Skógræktarritið - 15.10.2014, Side 42
SKÓGRÆKTARRITIÐ 201440
sem er þarna á landareigninni. Efniviðurinn er
úrvalstré víða frá Noregi og hefur hann gefið af sér
gott fræ sem Svein Saure mælti með að yrði prófað á
Íslandi en nú er beðið eftir næsta góða fræári og þá
á að fella mest af trjánum og safna könglum og setja
upp frægarð á nýjum stað. Einnig er þarna frægarður
með blágreni, sitkagreni, eðalþin og fjallaþin. Ekki
vannst okkur tími til að skoða þá nema úr fjarska né
heilsa upp á hæstu tré Noregs, tvo risaþini (Abies
grandis) á landareign Knagenhjelm. Þeir voru mældir
árið 2010 og voru þá 47,0 og 47,2 metrar að hæð og
gætu því verið komnir um og yfir 50 metra. Talið er
að þeir hafi verið gróðursettir árið 1942. Þess í stað
var okkur boðið í síðdegiskaffi í blíðskaparveðri fyrir
utan fjárhúsið forna sem áður var getið. Kvöddum við
hina aðalsbornu og alúðlegu gestgjafa og héldum til
Balestrand og Kviknes Hotel.
Hótelið er ein stærsta timburbygging í Noregi, alls
8000 m2 og hið glæsilegasta þar sem það rís upp
frá Sognarfirði. Það var valið besta sögulega hótelið
við vatn árið 2014 af samtökum sögulegra hótela
í Evrópu. Sigurd Kvitne hótelstjóri rakti fyrir okkur
sögu hótelsins en langafi hans byggði það upp á
þeim tíma sem Sognarfjörður fór að verða vinsæll
viðkomu- og dvalarstaður efna- og valdafólks víða
frá Evrópu. Vilhjálmur II Þýskalandskeisari dvaldi þar
langdvölum á sumrin með mikinn herskipaflota.
Hann var mikill vinur norska málarans Hans Dahl og
dvaldi hjá honum á Balestrand löngum stundum. Á
hótelinu hefur varðveist stóllinn sem Vilhjálmur II er
sagður hafa setið í þegar hann fékk skilaboðin sem
leiddu til þess að hann hraðaði sér heim á leið til að
hefja fyrri heimsstyrjöldina fyrir réttum 100 árum.
Annars eru mýtur um atburðarásina margar og
misvísandi. En eftir því sem næst verður komist þá
mun keisarinn hafa siglt út Sognarfjörð með hraði
í þann mund er svarfrestur Austurrísk-ungverska
keisaradæmisins til Serbíu rann út kl. 18 þann 25.
júlí 1914. Sagt er að kyndarar flotans hafi kynnt vélar
flotans svo ákaft að svart ský hafi legið yfir innan-
verðum Sognarfirði.
Málverk eftir Hans Dahl og fleiri þekkta málara
prýða veggi hótelsins, sem er sem fyrr segir allt hið
glæsilegasta. Gestgjafar okkar héldu okkur kveðjuhóf
í matsal hótelsins. Þar komum við á framfæri okkar
bestu þökkum fyrir höfðinglegar móttökur og árétt-
uðum heimboð til Íslands og ljóst er að vandi er á
höndum eftir slíkar móttökur. Við gerðum orð Þor-
móðs Kolbrúnarskálds að okkar, „Vel hefir konungur-
inn alið oss. Feitt er mér enn um hjartarætur.“
Fram kom í máli ónefnds heimildarmanns að nokkur
munur væri á karaktereinkennum fólks milli byggðar-
laga innan fylkisins. Fólk frá Nordfjord væri líkt og
fólk frá Suður- Mæri með mikla hæfileika í viðskiptum
og að skapa peningaleg verðmæti úr hlutunum. Jafn-
framt væri þjóðrækni áberandi. Fólk frá Sunnfjord
væri þekkt fyrir að fara sér hægt og á seiglunni. Þar
væri gjarnan talað í úrtöluhætti sem gæti valdið
misskilningi fyrir utanaðkomandi. Sunnfirðingar gera
ekkert án þess að borða fyrst og eru menn lífsnautna
og lista. Helstu listamenn fylkisins í nútíma, Jakob
Sande og Nikolai Astrup, eru einmitt Sunnfirðingar.
Íslendingar væru að stórum hluta Sunnfirðingar með
innblöndun frá Þelamörk og miðað við þessi stuttu
kynni á Íslendingum taldi heimildarmaður okkar að
þetta gæti vel passað.
Sognarbúar eru miklir fyrir sér og geðsveiflur miklar.
Sagt er að því innar sem farið er um Sogn því meira
gefandi verði fólkið og nái sá eiginleiki hámarki í
Lærdal.
Föstudagur 05.09
Heimfarardagur
Dagurinn var tekinn snemma og ferja tekin frá Drags-
vik til Vangsnes. Með í för var Ingvar Åberge og leið-
sagði hann okkur á íslensku og fórst það vel úr hendi.
F. v. Árni Þórólfsson, Ingunn Kjelstad og Torgrim Østgård á skógar-
höggsslóða.
Gengið um Amlaskogen.