laus við átök um hags-
muni og leiðir. Vísindarannsóknir og tækniframfarir
gætu þó hjálpað til að sætta ólík sjónarmið.
Þetta féll í kramið hjá hinum framfarasinnaða
Sigurði Blöndal. Mér og Áslaugu konu minni var því
boðið til sumarhátíðarinnar og ræðuhalds í Atlavík
og - það sem meira var - að gista í húsmæðraskólanum
á Hallormsstað, æskuheimili Sigurðar. Í því húsi
andar enn í dag einstökum arfi mennta, menningar
og háleitra hugsjóna sem foreldrar Sigurðar hófu til
vegs með stofnun skólans. Sá andi hefur augljóslega
markað lífsstarf Sigurðar. Áhrifanna gætir víða í
landinu, en ekki síst hér um slóðir.
Þetta varð eftirminnileg dvöl fyrir okkur hjónin.
Sigurður leiddi okkur um Hallormsstaðaskóg og ég
fékk nýja innsýn í líffræðilegan grunn skógræktarinnar
og ögrun þess að rækta nýjan skóg á Íslandi - sjálfur
minnugur afleiðinga hretsins vorið 1963 á fyrstu
viðleitni mína og fjölskyldunnar í skógrækt. Enn á
ég tré sem vaxið er af stiklingi sem tekinn var við
þetta tækifæri af alaskaösp, úr kvæminu C-10 sem
Haukur Ragnarsson, forstöðumaður á Mógilsá, hafði
safnað í óshólmum Copper River í ferð sinni árið
1964 til Alaska. Stiklingurinn sá er nú orðinn mikill að
vöxtum, a.m.k. 15 m hátt, bolmikið tré og á sér mörg
klónuð afkvæmi.
Í kjölfar þessarar Atlavíkurhátíðar fylgdu svo ára-
löng samskipti við Sigurð, m.a. á vettvangi Land-
verndar og síðar Náttúruverndarráðs undir stjórn
Eysteins Jónssonar með helstu áhuga- og fræði-
mönnum þess tíma um náttúruvernd. En fyrst og
fremst snerust samskipti okkar Sigurðar um málefni
skógræktar og landgræðslu - og leiðum til að bæta
kápu hins „tötrum klædda Íslands“.
Ég var ráðinn framkvæmdastjóri Rannsóknaráðs
stuttu eftir að Sigurður var skipaður skógræktarstjóri.
Það leiddi til margvíslegra samskipta, m.a. um leiðir
til að efla skógræktarrannsóknir og tilraunir og um
markmið og leiðir í skógrækt sem fjallað var um á
þingum skógræktarmanna. Umræða milli okkar
Sigurðar varð líka til þess að gerð var könnun á stór-
tækri nytjaskógrækt í tengslum við framtíðarkönnun
forsætisráðuneytisins um miðjan 9. áratuginn sem
sýndi fram á hagkvæmni og fjölþætt áhrif skógræktar.
Eitt sinn bað Sigurður mig um aðstoð við að sameina
krafta ýmissa aðila úr skógræktar-, landgræðslu- og
garðyrkjugeiranum til að vinna úr og gera tilraunir
með afar umfangsmikinn efnivið sem Óli Valur
Hansson garðyrkjufræðingur og félagar hans,
skógarverðirnir Ágúst Árnason og Böðvar
Guðmundsson, höfðu safnað í Alaska haustið 1985.
Það verkefni leiddi af sér einstaklega ánægjulegt
samstarf við fjölmargt kunnáttu- og fagfólk sem
dýpkaði skilning á mikilvægi erfðaefnisins og síðan
afar gefandi persónuleg viðfangsefni fyrir mig í
skógrækt og garðyrkju - ekki síst í frístundum allt til
þessa dags.
Þannig hafði Sigurður varanleg og djúpstæð áhrif á
lífsstarf mitt og áhugamál og ég þykist vita að sama
gildi um marga hér inni - hvern með sínum hætti.
Sigurður var einlægur framfarasinni og áhugamálin
mörg en skógræktin og umhyggja fyrir náttúrunni og
allri fjölbreytni lífsins voru þar efst á baugi.
Sigurður var fordómalaus gagnvart öllum líftegundum
skógarins sem þrífast vildu á Íslandi, líka þeim sem
umdeildar urðu. Hann var maður líffjölbreytninnar.
Skógræktin á Íslandi hefur átt sér marga öfluga
forgöngumenn sem lagt hafa hönd á plóginn. En ég
þykist þó vita að það sé ekki síst Sigurði að þakka, -
að öðrum ólöstuðum, - að skógrækt á Íslandi hefur
komist á þann skrið sem nú blasir við. Sú jákvæða
kynning og framtíðarsýn sem hann lýsti með leiftrandi
orðum og eldmóði í ræðu og riti sannfærði bæði
almenning og ráðamenn um mikilvægi skógræktar.
Fljótsdalsáætlunin sem Sigurður beitti sér fyrir og
tókst vel var það fordæmi sem um munaði. Samþætt-
ingin þar við hagsmuni bænda réði úrslitum um það
land sem síðan hefur verið tekið til skógræktar.